Anna Andrésdóttir minning

 

 Ef smellt er á myndirnar stækka þær.

2002_0729_132952AAEnn ein fyrirmyndin í lífi mínu er látin. Anna Andrésdóttir var móðursystir mín og góð vinkona.

Anna og Guðmundur bjuggu í kjallara á Baldursgötu fyrst þegar ég man eftir þeim. Í sama húsi bjuggu líka Ágústa systir hennar og fjölskylda. Það var mikill samgangur milli systranna fjögurra sem bjuggu í Reykjavík og við börnin þeirra nutum þess að eiga frænkur í sveitinni. Þær voru samhentar systurnar sex frá Neðra-Hálsi í Kjós.systurnar frá hálsi

Þegar þau fluttu af Baldursgötunni fóru þau ekki langt. Þau settust að á Nönnugötu og var því enn styttra fyrir mig að fara til Önnu og strákanna. Til hennar var gott að koma og hún leysti úr ýmsum vanda

Önnu var margt til lista lagt. Hún var lengst af heimavinnandi húsmóðir. Hún annaðist velferð eiginmanns og sona. Hún var flink við matreiðslu, hélt röð og reglu, þvoði þvotta og þreif. Hún sneið, saumaði og prjónaði. Mér er þetta sérstaklega minnisstætt, og mér fannst Anna bera af í fjölhæfni og velvirkni.

Anna gekk í Kvennaskólann í Reykjavík og eignaðist þar vinkonur sem hittust reglulega og nutu þess að vera saman meðan þeim entist líf og heilsa.

Á Nönnugötunni var að nokkru sambýli á sömu hæð þó um tvö heimili væri að ræða. Lengi var þar einn inngangur og sameiginlegur gangur. Þarna bjuggu líka Pétur Magnússon og Ólafía dóttir hans. Anna og Ólafía voru systkinabörn.

Anna og Guðmundur tóku á sínum tíma þátt í félagsstarfi Átthagafélags Kjósverja. Hún hélt góðu sambandi við sveitunga sína. Mörgum þótti sjálfsagt að koma við hjá Önnu þegar farið var í bæinn og aðrir gerðu sér sérstaka ferð á Nönnugötuna. Anna hafði einstakt lag á að taka á móti fólki, hlusta og sýna áhuga þeim sem sátu hjá henni hverju sinni.

Oft var mikill erill á ganginum. Einn að koma, annar að fara, fólk að drekka kaffi og tala saman, og þarna voru krakkar að leik, spegill, lítil kommóða og grænn vasi.

Þegar synirnir voru vaxnir úr grasi fór Anna að vinna í mötuneyti á Laufásborg og síðan á Grensásdeild og Borgarspítala. Hún var komin nær sextugu þegar hún keypti sér bíl og fór að keyra.

Þegar ég varð fullorðin komst ég að því að ef mig langaði að vita eitthvað um skyldmenni mín var best að leita til Önnu. Hún var í góðu sambandi við frændfólk sitt. Hún hringdi ef henni fannst of langt liðið frá því að hún hafði heyrt í mér. Umhyggja hennar var notaleg.

Fyrir nokkrum árum sagði Anna við mig að sér fyndist hún hafa verið gæfusöm. Þá var heilsan verulega farin að gefa sig og hún búin að missa Guðmund og tvo syni þeirra og ég vissi að það hafði tekið mikið á hana. Svona var hún, stillt og æðrulaus, kjörkuð, sjálfstæð og ráðagóð. Hún var líka glaðlynd og gerði oft góðlátlegt grín að sjálfri sér og fannst betra að sjá það spaugilega við aðstæður en að fjargviðrast yfir stöðunni.

Hún flutti á Litlu-Grund þegar henni fannst kominn tími til. Hún var sjálfri sér nóg og undi sér vel.

Þegar lífi Önnu móðursystur minnar er lokið er mér efst í huga virðing og þakklæti og þeim sem sakna hennar sendi ég samúðarkveðjur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband