Færsluflokkur: Bloggar

Stimpilklukkur fyrir kennara.

Ekki er öll vitleysan eins. Nýjasta útspil Reykjavíkurborgar í málefnum grunnskólanna er að setja rafrænar viðveruklukkur (stimpilklukkur) í skólana.

Fróðlegt væri að vita hvað þessi vantraustyfirlýsing kostar borgina á þessum sparnaðartímum.

Sjálfsagt er þetta angi þeirrar tísku sem hefur verið allsráðandi, að það eigi að reka skólana eins og hvert annað fyrirtæki, eins og sagt var. Það vita samt allir sem einhvern tíman hafa unnið í skóla að lögmál markaðarins eiga ekki við um allt í skólarekstri.

Mér finnst þetta ekki hvetjandi fyrir starfsfólk skólanna, sem þarf að leggja sig fram um að fara vel með og bæta á sig vinnu án þess að launin hækki þess vegna.

Ég er hræddust um að þegar kennarar hætta að fara heim með hluta vinnunnar (vegna eigin barna eða annarra persónulegra ástæðna) og það kemur í ljós hvað viðveran verður löng suma daga, að einhverjir segi að nú sé kennarar bara farnir að hangsa í skólanum.

Það sýnir sig að þar sem kennarar njóta álits og virðingar samfélagsins þar mælist árangur kennslunnar mestur í þeim greinum sem mældar eru.

Ég hélt fyrst að þetta með klukkurnar væri svona flökkusaga á netinu, en þetta er staðreynd.

 


Súlan í Viðey.

Súlan sem ég var að leita upplýsinga um í fyrri færslu er varði reistur til minningar um Skúla Magnússon 1911 í tilefni af 200 ára afmælis hans. Eggert Briem bóndi í Viðey hafði frumkvæði að því.

Súlan stendur suðaustur af Viðeyjarstofu á hól sem er 32 m á hæð yfir sjávarmál. Hóllin hefur í daglegu tali frá 1911 verið nefndur Skúlahóll.

Klettabeltið sem sést á einhverjum myndanna mun vera Heljarkinn.

Allar upplýsingar hef ég úr Reykjavík, sögustaður við sund 3. bindi. Örn og Örlygur hf. 1988.


Súlan og kvenfólkið í Viðey 1927 - Hjálp

Viðey'27-1  Viðey'27-5  Viðey'27-8 konur

Smellið á myndirnar þá stækka þær. Tvísmellið og þá opnast þær í sérstökum glugga.

Ég á í fórum mínum kynstur af myndum úr starfi KFUK og KFUM í Reykjavík millistríðsáranna.

Viðey'27-2Einhvern tíma sem oftar var ég að sýna kunnugu fólki þessar myndir. Það var stuttu eftir að súlurnar Richards Serra, umhverfis-listamannsins fræga voru settar upp í Viðey (Verkið heitir Áfangar og var sett upp 1990). Einn gesturinn vakti athygli okkar á stuðlinum sem er á tveimur þessara mynda úr Viðey frá 1927.Viðey'27-3sula

Nú langar okkur umræddan gest og mig að vita hvort einhver getur upplýst okkur um þessa súlu. Hvar var hún á eynni? Hvaða hlutverki gegndi hún? Hvað varð um hana? Og auðvitað allt sem vitað er um hana.

Viðey'27-6-husSvo er ég mjög forvitin um hvaða telpur, stúlkur og konur eru á myndunum. Sumar þykist ég þekkja en þær eru miklu fleiri sem ég þekki ekki. Ég á von á að barnabörn þeirra, sem væru þá á aldri við mig, gætu þekkt þarna langömmu, ömmu og e.t.v. fleira skyldfólk, eins og ég.

Netfangið mitt er: fridap@simnet.is.

Það er eftir öðru að geta ekki einu sinni sagt þessa sögu skipulega, en þessi súla barst í tal í gær og ég ákvað að prófa hvort Viðeyingar eða aðrir vita eitthvað um þessa súlu og freista þess að fá nöfn þessara frumkvöðlum sumarstarfs KFUK.

Gæti þessi kannski verið úr Kaldárseli?  Eða þekkir einhver þetta hús úr Viðey?Viðey'27-7við hus

Hjálp!!!

 


Bjálfi á skagfirska vísu.

Undanfarnar 6 vikur er ég búin að vera illa haldin af afleiðingum gigtar, þessa leiðinda sjúkdóms sem virðist liggja í ættinni.

Blogg og annað sem mig hefur langað til að sinna hefur því annað hvort orðið að bíða betri tíma, eða ekki orðið eins vandað og ég hefði viljað. 

 Á þessum tíma árs fæ ég alltaf einhvers konar heimþrá í Skagafjörð. Ekki það að ég hafi dvalist þar lengi eða sé tengd þangað ættarböndum. En árin sem ég átti þar voru afar sérstök og höfðu mikil áhrif á mig.

longumyri.jpgÞað var árið 1967 sem ég var ráðin til að vera skólastjóri á Húsmæðraskóla Kirkjunnar sem þá var á Löngumýri sem þá var í Seiluhreppi í Skagafirði.  Frá þeim tíma er þessi Skagafjarðarþrá mín á vorin og fram yfir Jónsmessu runnin. 

Að horfa yfir fjörðinn frá Arnarstapa á góðviðrisdegi og láta hugann reika. Sjá fyrir sér Sturlunga og Ásbirninga eða hverjir sem þar voru annars á ferð ríðandi í hópum, höfðingjar í forystu og  betri bændur, leiguliðar á eftir. Þarna handan vatna voru háðar frægar orrustur. Sértu þarna að kvöldlagi eða um helgi og ekki á valdi hugarflugs muntu enn sjá fólk, eitt á ferð en miklu oftar í hópum ríðandi um Vallhólminn.

Jónsmessunótt í Hegranesi gleymist ekki.

Árin mín á Löngumýri urðu bara 5. Margrét Katrín Jónsdóttir, vinkona mín, sem kom með mér norður hélt áfram þegar ég hætti og varð fyrst skólastjóri og eftir það forstöðukona þegar starfið breyttist.

Meðan hennar naut við sóttist ég eftir því að fá að koma norður og vinna í viku eða tvær til að njótaalbertslund_mkj.jpg birtunnar, folaldanna, fuglanna og alls sem fjörðurinn hefur upp á að bjóða og vera með Margréti. Árin sem ég bar ábyrgð á staðnum var hún stoð mín og stytta og vinskapur okkar varð það sem einhvern tíman hefði verið kallað fóstbræðralag.

Elsta dóttir mín fór ung til Möggu til fósturs á sumrin og vann þar í mörg sumur. Dóttir hennar ber nafn Margrétar.

 Það kemur alltaf betur og betur í ljós að það verður engin regla á þessum söguköflum af sjálfri mér sem ég ætlaði einu sinni að skrifa.

Allt sem hér kemur fyrir sjónir er komið til af því að ég ætlaði að gera traustum lesendum þessarar síðu grein fyrir bloggtregðunni og koma bjálfanum að í leiðinni, en merking orðsins er eitt af mörgu sem kom mér á óvart í Skagafirði.

 Hólmfríður, Jóna, Greta og Jón Björnsson, Margrét og Guðbjörg Lilja.


Maddama, kerling, fröken, frú.

,,Pant byrja" sagði sú 4 ára.

,,Nei" sagði amma.  ,,Ég ætla að byrja."

Það stóð ekki á svari. ,,Amma, við skulum bara ugla' um það. " sagði sú stutta.

,,Ha" sagði amma.

,,Bara svona:  ,,Ugla sat."

,,Jaá" það rann upp ljós fyrir ömmu sem var ánægð með hvernig dótturdóttirin brást við þessari óvæntu frekju.

Segir svo ekki meira af þessum leik, en ég fór að rifja upp þær úrtalningarvísur sem ég mundi, en til öryggis lét ég kjöltudýrið mitt sem heitir DELL leita á netinu og viti menn á ágætri síðu sem heitir Leikjavefurinn fann ég þær sem ég mundi, í nokkrum útgáfum og auðvitað fleiri. 

 

Maddama, kerling, fröken frú,

fjósakona ert þú.

 oOo

Eninga meninga súkkana di

obbelt, dobbelt, dom og og di.

 oOo

Úllen, dúllen, doff,

kikkelane koff

koffilane, bikkebane,

ullen, dullen, doff.

oOo

Ugla sat á kvisti,

átti börn og missti

eitt, tvö, þrjú,

og það varst þú.

oOo

Ella, mella, kúadella,

kross, Gullfoss,

(og þú ert úr)

oOo

Ég á sokk, sem gat er á,

far þú frá.

oOo

Gekk ég upp á eina brú,

sá ég sitja eina frú.

Hún var eins og kálffull kú,

 kannski það hafi verið þú

 oOo

Sumar af þessum romsum eru til í lengri útgáfum, en ég skrifaði þær eins langar og mér finnst ég hafi notað þær.

bangsi2.jpgÍ vetur bakaði ég þennan bangsa og annan eins fyrir 2 ára afmæli ömmustrákanna.

 

Hvað gerir maður ekki fyrir barnabörnin?


Hönd skal hendi þvo.

Öllum ber saman um að handþvottur sé ein besta vörnin gegn smitsjúkdómum. Við handlaugina fyrir framan vökudeild á Barnaspítalanum er fínt veggspjald þar sem fólk er leitt gegn um réttan handþvott með myndum og orðum.

Mér finnst þjóðráð að prenta góð spjöld með leiðbeiningum um handþvott og hafa þau sem víðast.

Ég hef nokkra reynslu af því að kenna börnum að þvo sér um hendurnar, þegar þau koma inn í kennslueldhús. Þau yngstu taka það alvarlega og vanda sig, en alltaf þarf að fylgjast með þessum  handþvotti og rifja upp af hverju hann er mikilvægur.

Þegar fuglaflensan var að stinga sér niður í austurlöndum fjær, las ég að Japönum væri svo tamt að þvo hendur sínar að það væri minnst hætta á að þeir sýktust.


mbl.is 155 tilfelli staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anna Andrésdóttir minning

 

 Ef smellt er á myndirnar stækka þær.

2002_0729_132952AAEnn ein fyrirmyndin í lífi mínu er látin. Anna Andrésdóttir var móðursystir mín og góð vinkona.

Anna og Guðmundur bjuggu í kjallara á Baldursgötu fyrst þegar ég man eftir þeim. Í sama húsi bjuggu líka Ágústa systir hennar og fjölskylda. Það var mikill samgangur milli systranna fjögurra sem bjuggu í Reykjavík og við börnin þeirra nutum þess að eiga frænkur í sveitinni. Þær voru samhentar systurnar sex frá Neðra-Hálsi í Kjós.systurnar frá hálsi

Þegar þau fluttu af Baldursgötunni fóru þau ekki langt. Þau settust að á Nönnugötu og var því enn styttra fyrir mig að fara til Önnu og strákanna. Til hennar var gott að koma og hún leysti úr ýmsum vanda

Önnu var margt til lista lagt. Hún var lengst af heimavinnandi húsmóðir. Hún annaðist velferð eiginmanns og sona. Hún var flink við matreiðslu, hélt röð og reglu, þvoði þvotta og þreif. Hún sneið, saumaði og prjónaði. Mér er þetta sérstaklega minnisstætt, og mér fannst Anna bera af í fjölhæfni og velvirkni.

Anna gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og eignaðist þar vinkonur sem hittust reglulega og nutu þess að vera saman meðan þeim entist líf og heilsa.

Á Nönnugötunni var að nokkru sambýli á sömu hæð þó um tvö heimili væri að ræða. Lengi var þar einn inngangur og sameiginlegur gangur. Þarna bjuggu líka Pétur Magnússon og Ólafía dóttir hans. Anna og Ólafía voru systkinabörn.

Anna og Guðmundur tóku á sínum tíma þátt í félagsstarfi Átthagafélags Kjósverja. Hún hélt góðu sambandi við sveitunga sína. Mörgum þótti sjálfsagt að koma við hjá Önnu þegar farið var í bæinn og aðrir gerðu sér sérstaka ferð á Nönnugötuna. Anna hafði einstakt lag á að taka á móti fólki, hlusta og sýna áhuga þeim sem sátu hjá henni hverju sinni.

Oft var mikill erill á ganginum. Einn að koma, annar að fara, fólk að drekka kaffi og tala saman, og þarna voru krakkar að leik, spegill, lítil kommóða og grænn vasi.

Þegar synirnir voru vaxnir úr grasi fór Anna að vinna í mötuneyti á Laufásborg og síðan á Grensásdeild og Borgarspítala. Hún var komin nær sextugu þegar hún keypti sér bíl og fór að keyra.

Þegar ég varð fullorðin komst ég að því að ef mig langaði að vita eitthvað um skyldmenni mín var best að leita til Önnu. Hún var í góðu sambandi við frændfólk sitt. Hún hringdi ef henni fannst of langt liðið frá því að hún hafði heyrt í mér. Umhyggja hennar var notaleg.

Fyrir nokkrum árum sagði Anna við mig að sér fyndist hún hafa verið gæfusöm. Þá var heilsan verulega farin að gefa sig og hún búin að missa Guðmund og tvo syni þeirra og ég vissi að það hafði tekið mikið á hana. Svona var hún, stillt og æðrulaus, kjörkuð, sjálfstæð og ráðagóð. Hún var líka glaðlynd og gerði oft góðlátlegt grín að sjálfri sér og fannst betra að sjá það spaugilega við aðstæður en að fjargviðrast yfir stöðunni.

Hún flutti á Litlu-Grund þegar henni fannst kominn tími til. Hún var sjálfri sér nóg og undi sér vel.

Þegar lífi Önnu móðursystur minnar er lokið er mér efst í huga virðing og þakklæti og þeim sem sakna hennar sendi ég samúðarkveðjur.

 


Skólasystur í Kvennó úr Z-bekk útskrifaðar 1959

kvennó'59Við vorum eins og kálfar á vordegi í skólaferð norður í landi. Þessi mynd var tekin í þeirri ferð.

Ég var að velta því fyrir mér hvort við ættum ekki að reyna að hittast sem flestar einhvers staðar í vor. Ég dró fram lista síðan við hittumst síðast, en þar eru bara símanúmer en engin netföng svo mér datt í hug að reyna þessa leið áður en ég færi að hringja í ykkur.

Netfangið mitt er fridap@simnet.is og síminn 6977545. Svo erum við Hjördís Sigurðardóttir vinir á Facebook.

Gaman væri að heyra í ykkur.  Bestu kveðjur Hólmfríður Pétursdóttir

 

 


Léttara hjal

 

 Ef smellt er á mynd með músinni þá stækkar hún og nöfn þeirra sem á henni eru sjást betur.

addi og mamma Líklega er kominn tími til að taka upp léttara hjal eftir harmagrát kyrruviku. Nú eru gleðidagar og páskar að baki.

Í jólaboði í vetur, þar sem afkomendur bróður míns komu saman, barst talið að vísum, þulum og romsum sem farið var með fyrir og með börnum. Ungu foreldrarnir vildu heyra hvað langamma þeirra, mamma mín og langafi höfðu farið með. Sumt mundi ég en öðru var ég búin að gleyma. Það kom í ljós að þau höfðu mestan áhuga á því sem ég mundi ekki alveg.addi og pabbi

Þá var að leggjast í rannsóknavinnu og reyna að finna heimildir. Þá komu Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur aftur í góðar þarfir.

Svona var það:

           ,, Það skal taka strákaling,

             stinga' honum ofan' í kolabing                            

             loka' hann úti' í landsynning

             láta hann hlaupa allt um kring."                                                     afi addi frida copy

addi með fríðu

            Það skal strýkja stelpuna,

            stinga ‘henni ofan' í mykjuna,

            loka' hana úti' og lemja hana

             og láta hann bola éta hana."

Er nema von að ég væri búin að gleyma þessu að mestu?                                   


 


Hvernig er hægt að launa lífgjöf?

Hvernig er hægt að launa lífgjöf?

Mikið hljótum við öll að vera þakklát fyrir starf hjálparsveitanna.

Það er ekki sjálfsagt að fólk sé tilbúið til að fara af stað hvenær sólahrings sem er, næstum hvernig sem stendur á, í hvaða veðri sem er og hvert sem er. Ekki nóg með það heldur þarf að halda sér í æfingu og sífellt að endurskoða samhæfingu og framkvæmd.

Svo þarf að afla fjár til tækjakaupa og annars útbúnaðar, en allt þetta fólk gefur vinnu sína.

Það er ekki hægt að launa lífgjöf.

Líf er ómetanlegt. En ég vil fyrir mitt leyti þakka fyrir allt starf þessa fólks sem leggur líf og limi í hættu fyrir aðra.

Það minnsta sem við getum gert er að þakka og bregðast vel við fjáröflun þeirra. 

Kveðja, HP

 

 


mbl.is Rétt viðbrögð skiptu sköpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband