Kerlingaraup.

amma og Lauga saumaÞað sem af er dags hef ég verið að  skoða í kassa sem geyma hannyrðir formæðranna. Mig langar að setja upp litla sýningu á sýnishornum af því sem upphafskonur basarsins unnu, sumar í 50 ár.

Í upphafi var mikið bróderað. Þær saumuðu út í sængurföt og dúka. Það voru kommóðudúkar, dúkar á borðstofuboð, eldhúsdúkar, dúkar á bakka, matardúkar í borðstofu og dúkar á eldhúsborð. Þær saumuðu skrauthandklæði, sem hengt var á hillu og merkt viskustykki og handklæði hengd undir.

Þetta var á þeim tíma sem danskir kalla klunketid , dúskar og dúkar, pluss, teppi og þungar gardínur og stórisar.langamma saumar

Svo kom að því að saumuð voru föt í kreppunni og prjónaðir sokkar og vettlingar og eflaust peysur líka. Þegar svo voru sett á innflutningshöft var um að gera að nota það sem til féll, eins og poka utan af hveiti og sykri. Ég á nokkra applikeraða dúka, þar sem efnisbútar sem sniðust utan af þegar saumaðar voru svuntur, eða morgunkjólar úr sirsi, voru notaðir í allskonar blóm sem saumuð voru á léreft og svo saumað í, svo úr urðu dúkar, sem mér finnst enn mjög fallegir

Eftir því sem þær eltust, vinkonurnar, minnkuðu stykkin sem þær unnu. Amma sat flesta daga og heklaði dúllur, dúka og milliverk. Heklið var handsaumað í.sængurföt og dúka. Hún bjó líka til vasaklúta. Ég hef fyrir satt að fyrstu klútarnir hafi verið úr litlum sykurpokum sem voru úr fínu lérefti. Síðan var keypt Cambridge-léreft. Þessir klútar voru þannig að hekluð var í kring um þá blúnda. Stundum var eitt hornið heklað, en oftar var saumað út í eitt hornið, ýmist krossaumur, eða kontorstingur og flatsaumur.

(Ég nota viljandi þessa dönskuskotnu íslensku, sem var notuð í Reykjavík og víðar á þessum árum.)

Gardínur í VindáshlíðÞegar þær hættu svo að geta hitist á saumafundum, komu þær sem frískari voru í heimsókn til Ömmu, stundum fleiri í einu, en oftast ein og ein. Þær komu með handavinnuna sína og stundum líka það sem þær kölluðu afleggjara, en það var munstur af hekli, saumum, orkeringu eða einhverju öðru. Amma átti líka svona léreftsbúta, sem hún var búin að hekla nýja- eða oftar nýju munstrin á, til að láta hinar fá.. Sama er að segja með blóm og horn í vasaklútana.

Lengi teiknaði amma líka á léreft, sem þær fóru svo með til að sauma, en undir lokin minnir mig að það hafi verið gert í Baldursbrá á Skólavörðustíg.

Eitt af því sem þessar vinkonur voru búnar vinna að lengi voru sumarbúðir KFUK. Loksins rættist sú ósk.  Þá tóku þær sig saman köstuðu ellibelgnum eftir megni og fóru að sauma út í gardínur og veggteppi fyrir Vindáshlíð. Jafann keyptu þær hjá Karólínu og einhvers staðar fengu þær jurtalitað ullarband.

 

sippandi englar í VindáshlíðÉg veit alls ekki um allar þær konur sem komu að  saumaskapnum, auk Guddu ömmu.. Ég veit að mæðgurnar Katrín Jónsdóttir og Jóna Þorláksdóttir á ´Fögruvöllum við Urðarstíg voru með í gardínuútsaumnum og ég held að Kristín Friðriksdóttir hafi saumað veggteppið. amma_lauga_kristin_fr_svanllaug_935905.jpg

Katrín og Jóna voru einhverjar mestu handavinnukonur sem ég hef kynnst og naut basarinn þeirra ríkulega.

kata_amma_hildar.jpg

           jona_fraenka_hildar.jpg      

 

 

         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Það er gaman að þessu frænka. Katamma og Jóna frænka eru hugstæðar þó þær séu mér ekkert skyldar. Jóna var flaggskipið í afgreiðslunni í Reykjavíkurapóteki. Litla húsið á Urðarstígnum var alger andhverfa velferðarinnar á Víðimelnum. Þar mættust Nýja og Gamla Ísland.

Sigurbjörn Sveinsson, 26.11.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband