Færsluflokkur: Bloggar

Getur það verið.

Getur verið ekkert sé hægt að nýta alla þessa síld? Víst var fallegt að sjá börn og fullorðna tína síld í körfur. Sér enginn möguleika á að  hreinsa Kolgrafarfjörð með stórtækari verkfærum en höndum fólks og láta síldina standa undir kostnaðinum að einhverju leiti. 

Hér á heimilinu sáum við fyrir okkur dælurnar sem notaðar eru til að afferma loðnu- og síldarskip. Væri ekki hægt að dæla upp bæði síld og grút.

Mér finnst aumt ef enginn treystir sér til að vinna úr þessu olíu og mjöl. Sennilega standa afurðirnar ekki undir kostnaði, en það er ekki ókeypis að láta síld rotna í firðinum. 


mbl.is Fylgjast með fuglalífi í Kolgrafafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsin á Fjölnisveginum.

Húsið sem nú er auglýst til sölu er Fjölisvegur 11, en það og Fjölisvegur 9 hafa bæði verið í eigu Fjölnisvegar 9 ehf.

Og hvað er ég svo sem að leiðrétta þetta? Það vita þeir sem lesið hafa bloggið mitt, sem að vísu hefur legið í dvala en er nú vakið til að skilja á milli þessara tveggja húsasem um tíma voru í eigu Hannesar Smársonar


fjöln.vetur-1.Fjölnisvegur 9 1950 - 1960.


mbl.is Glæsivilla Hannesar til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú fæ ég ekki orða bundist - þvílík vitleysa.

Það leynir sér ekki að í ráðuneytum fjármála og viðskipta eru margir vitrir menn að vinna dag og nótt að því bæta gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, að ég nú tali ekki um Seðlabankann.

Við hjónin ætlum að bregða okkur í stutta heimsókn til dóttur okkar sem býr á einu norðurlandanna. Bóndinn fór í banka með farseðalana okkar eins og þurft hefur undanfarið en það var ekki nóg, og sei sei nei. Hann gat fengið gjaldeyri fyrir sig en ekki konuna sína til bráðum 40 ára. Við höfum nefnilega ekki sama viðskiptabanka.

Ég á að fara í minn banka og hann í sinn.

Það rifjast upp fyrir mér þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda, til námsdvalar sumarlangt í Englandi, 1959. Þá eins og nú var gjaldeyrir skammtaður og ekki nóg með það heldur var gengið mismunandi eftir því til hvers átti að nota peningana. Svo var svartimarkaðurinn og í raun var gjaldeyririnn svo naum skammtaður að allir þurftu að kaup á svörtum í viðbót.

Nú er spurningin hvort næsta skref verður að fólk komi með kvittanir heim sem sanni að peningarnir hafi verið notaðir og afganginum beri að skila í sama banka og þeir voru keyptir í?

 

 


Einstakt listaverk.

Inn af bókasafninu í Mosfellsbæ er listasalur sem er opin á sama tíma og bókasafnið. Í þessum sal var opnuð samsýning þriggja kvenna þann 9. júlí.

Þessa dagana er safnið lokað en á mánudaginn 9. ágúst verður það opnað aftur og sýningunni í listasalnum lýkur föstudaginn 13. ágúst.

Listakonurnar eru Asa Shimada, Erna Elínbjörg Skúladóttir og Ólafía Guðný Erlendsdóttir. Þær sýna eitt verk hver. Þær útskrifuðust saman úr Mótun - leir og tengd efni, við Myndlistarskólann í Reykjavík. Sýninguna kallar þær Upplifun.

Árið sem liðið er frá því að þær voru saman í skólanum hafa þær dvalið í sínu landinu hver, Ólafía Guðný í Noregi við frekara nám, Asa á Íslandi en líka í Japan og fleiri löndum og Erna Elínbjörg var í Kólumbíu.

Verkin þeirra eru um samband þeirra við umhverfið. Þær nálgast efnið á mjög mismunandi hátt.

Asa er frá Japan og hefur verið á Íslandi í 6 ár. Verkið hennar heitir ,,Ichigo Ichie" en það þýðir ,,tækifæri sem býðst bara einu sinni á ævinni." Þetta verk er alveg magnað og ég held ég hafi hugsað um það á hverjum degi síðan ég sá það fyrst.

asa_1.jpgEfnið sem Asa notar er íslenskt jarðefni sem hún safnaði um allt land. Efnið hefur hún síðan unnið með handafli, mulið og sigtað þar til það varð fínt sem mjöl.

Sallinn er síðan lagður í litla ferninga (saumspor) eftir fornu saumamunstri. Það er ekki límt, en helst samt á sínum stað og yfirborðið lítur út eins og voð eða útsaumað klæði.

 

 

 

asa_munstur_1015357.jpgAsa vinnur hér með landið sjálft og hannyrðahefðina, en tæknin, sem hún notar, minnir mig mikið á hvernig fólk í austurlöndum fjær leggur út myndir úr lituðum grjónum eð mjöli (mandala)

Verkið liggur þarna á gólfinu í salnum og mér er sagt að það sé farið að láta á sjá, enda bara lagt á staðinn og engin girðing í kring, ekki einu sinni ,,snertið  ekki munina". Verkið er því viðkvæmt eins og íslensk náttúra. Ég get líka hugsað mér að daglegt líf konu sem sem kemur frá Japan og sest að á Íslandi geti líka verið viðkvæmt á stundum.

 

asa_4.jpgÞað tók Ösu sjö daga að skapa verkið á gólfinu í salnum, tíu tíma á dag. Þá var hún búin að ferðast um alla landsfjórðunga og sækja sér steina, vikur, ösku, skeljar og fleira, vinna efnið og setja í litlar flöskur og númera hvern lit.

2010_juli_045.jpgEn verkinu er ekki lokið þó sýningunni ljúki. Þá safnar hún efninu saman og býr til úr því glerunga.

 

 

 

 

Þetta er eina tækifærið á ævinni til að sjá þetta verk.

Hin verkin bíða betri tíma.

Myndir segja meira en mörg orð. Þær stækka þegar smellt er á þær og opnast í sér glugga sé smellt tvisvar.

 

 


Lýðveldisdagur - Þjóðhátíðardagur.

Ég tók eftir því í morgun að farið er að tala um lýðveldisdag þegar talað erum 17. júní. Ég hef ekki tekið eftir þessu fyrr. Það kom þó í ljós þegar betur var að gáð að á skóladagatölum grunnskóla Reykjavíkur stendur Lýðveldisdagurinn.

Danir eiga sinn Grundlovsdag 5. júní, og gera ekki mikið veður út af honum.

Í Noregi halda menn 17. maí hátíðlegan með pomp og prakt og minnast þess að stjórnarskrá þeirra var undirrituð á Eiðsvelli 1814. Ég held að margt sé líkt með Íslendingum og Norðmönnum að þessu leiti, talað er um 17. maí og 17. júní, án frekari skýringa. 

2010_mai_038.jpgÍ ár hélt ég upp á 17. maí í Bergen og dáðist að öllum búningunum sem settu mikinn svip á hátíðahöldinn. Annars finnst mér hátíðahöldin í Reykjavík mun fjölskylduvænni og fjölbreyttari en þau sem ég var viðstödd í Bergen. Þeim sem sjá um skipulagið hér hefur tekist að sjá flestum fyrir nokkurri skemmtun.

Ég vona að við höldum áfram að tala um 17. júní og þjóðhátíðardag, frekar en lýðveldisdag.

Samsæriskenningasmiðurinn gæti haldið að þetta tal um lýðveldisdaginn væri undirbúningur fyrir væntanlega ESB aðild og þróun í dönsku áttina, að dagurinn verði bara athugasemd á dagatali, en ekki hátíð þjóðar til að fagna fengnu sjálfstæði.


Gleðilegt sumar.

barrfinkur_2.jpgJafnvel nostalgíublogg verður virkt á sumardaginn fyrsta. Gleðilegt sumar góðir lesendur.

Í dag höldum við hátíð á mótum vetrar og sumars í skugga náttúrhamfara, allsherjar fjármálaklúðurs og mikilla vonbrigða

Við þessar aðstæður kemur fram það besta og það versta sem í þjóðinni býr. Dæmin eru mörg og tala fyrir sig sjálf.

Hugur minn og samúð er hjá fólkinu sem býr undir Eyjafjöllum og horfir upp á jarðir sínar fara undir gjósku. Fólk er að verð úrvinda af mikilli vinnu við að sinna búfé og ræktarlandi. Skepnum þarf líklega að koma í skjól þar til ósköpunum linnir.  Nú mætti koma úrhellisrigning eins og oft kemur þar um slóðir.

Reynsla genginna kynslóða og þekking vísindamanna bendir til þess að þegar óáraninni linnir verði aftur lífvænlegt á þessu einstaka svæði sem venjulega er svo gjöfult, meðal annars vegna jökulsins.

2010_mars_058.jpgÁ sumardaginn fyrsta er rúmlega mánuður liðinn frá vorjafndægri og birtan því í mikilli sókn. Viðkvæmur gróður reynir fyrir sér og þarf stundum að lúta í lægra haldi fyrir vetri.

 

 

 

 

 

2010_april_010.jpgSum blóm hafa í sér ótrúlega marga skammta af einhvers konar frostlegi og rísa því upp aftur og aftur eftir frost og snjóa.

Birkið í Elliðaárdalnum er að fá á sig þennan merkilega, fallega, vínrauða blæ, sem er undanfari laufgunar. 

Eftir tvo mánuði verður hér aftur náttlaus voraldar veröld. Vonandi birtir líka til í þjóðlífinu og á hamfarasvæðinu.

 


Litla fólkið.

februar_10_037.jpg

Leikföngin Litla fólkið hafa verið framleidd af Fisher- Price frá 1965. Fá leikföng hafa verið vinsælli á þessu heimili.

Nú er verið að vara við tveimur elstu gerðum þessa fólks.  Þau eru svo smávaxin að þau geta valdið köfnun ef þau festast í hálsi ungra barna.

litla_folki.jpg

Mig langar að benda þeim sem eiga svona leikföng eins og myndin í fréttinni sýnir, og treysta sér ekki til að eiga þau lengur,  að þau eru löngu orðin eftirsótt af söfnurum og sérstakar síður eru helgaðar söfnun þeirra.

Skrítið þótti mér að sjá í fréttinni að þau séu hringlaga. Ég hefði lýst þeim þannig að væru sívöl með kúlu fyrir höfuð.

Fyrst ég er farin að skrifa hér eftir hlé frá jólum langar mig að þakka þeim sem enn líta hér inn.

Bestu kveðjur.


mbl.is Varað við hættulegum leikföngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirminnileg jólagjöf.

Í kvöld gefa flestir Íslendingar hver öðrum gjafir. Gjafir sem vonandi gleðja og styrkja vináttu og fjölskyldubönd.

Það var fyrir langa löngu sem ég fékk þá jólagjöf sem er mér eftirminnilegust. Þetta var á þeim árum sem miklar breytingar áttu sér stað á högum mínum. Í fyrsta sinn sem ég hélt jól án þeirra sem höfðu verið mér nánastir, en voru nú látnir.

 Það má með sanni segja að það árið hafi sett að mér verulegan jólakvíða, ekki kvíða vegna afkomu, heldur tilfinningakvíða. Með árunum varð þessi kvíði að trega og síðar að ljúfum minningum.

Margar góðar jólagjafir hef ég fengið um ævina og sumar man ég mæta vel, en þessi eina sker sig úr. Hún var pökkuð í bláan jólapappír með myndum af landslagi í snjó og mikið ef ekki voru einhverjir með rauðar húfur á sleðum að renna sér í snjónum. Pakkinn var þungur og það gutlaði í honum. Gefandinn var Bergur, móðurbróðir, minn sem á þeim tíma vann í matvöruverslun og komst lítið frá í jólaösinni.

jol_og_avaxtados_002.jpgÞegar pakkinn var opnaður kom í ljós dós með blönduðum ávöxtum. Ég fann umhyggjuna að baki gjöfinni. Fríða varð að fá pakka og kveðju, sem segði henni að hann hugsaði til hennar.

Ég man að ég varð allt í einu svo meir og gerði mér ferð burtu frá frá frændfólkinu mínu á Stýrimannastígnum, og skældi um stund, eins og vera ber. Lagaði svo á mér  ungmeyjarandlitið og fór og drakk kaffi og skrafaði fram eftir kvöldi. 

Miðnæturmessan í Dómkirkjunni þessa nótt varð okkur Einari frænda mínum minnisstæð.

Ég óska  ykkur sem þetta lesið gleðilegra jóla. Þakka ykkur innlitin. Megi árið sem fer í hönd verða ykkur gott.


Kerlingaraup

Þá er barsarinn afstaðinn. Það var góður dagur og skemmtilegur á laugardaginn. Margt fólk lagði leið sína á Holtaveginn til að gera góð kaup og styðja við starf KFUK.

Vöfflur með rjóma og sultu runnu ljúflega niður með kaffi eða kakói og fólk gaf sér góðan tíma til að tala saman.

Mér fannst gott að hafa komið því í verk að tína fram handavinnu frumkvöðlanna, og er nú komið að lokum þessarar upprifjunar að sinni.

Stelpan, sem var bara tveggja, þriggja ára þegar hún fór að fara á saumafundi, varð nothæf í sendiferðir. Fyrst fór hún í stuttar ferðir, eins og niður á Urðarstíg til Katrínar á Fögruvöllum. Þangað sótti hún egg. Það voru hænsn í skúr í portinu. Katrín átti líka alltaf heimagerða mola, sem hún gaf ungum gestum. Mikið voru þeir góðir. Við vorum ekki ofmettuð af sælgæti á þessum árum.

Stundum var erindið annað. Það þurfti að fara með garn, eða fá lánað garn eða eitthvað annað sem var til á öðrum bænum en ekki hinum, á þessum tíma þegar margt var skammtað og lítið fékkst.

_ura_milla_gudda_kristin_emma_orhildur.jpgKristín Friðriksdóttir var fædd 1878 og því ári eldri en Kristinn afi og 5 árum eldri en Guðríður amma. Kristín giftist Steini Sigurðssyni, klæðskera 1903 og fluttu þau fyrst til Akureyrar og síðan Vestmannaeyja. Til Reykjavíkur komu þau svo aftur 1929. Þau eignuðust 10 börn, tvo dóu í bernsku.

Ég þurfti að grafa þetta upp til að gera mér grein fyrir sambandi mínu og Kristínar.

 

 

 

 

kristin_fri_riks_og_fri_a.jpgÞegar ég man fyrst eftir henni var hún hjá okkur í sumarbústaðnum í Fossvogi. Þá gekk hún við tvo stafi, samt man ég að hún fór í eltingarleik við mig, og potaði í mig með öðrum stafnum, sem mér þótti auðvitað skemmtilegast, svo ég lét auðveldlega ná mér. Hef líklega heldur ekki hlaupið hart, þá frekar en síðar. (Hvenær hættum við annars að nota hart um hraða?)

Kristín var glaðvær og mikill æringi. Mér þótti hún skemmtileg og góð.

Það var heldur ekki langt að fara í sendiferðir til Kristínar nokkrum árum seinna, því hún bjó þá á horni Bergstaðastrætis og Bragagötu, neðanvert við Bergstaðastræti, vinstra megin þegar gengið er niður Bragagötuna. Uppi á efstu hæð bjó hún og hvernig hún fór þessa stiga var mér þá þegar ráðgáta.

Kristín Fr. afmæliÞegar þær voru að sauma fyrir Vindáshlíð bjó hún hjá Önnu dóttur sinni í Miðtúni og þangað kom ég oft. Skápurinn hennar góði flutti með henni. Góður var skápurinn af því að í honum var suðusúkkulaði og servíettur. Á árunum sem hún bjó á Bergstaðastræti, sem í daglegu tali var nefndur Bergsstaðastígur, var sendillinn að safna servíettum. Þarna áskotnuðust mér dýrgripir og af þeim var þessi indæli súkkulaðiilmur.

 

 

 

 

 

Kristín Fr., Friðrik Fr. og fjölskSíðast heimsótti ég Kristínu til Auðar, dóttur hennar. Þá gat hún lítið gengið, en var enn sama Kristín og forðum elti lítið stelpuskott um sumarbústaðaland þar sem nú eru stór gatnamót ofan Borgarspítala.(Landsspítala, Fossvogi)

Kristín lést í júní 1968.

 

 

Læt ég svo lokið þessu kerlingaraupi að sinni.


Kerlingaraup.

amma og Lauga saumaÞað sem af er dags hef ég verið að  skoða í kassa sem geyma hannyrðir formæðranna. Mig langar að setja upp litla sýningu á sýnishornum af því sem upphafskonur basarsins unnu, sumar í 50 ár.

Í upphafi var mikið bróderað. Þær saumuðu út í sængurföt og dúka. Það voru kommóðudúkar, dúkar á borðstofuboð, eldhúsdúkar, dúkar á bakka, matardúkar í borðstofu og dúkar á eldhúsborð. Þær saumuðu skrauthandklæði, sem hengt var á hillu og merkt viskustykki og handklæði hengd undir.

Þetta var á þeim tíma sem danskir kalla klunketid , dúskar og dúkar, pluss, teppi og þungar gardínur og stórisar.langamma saumar

Svo kom að því að saumuð voru föt í kreppunni og prjónaðir sokkar og vettlingar og eflaust peysur líka. Þegar svo voru sett á innflutningshöft var um að gera að nota það sem til féll, eins og poka utan af hveiti og sykri. Ég á nokkra applikeraða dúka, þar sem efnisbútar sem sniðust utan af þegar saumaðar voru svuntur, eða morgunkjólar úr sirsi, voru notaðir í allskonar blóm sem saumuð voru á léreft og svo saumað í, svo úr urðu dúkar, sem mér finnst enn mjög fallegir

Eftir því sem þær eltust, vinkonurnar, minnkuðu stykkin sem þær unnu. Amma sat flesta daga og heklaði dúllur, dúka og milliverk. Heklið var handsaumað í.sængurföt og dúka. Hún bjó líka til vasaklúta. Ég hef fyrir satt að fyrstu klútarnir hafi verið úr litlum sykurpokum sem voru úr fínu lérefti. Síðan var keypt Cambridge-léreft. Þessir klútar voru þannig að hekluð var í kring um þá blúnda. Stundum var eitt hornið heklað, en oftar var saumað út í eitt hornið, ýmist krossaumur, eða kontorstingur og flatsaumur.

(Ég nota viljandi þessa dönskuskotnu íslensku, sem var notuð í Reykjavík og víðar á þessum árum.)

Gardínur í VindáshlíðÞegar þær hættu svo að geta hitist á saumafundum, komu þær sem frískari voru í heimsókn til Ömmu, stundum fleiri í einu, en oftast ein og ein. Þær komu með handavinnuna sína og stundum líka það sem þær kölluðu afleggjara, en það var munstur af hekli, saumum, orkeringu eða einhverju öðru. Amma átti líka svona léreftsbúta, sem hún var búin að hekla nýja- eða oftar nýju munstrin á, til að láta hinar fá.. Sama er að segja með blóm og horn í vasaklútana.

Lengi teiknaði amma líka á léreft, sem þær fóru svo með til að sauma, en undir lokin minnir mig að það hafi verið gert í Baldursbrá á Skólavörðustíg.

Eitt af því sem þessar vinkonur voru búnar vinna að lengi voru sumarbúðir KFUK. Loksins rættist sú ósk.  Þá tóku þær sig saman köstuðu ellibelgnum eftir megni og fóru að sauma út í gardínur og veggteppi fyrir Vindáshlíð. Jafann keyptu þær hjá Karólínu og einhvers staðar fengu þær jurtalitað ullarband.

 

sippandi englar í VindáshlíðÉg veit alls ekki um allar þær konur sem komu að  saumaskapnum, auk Guddu ömmu.. Ég veit að mæðgurnar Katrín Jónsdóttir og Jóna Þorláksdóttir á ´Fögruvöllum við Urðarstíg voru með í gardínuútsaumnum og ég held að Kristín Friðriksdóttir hafi saumað veggteppið. amma_lauga_kristin_fr_svanllaug_935905.jpg

Katrín og Jóna voru einhverjar mestu handavinnukonur sem ég hef kynnst og naut basarinn þeirra ríkulega.

kata_amma_hildar.jpg

           jona_fraenka_hildar.jpg      

 

 

         


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband