Færsluflokkur: Bloggar

Kerlingaraup

Fyrst ég er búin að birta hér myndina Kristni afa, sr. Friðrik, og Guðmundi Ásbjörnssyni, og komin í karladeildina, langar mig að skrifa upp kafla úr bók sr. Friðriks Starfsárin II, þar sem hann talar um stofnun Væringa1913.

sr_fri_rik_vaeringi_2.jpgHann skrifar:„Var nú farið að undirbúa allt til stofnunar þessari grein. Konur úr KFUK sátu við að búa til búninga.Þeir voru sniðnir eftir fornaldar-sniði, en gæta varð þess samt, að þeir yrðu svo ódýrir sem kostur var á. Það var blár kyrtill eða stakkur, með hvítum bryddingum og belti fyrir rýting, þar yfir rauð skikkja, með hvítu loðhlaði og krækju uppi í hálsmálinu með spennu. Á höfði var hjálmhúfa rauð og blá, með hvítum skúf framan í, og var hún laginu sem bátur á hvolfi. Líka var búið til merki flokksins, þríhyrndur fáni hvítur og blár, með rauðu nafnmerki Krists í hvíta feldinum....."

 

 

 

 

 

amma saumar á vélÉg sé þær fyrir mér Millu og Guddu snúa sér að þessu verkefni fyrir drengina. Kaupa ódýrt efni og sníða og sauma, án þess að vita hvort það yrðu 2 drengir eða 20 sem vildu kaupa búning. Svo varð hann að vera þannig að hann passaði á flesta.Fornaldarsnið hafa þær ábyggilega ekki fengið í næstu búð, heldur í eigin hyggjuviti og færni. Húfan sem ég á í kassa, ásamt fleiri furðulegum munum, er úr vænu flóneli og lérefti, en dúskurinn er fínn.

Búningurinn kostaði 8 krónur fyrir drengina og 18 krónur fyrir foringjana.petur_kristinsson_vaeringi.jpg

Það var margt sem KFUK konur gerðu svo að KFUM drengirnir (á öllum aldri) gætu starfað eins og þá langaði til.

Á árum fátæktar og skorts í Reykjavík saumuðu þær föt og rúmfatnað og gáfu þeim sem þurftu. Og í lok fyrra stríðs var saumað til að senda stríðshrjáðum.

væringjarMig minnir að Amalía hafi rekið saumastofu og einhvern vegin finnst mér að Sigríður Guðjónsdóttir hafi rekið hannyrðaverslun og báðar látið félagið njóta aðstöðu sinnar.

Það er verst að þurfa að tína saman upplýsingar héðan og þaðan og nota svo eitthvað sem mér finnst að mér hafi verið sagt.

 

 

-Fyrir alla muni sendið mér leiðréttingu þið sem vitið betur.-

 

Frh.


Kerlingaraup

Áður en lengra er haldið ætla ég að setja mér markmið, sem ég geri sjaldan.. Ég ætla að birta þessar gömlu myndir saman og setja nöfn kvennanna við, en ég þarf að leita að aðeins fleiri nöfnum fyrst.

amma_1898.jpgÞessar konur, voru innan við tvítugt þegar KFUK var stofnað og tuttugu og fjögurra eða fimm þegar basarnum var komið á fót. amma_og_amalia.jpg

Hálfri öld seinna komst ég að því hvað KFUK var góð félagsþjálfun og hvað reglufesta varðandi rekstur einstaka deilda var nauðsynleg. Þá lærði ég að taka reglur eins og fundarsköp alvarlega. Þessi félagsmálaþjálfun hefur dugað mér vel.

Frá upphafi virðist ungum konum hafa verið treyst til að bera ábyrgð og takast á hendur vandasöm verkefni.

Þessi útúrdúr vildi endilega komast að hér, svo ég sá ekki ástæðu til annars en að festa hann í tölvu.

Þegar ég gramsa í dótinu sem hún Gudda amma lét eftir sig, er það áberandi hvað allt er greinilega skrifað niður og vel haldið til haga. Hún valdi mjög vel hvað hún vaðveitti.

amma,mamma,Fríða,Kr.Fr.Lauga ofl VindSumarið 1958 vorum við einar í húsinu nokkurn tíma. Aðrir voru í ferðalagi. Þetta var í ágúst og rifsber á trjánum.

Svo var það dag einn að hún kallaði á mig og sagðist þurfa að biðja mig að taka að mér mjög mikilvægt erindi. Hún bað mig að fara niður í kjallara og kveikja upp í kolamiðstöðinni sem þar var. Hún ætlaði að biðja mig að brenna pappírum. Ég ætti ekki að skoða hvað í kössunum væri, bara að láta þá á eldinn.

Ég bar niður af efstu hæð ótal kassa, sem ég hafði horft á í skápnum hjá afa og ömmu, síðan ég mundi eftir mér. Konfektkassa í mörgum litum með myndum á loki sem ég hafði fengið að skoða og jafnvel verið sagðar sögur um. Þessa kassa bar ég nú samviskusamlega niður og lét þá óopnaða á eldinn.

Ég gerði eins og mér var sagt, en spurði samt hvað í þeim væri. Hún sagði að það væru bréf sem enginn ætti að hnýsast í, bréf frá fólki sem hún hefði skrifast á við.

Mér þótti þetta skrítið þá, en seinna skildi ég, að bréf skrifar maður í trúnaði og þann trúnað á ekki að rjúfa.

kristinn_gu_mundur_sr_fr_fr.jpgEin heimild mín við þessi skrif er afmælisdagabók sem þau áttu afi og amma.Það má kannski segja að afi hafi átt hana, því fremst í henni stendur:,,Til Kr. Á. Jónssonar. Frá G. Ásbjörnssyni 24/12 1909." Í þessa afmælisdagabók ritar fólk nöfn sín eins og gerist og gengur, en síðan hafa þau bætt við skírnardögum, fermingardögum, giftingardögum og dánardögum víða.

 


Kerlingaraup

sumaklubburinn_i_fossvoginum.jpgÉg veit svo sem ekkert hvað ég hef farið oft á saumafundi með ömmu. Ég kom þó heim til nokkurra vinkvenna hennar. Ég man mis mikið eftir þeim, sjálfsagt eftir því sem þær hafa gefið sig að þessum kotroskna stelpukrakka.

Einna minnisstæðast er mér heimili biskupsdætranna Þórhildar og Annie Helgason. Þær bjuggu vestur við sjó, gæti hafa verið við Sörlaskjól.

Þórhildur var einstaklega hugulsöm við krakkann og hafði til blöð og liti, eða annað sem hún hélt að ég gæti dundað mér við. Annars hefur það komið fram áður á þessum vettvangi, hvað mér þótti gaman að hlusta á fólk.. Enn betra var þó að finna að hugsað hafði verið fyrir því að mér leiddist ekki.

Þarna var líka hugsað fyrir veitingum fyrir stelpuna, marengstoppar, bleikir og hvítir, það var nú toppurinn.

Það síðasta sem Þórhildur gerði fyrir vinkonu sína Guddu var að vaka yfir henni síðustu klukkustundirnar í lífi hennar.

Ég man líka vel eftir mér á Framnesvegi 1 (eða var það 2), en þar bjó Helga Guðmundsdóttir, móðir Sigurðar Guðmundssonar, sem varð yfirsmiður í Vindáshlíð þegar þar að kom.

saumaklubburinn_i_heimsokn_i_fossv.jpgMér finnst ég hafa komið á heimili dóttur Amalíu, Kristínar, sem aldrei var kölluð annað en Dídí.

Annars eru þessar styttingar nafna merkilegar. Ég man vel eftir því að hafa verið spurð að nafni og síðan hvað ég væri  kölluð. Það var eins og það væri sjálfsagt að nota gælunöfn, eða styttingar á nöfnum. Þær vinkonur voru Gudda, Milla, Emma, Þura, Lauga,og Dagga, sem ég get talið upp í fljótu bragði. Þórhildur var alltaf Þórhildur og Anna Kristmundsdóttir var ekki bara Anna, heldur alltaf Anna Kristmunds.

Ég man ekki eftir mér heima hjá Emilíu, en vissi þegar hún flutti í Bakkagerði og gæti hafa komið þar inn í forstofu í sendiferð.

Í haust hef ég í fyrsta skipti, síðan ég var barn, farið á saumafundi í heimahúsi til að undirbúa basar.

Þessi hefð hefur haldist innan félagsins, færst frá einni kynslóð til annarrar, þær yngri verið kallaðar til að vera með þeim eldri og læra af þeim, eða bara til að vinna saman að sameiginlegu markmiði.

saumaklubburinn_i_vindashli_1949.jpgÉg er alveg hissa á því hvað lítið hefur breyst. Formið er hið sama. Konur mæta nærri allar á sama tíma og taka til óspilltra málanna, hver með sitt verkefni, þó eru ein eða fleiri sem geta sagt hinum til og úthlutað verkefnum, annast innkaup og haldið utan um kostnaðinn og annað sem varðar framkvæmdina. Þátttakendur leggja síðan peninga í sjóð, eftir efnum og ástæðum. Núna fer þessi sjóður til efniskaupa, en í gamla daga greiddu konur í sjúkrasjóð félagsins sem stofnaður var 7. maí 1912 eða 1915. 

Eftir dágóða vinnutörn er lesin hugvekja og síðan er beðið saman. Þá er gengið að kaffiborði og talað um daginn og veginn, þó í haust hafi landsmálin verið látin liggja að mestu í láginni. Eftir andlega og líkamlega næringu er svo tekið til við handavinnu á ný. Þegar nóg er unnið og tíminn, sem ætlaður var til samverunnar, út runninn heldur hver til síns heima með handavinnu til að vinna þar til næst.

Framhald.

 


Kerlingaraup.

 

Einu sinni fyrir langa löngu var lítil stelpa sem bjó í stóru húsi með sex fullorðnum og einum bróður sem var að verða fullorðinn.

Þessi stelpa dandalaðist með fullorðnum alla daga, næstum hvert sem þeir fóru.Eitt af því sem henni þótti mikill fengur í að fá að fara var í saumaklúbb með ömmu, oft fór mamma hennar líka með.

Þær vinkonurnar, sem voru aðeins eldri en fermingarstelpur ársins 1899, en gengu þó flestar (Kristín var of gömul) í KFUK á formlegum stofnfundi þess, hittust og unnu á basarinn. Þær bróderuðu, hekluðu, prjónuðu og orkeruðu. Þær saumuðu líka á vél. Amalía Sig.d. saumar á vél

Þegar ég var lítil voru þessar konur á svipuðum aldri og ég er núna, svo að þær hittust einu sinni í mánuði flesta mánuði ársins á saumafundi, en auk þess gerðu þær ýmislegt saman.

Á yngri árum áttu þær mikið af því sem kalla mætti hugkvæmni kærleikans. Af myndunum að dæma hafa þær gert ýmislegt annað en að syngja og kenna stelpum að sauma fyrir basar. Þær fóru víða fótgangandi eða í boddýi á bílpalli, jafnvel í rútum og bátum. Þær klifruðu í klettum,óðu í ám, léku fótbolta, og fleira, sem ég trúi að hafi verið sjaldgæft að konur og stelpur gerðu. Flestar myndirnar mínar eru frá 1920 til 1940. Þá eru þessar konur sem fæddust 15 til 20 árum fyrir aldamótin næstsíðustu orðnar vel fullorðnar. Ég sæi nútíma konur á aldrinum 40 - 60 ára leika eftir sumt af því sem þær gerðu.

amma og Lauga sauma og orkeraMeð tímanum bættust yngri konur í hópinn. Þær sem fæddar voru fyrir og eftir aldamótin eru orðnar leiðtogar þegar margar myndanna eru teknar.

Þrjár þeirra fluttu úr landi, ungar konur. Of hef ég dáðst að tryggð þeirra, en þær skrifuðu ömmu og sendu henni myndir af fjölskyldum sínum og stundum gjafir alveg fram á síðusta ár hennar.

Ég man eftir mjög fínum púða, að mér fannst. Á honum var strákur og svo stóð Lundar stórum stöfum. Ég man líka eftir fínlegum hlutum úr tini frá Þýskalandi og mynd af díakonissu frá Noregi.

 

 

amma_lauga_og_margret.jpgGuðlaug Árnadóttir er í mínum huga í algjörum sérflokki. Fjölskylda hennar var mikið vinafólk ömmu og afa og bróðir hennar Helgi, sem lést ungur var vinur pabba.

Lauga var ekki bara vinkona ömmu, heldur erfði ég vináttu hennar og fyrirbænir. Umhyggja hennar var einstök og eldri dætur mínar fengu meira að segja að njóta hennar fáein ár.

Framhald í næstu færslu. Smellið á myndirnar til að stækka þær. Ef þið smellið aftur opnast þær í sér glugga.


Kerlingaraup - inngangur.

maria_sigur_ardottir_932796.jpgÞað var vorið 1899 að dóttir fangavarðarins í tukthúsinu í Reykjavík stóð upp í spurnartíma og spurði unga manninn, sem tekið hafði að sér að leysa af sr. Jóhann Þorkelsson, dómkirkjuprest. Spurnartími var tími í fermingarfræðslu, ungi maðurinn hét Friðrik Friðriksson og stúlkan María Sigurðardóttir.

Það sem Maríu lá á hjarta var að biðja Friðrik að halda fundi fyrir stelpurnar eins og hann hafði gert fyrir strákana síðan í janúar. Eftir nokkur orðaskipti segist sr. Friðrik hafa hreytt út úr sér: ,,Jæja, þér getið þá komið á laugardagskvöldið upp í ,,tukthús" og þá skal ég halda fund með yður!"

22. apríl mættu fermingarstúlkurnar flestar og Friðrik, en hann hafði séð til þess að alls öryggis væri gætt. Hann hafði boðið á fundin nokkrum eldri stúlkum og um þær snúast minningar mínar. Þær voru Kristín systir Friðriks, Guðríður Þórðardóttir, amma mín, Amalía Sigurðardóttir, önnur dóttir Sigurðar Jónssonar fangavarðar og Maríu konu hans og Sigríður Guðjónsdóttir og nokkrar í viðbót, sem ég veit ekki nöfn á.amalia_sigur_ardottir.jpg

Það var ekki nóg að hafa þessar eldri stúlkur, heldur hafði Friðrik boðið þremur konum á fundinn. Það voru Þorbjörg Sveinsdóttir, ljósmóðir, Ólafía Jóhannsdóttir sem þekktust varð fyrir störf sín í Osló, og Sólveig Thorgrimsen. Konur þessar kallaði hann ,,Öryggisráð".

Starf KFUK vantaði ákveðna forystu þegar Friðrik fór til Danmerkur og líklega líka eftir að hann kom heim, en það er önnur saga.

 

 

amma_og_kristin_fri_riks.jpgSvo einkennilegt sem það er þá tengdist ég þessum eldri stúlkum sem voru á stofnfundinum og man vel eftir Kristínu og Amalíu og auðvitað ömmu Guddu.

Þær urðu mjög góðar vinkonur og ég held að það hafi átt við bæði Amalíu og ömmu að KFUK varð varla skilið frá heimili þeirra og daglegu lífi. Sigríði kynntist ég ekki, en á kystur af myndum þar sem hún er með þeim hinum.

valger_ur_larusdottir.jpgÍ október 1908 fékk félagið þá forystu sem þurfti. Valgerður Lárusdóttir hafði dvalist í Kaupmannahöfn og kynnst starfi KFUK þar. Hún tekur nú að sér forystu í nefnd sem sr. Friðrik vildi að endurskipulegði starf KFUK..

Þegar kona með forystuhæfileika var komin til starfa leið ekki á löng fyrr en félagið tók upp ýmislegt sem Valgerður hafði kynnst í Danmörku. Hún stjórnaði sönghópi og hún efndi til basars 1909.

Þetta er inngangurinn að kerlingaraupi mínu um kynni mín af þessum öldnu konum.


Basar KFUK í 100 ár.

 

englar 026 2KFUK konur hafa haldið basar til styrktar starfi félagsins frá árinu 1909. Hefur basarinn ætíð einkennst af alúð og kærleika þeirra kvenna sem taka þátt í að undirbúa hann, enda hefur ágóði hans runnið til starfs félagsins og í kærleikssjóð,

Undirbúningur fyrir 100 ára afmælisbasarinn hefur staðið yfir frá því snemma í haust, og  stefnt er að því að hann verði enn stærri en venjulega.

Á boðstólnum verða heimagerðir hlutir, jólaskraut, dúkar, leikföng, fatnaður og annað það sem KFUK konur hafa unnið undanfarið ár.

Heimabaksturinn verður á sínum stað en KFUK konur eru þekktar fyrir gómsætar jólasmákökur, bollur og tertur.

Afmælisbasarinn verður haldinn í félagshúsi KFUM og KFUK við Holtaveg laugardaginn 28. nóvember kl. 14.00.

Þeir sem vilja gefa muni og bakstur á basarinn geta skilað þeim í Þjónustumiðstöðina Holtavegi 28 milli 9.00og 17.00 í vikunni fyrir basarinn og á föstudaginn 27. nóvember til kl. 21.00.

englar 041 3

Eitt af því sem er skemmtilegt við basarinn ef fólk gefur sér góðan tíma er að hitta vini og kunningja, kaupa sér kaffi og tala saman.

englar 037 2

 

 

 


Sundlaugar og KFUK basar.

Ekki má við svo búið standa lengur.

amma og dagga saumaÉg hef verið að setja inn á þessa síður gamlar myndir frá því á öndverðri síðustu öld og boða með því frekari skrif um kynni mín af KFUK.

KFUK-basarinn nálgast óðum og er ég að setja saman pistil um hvernig ég varð hluti af saumaklúbbi þeirra kvenna sem sem hvað mestu réðu um það að fyrsti basarinn var haldinn 1909.

24. október barst mér þessi vefpóstur sem er í beinu framhaldi við athugsemd við ,,Gömlu sundlaugarnar í Laugardal III" 5 september.

Lengi vel gengu sömu bílar inn í Laugarnes og á "Sólvellir-Gunnarsbraut". Vélin var undir húddi og framhurðin opnuð með handfangi og framlengingarstöng. Svo komu frambyggðu bensarnir bæði langir og stuttir. Þeir voru notaðir bæði á leið 3 "Kleppi" og leið 4. "Kleppur" hafði það umfram að í þeim bílum voru auglýsingar, segi og skrifa auglýsingar. Þær voru þannig, að við stangirnar, sem lágu sitt hvoru megin í loftinu fyrir þá sem stóðu í flórnum, voru tengd handföng með kassa sem hafði rúðu. Í hvert sinn, sem togað var í handfangið skipti kassinn um mynd og var auglýsing í hverri mynd.

Ég man að m.a. voru ayglýstir bananar í Kleppi nr. 3. Það hefur valdið mér sífelldum heilabrotum hvers vegna bananar voru frekar auglýstir í Kleppi en Sundlaugum nr. 4.  Því hlýtur e-r markaðsrannsókn að hafa ráðið.

Það má finna upplýsinagar um gömlu laugarnar í bókum Guðjóns Friðrikssonar um sögu Reykjavíkur og í Reykjavík, sögustaður við sund sem Örn og Örlygur gaf út á sínum tíma.

Ég er sem sagt að reyna að gefa barninu á Fjölnisveginum orðið aftur en  það er ekkert skipulag á stelpunni ennþá.

 

 


Gömlu sundlaugarnar í Laugardal III

 

sundlaugar 3Nú er ég dottin í sama pyttinn og kvikmyndaframleiðendur sem tókst að framleiða reglulegt kassastykki og ákveða að endurtaka uppskriftina,jafnvel í tví- eða þrígang.

Þeir hætta ekki fyrr en búið er að tæma hvern dropa úr þeirri uppsprettu.

Sama má segja um þessa sundlaugapistla mína. Mér hefði verið nær að hnýta endahnútinn í gær.

Stundum fór ég með afa á hjóli inn eftir, en svo lærði ég að fara með strætó. Getur verið að leið 3 hafi farið í Laugarnesið og um Sundlaugaveg?. Vagnstjórinn opnaði framhurðina með handafli með stöng sem minnti á handlegg. Hann kallað upp viðkomustaðina og ég vildi helst geta farið út að framan, þegar hann sagði Sundlaugarnar. Auðvitað var ætlast til að gengið væri út að aftan, en þá varð að opna og enn vil ég helst ekki vera síðust út úr strætisvagni.

 

sundlaugar2Ég var þarna sem sé heilu vaktirnar og nærðist á tvíbökum bleyttum í mjólk sem var lituð með kaffi og vel sæt.

Mér voru settar lífsreglurnar, ég átti ekki að trufla starfsfólkið, sem útleggst ég átti ekki að láta móðan mása við fólk sem var að vinna. Ég átti ekki að fara inn í skúr laugavarðanna, alls ekki inn á svæði ætluð karlmönnum og ekki láta á mér bera þegar verið var að kenna sund í lauginni.

Ég varð samt fljótt synd, af því að fylgja fyrirmælum sundkennaranna.

Ekki varð ég mikið vör við að verið færi að fylgjast með mér, en auðvitað hefur það verið gert.

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan, þegar barnabörnin voru í sturtu hér heima, og ég var í klossum, og fullklædd að aðstoða þau, hvernig starfskonurnar sem höfðu eftirlit með sturtunum þurftu að vera inni í gufunni, einmitt í klossum, með skýluklút um hárið og í hvítum slopp.

 

sundlaugar 1Hrædd er ég um að foreldrar mundu snarlega kvarta við skólann, ef laugaverðir töluðu við börn eins og gert var í þá daga. Þær voru mislagnar við börn blessaðar.

Nú til dags gæti það heldur aldrei gengið að afar fengju að hafa barnabörn sín með sér í vinnuna svona oft og lengi. Heldur ekki að menn héldu starfi sínu sem forstöðumenn fast að áttræðu.

Lengi hálf sá ég eftir Laugunum, ekki af því að ég kynni ekki að meta þær miklu framfarir sem nýju laugarnar voru, heldur af einskærri fortíðarþrá og sögurómantík.

 


Gömlu sundlaugarnar í Laugardal II

Kristinn afi í vestiAldrei hafa orðið eins mikil viðbrögð í Bloggheimum við neinni færslu á þessu bloggi, eins og færslunni í gær og myndunum sem komu inn í fyrradag.

Ég dreg þá ályktun að margir muni vel eftir Laugunum og vonandi hafa þeir haft nokkra ánægju af myndunum af starfsfólki þeirra á árunum milli 1945-1958 svona um það bil.

Eins og sjá má í athugasemd við færsluna í gær, skjöplaðist mér með karla klefann, enda átti ég ekkert erindi þangað og man reyndar ekki eftir að hafa komið þar inn, ekki einu sinn þegar ekkert fólk var í Laugunum, annað en starfsfólkið.

 

 

 

Sundlaugar 10Þegar út var komið var ekki langt í laugina, sem mér hefur síðan þótt kostur. Laugin var upphaflega hlaðin, eins og sjá má á gamalli mynd af Ólafi Pálssyni að kenna sund, ekki af bakka, eins og bæði hann og Eiríkur gerðu á þeim tíma sem ég var þar heimagangur.

Mér finnst eins og búið hafi verið að klæða laugina innan, og eitt er víst það var komin brú yfir hana austur, vestur og var grynnri hlutinn sunnar verðu og þá sá dýpri að norðan.

Fyrir austurendanum var svo skúr sundlaugavarðanna sem höfðu gát á gestum út um glugga, en fóru líka um svæðið til að fylgjast með.

 

sundlaugar 6Sunnan við skúrinn var sólbaðsskýli karla, en norðan við hann skýli fyrir konur. Í norðausturhorninu var svo heiturpottur þess tíma ferhyrndur trékassi, svo grunnur að þegar þrekið fólk lá þar á maganum stóðu rassarnir upp úr. Yfir þessum trékassa voru svo nokkuð margir sturtuhausar og úr þeim rigndi vel heitu vatni.

Við hliðina á þessu ágæti voru svo kaldar sturtur.

Framhald við fyrsta tækifæri.


Gömlu sundlaugarnar í Laugardal I.

Sundlaugar  0

 

Alltaf verður eitthvert atvik mér og blogginu mínu til bjargar.

Fyrir skömmu hitti bóndi minn bráðhressan mann á tíræðis aldri. Eins og gengur slitu þeir ekki tali fyrr en þeir höfðu fundið fólk sem báðir þekktu. Það reyndist nær en bónda minn grunaði. Öldungurinn hafði unnið lengi í Sundlaugum Reykjavíkur í Laugardal þar sem afi minn Kristinn Ágúst Jónsson var forstöðumaður.

Eins og fram kemur í skrifum mínum um afa og kistilinn hans (Úr handraðanum og Aldrei að standa þegar þú getur setið) fór ég oft með honum í Laugarnar og var þar heilu vaktirnar. Þegar ég eltist fækkaði laugarferðum.  Þess vegna getur skakkað einhverju í upprifjuninni og engin nöfn hef ég sett á myndirnar sem ég setti í albúm í gær.

Húsið var timburhús og dökkbæsaður viður að innan og lakkað í hólf og gólf. Á gólfunum voru kókós- eða hampdreglar. Ég man hvað það var vont að detta á þá.

Gengið var inn að sunnan og þegar inn var komið varð fyrst fyrir aðgöngumiðasala, þar sem líka var hægt að leigja sundboli, skýlur og handklæði.

sundlaugar 4Síðan komu á þessum tíma tveir salir, karlasalur og kvennasalur og gangur að þeim, ef ég man rétt var hægt að ganga inn að austanverðunni, klæða sig úr, og ganga svo út að vestan og skila fötunum á herðatré með riðnu neti í geymslu bak við borð. Mig minnir að þar hafi líka verið hægt að fá geymda fjármuni, úr og annað þ.h. Mér finnst líka að það hafi verið nokkrir einstaklingsklefar þarna einhvers staðar.

Sturtuklefarnir voru svo við norðurvegginn kvennasturta nær fatageymslu og karla nær lauginni. Sturtuklefarnir voru yfirleitt fullir af gufu og lykt af heita vatninu, blautum dreglinum og stundum grænu slýi.

sundlaugar 7Það var mikið verk og vandasamt að halda þessum laugum hreinum, en það eins og annað sá afi um að væri gert af stakri samviskusemi og gekk í þau verk eins og önnur ef á þurfti að halda.

  Framhald fljótlega.Sundlaugar 8sundlaugar 5


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband