Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Dóttir njósnarans V

  mamma og pabbi brúðk

Eins og þeir, sem hafa lesið færslurnar fimm hér næst á undan, vita þá var mér misboðið að sjá ómaklega vegið að minningu og heiðri föður míns.

Það er verst að mér er runninn mesti móðurinn, því umfjöllunarefnið er ekki létt.

Árið 1960 varð okkur öllum ljóst að mamma var illa haldin af krabbameini sem í þá daga má segja að hafi jafngilt dauðadómi. Amma var líka orðin veikburða vegna aldurs og sjúkdóma og var komið á sjúkradeild vegna þess að við gátum ekki annast hana. Þarna datt hún og lærbrotnaði og síðan lá leiðin aðeins einn veg. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu hér, en það er heldur ekki hægt að sleppa þessum hörmungum alveg í þessari frásögn.

pabbi og ammaSvo gekk 1961 í garð og í janúar lést mamma og í febrúar amma.mamma ung

Þetta ár hafði pabbi líka óvenju mikið að gera í vinnunni, enda vita þeir sem þekkja eitthvað til sögu kalda stríðsins að mikið gekk á milli stórveldanna.

Hampiðjan HPÉg vann á þessum tíma í Hampiðjunni á skrifstofunni. Þar naut ég mikils skilnings og velvildar. Ég gekk svo eða hjólaði heim og eldaði fyrir karlana mína og reyndi að gera það sem ég gat til að halda í horfinu.

Á þessum tíma fylgdist ég með starfi pabba og kynntist betur þeirri hlið þess sem sneri að sambandi hans við starfsmenn erlendra sendiráða sem oftar en ekki fór þannig fram að menn komu í heimsókn á Fjölnisveg 9.

Og nú kom að því að stríðsóttin blómstraði. Ég varð hrædd.

Í september fór ég síðan með í hópferð til Sviss, Ítalíu og Noregs og þá settust þeir atburðir sem þá voru að gerast í heimsmálunum að í sorgarsárinu og mér leið illa.

Ég hef verið að hugsa um það hvernig ég vissi hvað var að gerast í heimsmálunum og komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi hlustað og hlustað

Flótti frá Austur Þýskalandi og öðrum löndum austan Járntjaldsins. Svínaflóí, Bardagar í Afriku og í september ferst Dag Hammarskjöld í flugslysi, sem sumir drógu í efa að hefði verið slys.

Stórveldin gerðu tilraunir með kjarnavopn, stærri og kröftugri. Rússar sprengdu að mig minnir 50 megatonna sprengju í andrúmsloftinu einhvers staðar í norðrinu.

Kalda stríðið var andstyggð.

Hvað varð svo af þessari stríðshræðslu. Ég held að hún sé aðalástæðan fyrir því að mér finnst nauðsynlegt að fylgjast nokkuð vel með alþjóðamálum og er þess vegna fréttafíkill mikill.á Vesturgötunni HP

Það er svona að snúa veikleika upp í eitthvað uppbyggilegt.

Ég ætla svo að slá botninn í þessa bók, sem aldrei verður skrifuð því endirinn er ókunnur, með því að taka orðrétt úr bréfi sem ég skrifaði Þór Whitehead þegar grein hans Smáríki og heimsbyltingin hafði birst í 3.hefti, 2. árg. Þjóðmála haustið 2006:

„Erindi mitt við þig er að biðja þig að láta mig vita ef þú verður þess var á einhvern hátt að andlát föður míns hafi ekki borið að með eðlilegum hætti

Ástæðan fyrir þessari undarlegu bón er að fyrir um það bil 11 árum var ég stödd í félagsmiðstöð aldraðra á Vesturgötu 7 og sé þá ............  ............. sem ég þekkti í sjón frá gömlum tíma. Þegar ég heilsaði honum og kynnti mig sem dóttur föður mín segir hann:„Já, var hann ekki myrtur?" Ekki löngu síðar vorum við Árni Sigurjónsson í erfidrykkju gamallar konu sem við tengdumst bæði. Ég bað hann að tala við mig einslega og spurði hann þessarar sömu spurningar:„Var hann myrtur?" Og svarið ...Þarna nærri 40 árum eftir lát samstarfsmanns síns svarar Árni:„Það getur vel verið." Og gekk frá mér. Ég kom mér aldrei til þess að spyrja Sigurjón Sigurðsson, treysti mér ekki til þess.

Síðasta daginn sem faðir minn lifði fór hann síðla dags út úr bænum að hitta menn og sagðist mundu verða seint á ferðinni. Morguninn eftir kom ég að honum látnum.

Kalda stríðið var ekkert grín og ég held að það fólk sem sinnti þessum störfum hafi verið sannfært um að það væri að vinna ómetanleg störf fyrir þjóð sína með lífið að veði."

í Fossvogsgarði


Dóttir njósnarans IV

 

á leið á kjörstað2  Á kosningadegi er ekki úr vegi að hverfa aðeins aftur til þess sem kom þessum skrifum um störf föður míns af stað, það eru skrif Finnboga Hermannssonar í bók hans Í húsi afa míns.

Finnbogi og fjölskylda hans varð fyrir barðinu á flokkapólitík á tímum kaldastríðsins sem var oft óvægin en undirliggjandi voru sömu ástæður og í átökum stórveldanna, sem sé andstæðar hugmyndir um rétta leið að þjóðfélagsskipulagi sem skila myndi mestri lífshamingju.

Ég ætla fullyrða að það fólk sem kom að þessum stjörfum fyrir lögregluna, það má alveg kalla þau persónu njósnir, var ekki á vegum stéttafélaga eða stjórnmálaflokka ekki einu sinni Sjálfstæðisflokksins.

Pétur með Pétur-1Það sem pabbi og hans fólk gerði var svo mikið leyndarmál að það er ekki fyrr en 1986, mér vitanlega, sem farið er að leita upplýsinga um þessi störf. Þess vegna dreg ég þá ályktun að það sem var skráð og geymt í skápunum sem mönnum verður svo tíðrætt um hefur hvorki komið Sjálfstæðisflokknum né stéttarfélögum til góða.

Það mætti annars líkja því við að skjóta músarrindla með fallbyssum

Það þurfti ekki hleranir og eftirfylgd til að vita um stjórnmálaskoðanir fólks á Íslandi í þá daga.

Fólk sem varð fyrir barðinu á þessum „njósnum" átti aftur á móti erfitt með að komast til Bandaríkjanna og jafnvel skyldfólks þess. Það er staðreynd sem ástæðulaust er að neita. Enda hollast að fá allt um þessi mál upp á yfirborðið, en það er alveg ástæðulaust að rugla öllu saman sem fylgdi átökum hugsjóna, en líka átökum um auð og völd, sem alltaf krauma undir öllum deilum.

GrjóteyriDóttir njósnarans eltist, fór úr Miðbæjarskólanum í Kvennaskólann í Reykjavík. Ég var í Kjósinni á sumrin á Grjóteyri hjá Ólafíu móðursystur minni og Magnúsi Blöndal manni hennar. Stjórnmálin voru rædd, sama hvar ég var, en kalda stríðið var víðsfjarri heyskap og skepnuhaldi.ekki alltaf létt HP

Sumarið 1959 var ég þrjá mánuði í sumarskóla í Cambridge í Englandi. Þá fyrst komst ég að því hvaða áhrif stríð hefur á fólk, hvern einstakling. Í þessum skóla var ungt fólk víða að. Þarna voru Frakkar, Þjóðverjar, Ísraelar, Danir , Norðmenn, Svíar, Finnar og enn fleiri. Öll höfðu þau fundið fyrir stríðinu á eigin skinni. Þó reynsla Svía og Íslendinga væri alls ekki eins vorum við samt ekki þannig merkt stríðinu að við ættum í vandræðum með að umgangast fólk sem var af „röngu þjóðerni" í augum einhvers. Sem sagt ég hafði tækifæri til að umgangast bæði Þjóðverja og Ísraela og hlusta á þau sitt í hvoru lagi. Sárin okkar Finnboga eru skeinur miðað við þær holundir.

Síðasta færsla um þetta efni kemur bráðum.


Dóttir njósnarans III

 

Kalda stríðið var skollið á og Íslendingar gengnir í NATO

Kaninn hafði tekið við af bresku dátunum og svo hurfu þeir líka úr bröggunum. En ekki fyrr en vera þeirra þarna í nágrenni við sumarbústaðinn hafði haft sín áhrif á skoðun mína á Ameríkönum. Þeir gáfu okkur ávexti og súkkulaði og síðan finn ég appelsínulykt og súkkulaðikeim þegar ég hugsa um kampinn fyrir ofan Bústaðaveg.

Ýmislegt dót barst til landsins í sambandi við jólahald. Dönsk rauð svín og fléttuð hjörtu, þýskir brothættir fuglar og kúlur og lifandi kertaljós viku fyrir englahári og jólaljósum í bjöllum úr plastic eins og það hét þá.

Mynd jólasveinsins breyttist úr dönskum nissum í karl með hvítt hár og skegg í rauðum buxum og treyju með hvítum bryddingum. Sá var seinna kenndur við Coka Cola drykkinn sem þá hélt líka innreið sína í flöskum með mitti og glösum með sama sköpulagi.

Í stríðinu var mikið skotið og sprengt.

Ég man eftir að hafa farið með pabba út í Suðurnes þar sem lögreglan hafði skotæfingahús, en ég hef annað hvort setið í bílnum eða fengið að vera einhvers staðar innan dyra þar sem ekki var verið að skjóta því þar hefði ég aldrei þorað að vera og hefur sennilega heldur ekki staðið það til boða.

Fólkið mitt hefur ekki verið eins grunlaust um hlustunar leiðangra mína og ég hélt því mér finnst ég ekki hafa vitað um  tilvist kjarnorkusprengjunnar fyrr en tal og skrif um tilraunir með kjarnorkuvopn og vígbúnaðarkapphlaupið hófst fyrir alvöru 1949.

Um Sovétríkin vissi ég ekki annað en það að þar réðu bolsar og þá þoldi hún amma mín ekki. Ef einhver Íslendingur sem hún sagði að væri bolsi flutti efni í útvarpi slökkti hún strax og oft kom fyrir að hún fékk mig til að slökkva fyrir sig ef ég var við höndina.

Sama átti reyndar við um spíritista, en það er önnur saga.

Í mars 1950 er faðir minn ráðinn forstöðumaður öryggisþjónustu lögreglunnar. Hvað átti þessi forvitni stelpuhnokki að fá að vita? Allt í lagi að hún fengi að fylgjast með konungs komum og forseta komum. Annars var henni sagt að pabbi færi á hafnarnefndarfundi. Einhvern vegin þvælast almannavarnir og loftvarnaflautur líka inn í þessa mynd sem ég gerði mér af þessum störfum, og það hefur ábyggilega verið ætlunin segja mér eins mikið og óhætt var miðað við aldur og þroska.

pabba_hond_copy.jpgPabbi fór heim í hádegismat eins og líklega flestir á þessum árum. Ég hafði þann háttinn á þegar ég var búin í skólanum fyrir hádegi að fara niður í Lækjargötu og þar stóð Karíólinn. Ég klifraði oftast upp á húddið og sat og beið eftir pabba og við fórum saman heim.mælaborðið í karíól

Ég kom mjög oft á skrifstofuna hans í Lögreglustöðinni gömlu. Í herberginu sem var ekki stórt og vissi að Pósthússtræti vann líka frú Snjólaug Bruun, systir Sigurjóns lögreglustjóra.

Í sambandi við sértæka lestrarörðugleika mína, eins og það mundi nú vera kallað, þótti gott að geta fengið lánaðan stálþráð til að lesa inn á fyrir dekurrófuna og láta hana lesa og hlusta. Seinna leysti segulband stálþráðinn af.

Þó börnum þyki tíminn lengi að líða eru þau alltaf að bæta við sig þroska og þekkingu,og  munar mikið um hvert ár.  Fljótlega fór ég að fara með pabba í annað húsnæði sem hann hafði til afnota. ferming HPÞar dundaði ég við framköllun mynda meðan hann vann það sem hann þurfti þá stundina. Þá hef ég verið um fermingu.

Nú var hann löngu hættur að fara á hafnarnefndarfundi. Ég hitti suma samstarfsmenn hans og skildi meira af því sem var að gerast í kring um mig. 

mamma og diddaVið vissum öll í húsinu um hvað vinnan snerist og það jafnframt að hún var graf alvarlegt mál.

Það er óskhyggja og einfeldni að halda að stórveldin hafi hagað sér að einhverju leiti öðruvísi hér en annars staðar í heiminum. Það er blekking að aðrar þjóðir líti á okkur sem einhverja krútt þjóð sem sé svo lítil, dugleg, gáfuð, friðsöm og saklaus að hana eigi ekki að meðhöndla eins og sjálfstæða þjóð sem hún sótti þó svo fast að verða og okkur var sagt að hefði orðið fyrir orð Bandaríkjamanna meðal annars. Það eina sem er satt í þessari rótgrónu sjálfsmynd er það að líklega höfum við verið svo saklaus að það var auðvelt að plata okkur upp úr skónum og fá okkur til að selja fullveldið fyrir skjótfenginn ímyndaðan gróða.

Kaldastríðið var háð hér ekki síður en annars staðar, enda komust stórveldin fljótt að því að fyrir utan vígbúnaðarkapphlaup og að sýna vígtennurnar með því að gera tilraunir með sífellt ógurlegri og stærri sprengjur var tilvalið að seilast til áhrifa um allan heim og verða sér úti um áhrifasvæði, jafn vel yfirráðasvæði.

pabbi í vinnugallaStarf gagnnjósnara á Íslandi var því hvorki lítilfjörlegra né hættu minna en annar staðar í heiminum. Stórveldin voru í stríðsleik og skildu ekki alltaf þessa fámennu þjóð þar sem auðvelt var að vita allt um alla. Þeir vildu sömu vinnubrögð og annars staðar. Þess vegna gat ég hlustað á og lesið inn á segulband áhyggjulaus því nóg var af þeim.

Auðvitað voru Bandaríkjamenn virkir í þessu starfi því Ísland var í NATO og þeir höfðu tekið að sér varnir landsins. Komnir með herstöðvar í Keflavík og í Hvalfirði. Bretar komu líka við sögu.

Sovétsmenn höfðu svo sitt fólk til að vinna fyrir sig og ég veit fyrir víst að hér eins og annars staðar voru sumir sem veittu hvorum  tveggja.

Ég tók ekki eftir því á þessum árum hvernig stríðsótta illgresið óx en það skal enginn halda að það setji ekki mark á fjölskyldu að hafa svona starf í bókstaflegri merkingu inni á heimilinu.

Framhald síðar.

Leiðrétting: Það er spurning hvort það getur verið að ég muni umræðu um  atómsprengur frá 1949 en hún komst alla vega inn í mig.


Dóttir njósnarans II

 

pabbastelpa HP copyÞá er ég búin að lesa bókina hans Finnboga Hermannssonar til enda og hafði satt að segja mjög gaman af, burt séð frá þessum tveimur köflum sem ég hef áður gert að umræðuefni og eru eiginlega í engu samræmi við annað í þessari bók.

Við Finnbogi gætum hafa hist einhvern tíman á Skólavörðuholtinu eða á Njarðargötunni og tekið undir með barnastóðinu sem æpti - Skafarinn, skafarinn -  þegar veghefillinn fór um götuna nú eða  -  Beljurnar, beljurnar, þegar kýrnar voru reknar eftir götunni niður í Vatnsmýri.

Hafi ég einhvern tíman haft einhverja hugmynd um hvernig ég ætlaði að nálgast þessi skrif um fólkið mitt er augljóst að það hefur allt riðlast.. Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn að ég er fædd í ríki Kristjáns konungs X. En meira um það síðar.

Við Finnbogi eigum það sameiginlegt að finnast ekki tekið á arfleifð kalda stríðsins af nógri alvöru. Þetta voru grafalvarlegir tímar.

En fyrst að jarðveginum.

maría og guðmundur í ásbirningabúðÉg man enn nákvæmlega hvar ég var þegar ég áttaði mig á  því að Kóreustríðið væri hafið. Ég varmaría í ásbirningabúðá Miklubraut 40 að heimsækja Maríu Guðmundsdóttur sem var næstum vikulegur gestur á Fjölnisveginum hjá Guðmundi Ásbjörnssyni og við Maja vorum líka stundum saman í sumarbústað Guðmundar, Ásbirningabúð á Þingvöllum. Ég var í eldhúsinu á Miklubrautinni og fréttir í útvarpinu og ég varð skelfingu lostin.

fólkið hans guðmundar á þingv                                                   

Ég hef eiginlega komist að því að þrátt fyrir mikið öryggi og elsku hafi, jafnframt djúpstæðri öryggiskennd, búið um sig mjög sérhæfður ótti við stríð

á hestbaki  Í fossvogi  saumaklúbbur ömmu  munda, vala og fríða  kristín friðriks og fríða

afi í fossvoginumFyrstu kynni mín af stríði hafa ábyggilega verið enskir dátar í kampi sem var fyrir ofan Bústaðaveg rétt hjá golfvellinum og ekki langt frá bæ Bøgeskov. Við áttum þarna sumarbústað nokkurn vegin þar sem gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegar eru nú. Í þennan sumarbústað fluttum við á vorin og heim aftur á haustin, en afi og pabbi hjóluðu til vinnu. Síðar var keyptur jeppi.

Andrés bróðir minn hafði gaman af því að segja þá sögu að þegar fréttist að Bretar væru að leita sér að landi fyrir braggahverfi hafi þeir Guðmundur Nikulásson og Kristinn  losað úr vagninum sem kamrar fólks voru tæmdir í yfir þann hluta landsins í Fossvoginum sem hefði getað freistað Breta til að setja niður kamp. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það.

Heiman af Fjölnisvegi sást vel yfir Vatnsmýrina og flugvöllinn og flugvélahljóð voru undirspil allra athafna. Mér finnst að ég hafi helst tekið eftir þeim ef eitthvað óvenjulegt heyrðist.

Mest áhrif held ég að hafi haft það sem ég heyrði fullorðna fólkið tala um. Ég vandist því fljótt að láta fara lítið fyrir mér og hlusta, mér fannst svo gaman að hlusta.Á þessum tíma má segja að ég hafi verið eina barnið í húsinu, Andrés orðinn unglingur og fór fljótlega að vera meira hjá unnustunni en heima. Fullorðnir voru 6. Ég fór um allt hús og hlustaði. Ekki það að ég hafi ekki talað líka einhver ósköp,en ekki þegar ég vildi hlusta. Ég man enn þegar verið var að venja mig af því að tala út í eitt.

gu_mundur_og_hp.jpgGuðmundur kom niður til okkar á hverjum degi oftast á sama tíma, eftir kvöldmatinn og þau ræddu viðburði dagsins. Í endurminningunni finnst mér þau hafa rætt af virðingu um andstæðinga í pólitík. Ég heyrði annars staðar háð og uppnefni, fullyrðingar og fordóma.

Eitthvað af stríðsóttanum gæti átt rætur í því sem ég heyrði án þess að skilja.

Eitt er það sem örugglega hafði hvað mest með þessa óttaspíru að gera og það var lyktin af pabba stundum þegar hann kom heim frá vinnu. Stundum var það vegna eldsvoða. Ég man vel þegar stórt timburhús brann og hann kom heim með rauð augu sviðnar augnhár og brúnir og lyktin setti að mér óhug. Sama má segja eftir  NATO slaginn 1949.Þá varð ég fyrir áfalli þegar pabbi kom heim eins og hann var á sig kominn.

Ég man vel að ég vildi ekki að blöð sem pabbi keypti stundum Popular Mechanic War væru sjáanleg en önnur Pupular Mechanic blöð skoðaði ég með áfergju.

Þessari stríðsóttaspíru var það að kenna að ég man enn þetta með upphaf Kóreustríðsins.

En svo fór þessi spíra að vaxta og varð á endanum ofvaxin jurt og er líklega best að geyma það til næstu færslu.

Leiðrétting auðvitað get ég ekki munað eftir enskum dátum, þeir hljóta að hafa verið bandarískir. Það er svona að skrifa af fingrum fram í geðshræringu..


Dóttir njósnarans I

með hatt HPÞegar störf föður míns að  öryggismálum ríkisins komust í hámæli  sagði einhver að nú yrði ég að skrifa bók sem héti Dóttir njósnarans. Bókin sú verður aldrei skrifuð.

 Það er mikill ábyrgðarhluti að láta frá sér efni á prent og líka blogg. Þess vegna vil ég biðja ykkur sem lesið þessa bloggkafla mína og rekist á eitthvað sem þið vitið betur en ég að láta mig endilega vita.

   gelgjan HP   með ömmu Guddu HP   með pabba HP2   HP'62

Nú er ég að verða búin að lesa bókina sem ég var að skrifa um í gær. Á bls.53 segir í myndatexta að Pétur Kristinsson hafi verið að alast upp á Njálsgötu 30 árið sem myndin er tekin 1933.fjöln.vetur-1Staðreynd er að árið 1933 er Pétur búinn að vera kvæntur maður í 3 ár og  hefur búið á Fjölnisvegi 9 jafnlengi. Á bls. 125 í myndatexta er föðuramma mín kölluð Guðrún þó rétt nafn komi fram á blaðsíðunni á móti.

Við erum að sumu leiti jafn sett Finnbogi og ég að viðhorf okkar til þessara tíma sem hann er að skrifa um mótast af því sem við heyrum fullorðna tala um, af því sem fyrir augu okkar ber og af hljóðum í umhverfinu og þeirri lykt sem ber fyrir vitin.

á karíólnum

Auk þess hef ég alls konar heimildir sem haldið var til haga á heimilinu til að styðjast við og svo hitt að ég var orðin 8 ára þegar pabbi tók við þessu starfi og að verða 19 ára þegar hann lést.

Mér þykir tíminn renna saman í frásögn Finnboga sem ef til kæmi ekki að sök ef hann hefði ekki tekið þessi kaldastríðs mál, sem komust í hámæli á þeim tíma sem ætla má að hann hafi verið að ganga frá bókinni til útgáfu.

Mér sýnist hann blanda saman baráttunni um brauðið og þeirri pólitík sem einkenndi þessi ár á vinnumarkaðnum þegar lítið var um vinnu og pólitísk átök hörð og hins vegar átökum stórveldanna og kalda stríðinu og þeirri alvöru og tortryggni sem ríkti milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og gætti á Íslandi sem hafði landfræðilega mjög miklu hlutverki að gegna.

Kalda stríðið var alvarlegra en margir íslendingar gera sér grein fyrir. Margir tóku því eitthvað svipað og ástandinu sem nú ríkir hér á landi. Sumir stinga höfðinu í sandinn. Aðrir segja sem svo, þetta reddast. Sumir telja að lítil örþjóð hljóti að geta höfðað til vorkunnsemi svo sömu reglur gildi ekki um hana og aðrar þjóðir. Svona mætti lengi halda áfram.

 Mér finnst margt líkt með því hvað þurfi að gera varðandi hvor tveggja. Að rannsaka það sem gerðist í botn og finna síðan sáttaleið svo fólk geti lokið þessum atburðum tilfinningalega svo ekki þurfi að búa tortryggni, fjandskapur og heift 50- 60 árum eftir þá atburði sem nú eiga sér stað eins og virðist vera um atburði kaldastríðsins.

framhald síðar.

 


Sínum augum lítur hver á silfrið - persónuofsóknir eða landvarnir?

 

Nýlega var mér sagt frá því að í bók Finnboga Hermannssonar sem út kom í vetur sé minnst á föður minn Pétur Kristinsson og að auki mynd af honum. pétur ungur

Ég varð mér úti um bókina Í húsi afa míns og byrjaði á því að leita uppi myndina af pabba, sem reyndist af honum innan við fermingu. Bókin er sett saman úr stuttum köflum og heitir sá kafli sem myndin er í Óvinur ríkisins?  og sá næsti sem einnig fjallar um fólkið á Njálsgötu 30 Heimagangur hjá njósnaranum. Innihald þessara tveggja kafla er þannig að Finnbogi segir :„Hér verður barnið sem skrifar þessa sögu úr hugskoti sínu að biðjast forláts á algjöru en óumflýjanlegu stílbroti í sögunni."Þessi forlátsbeiðni er vegna þess að í þessum köflum kemur fram illa dulin heift, sem sennilega er skiljanleg. Spurningin er bara hvort hún beinist að réttum manni.H.P og pabbi

Hér situr nú annað barn sem líka hugsar til baka. Mig grunar að Finnbogi sé lítið eitt yngri en ég af því sem ég hef lesið í bókinni sem annars er góð lesning fyrir fólk sem man þessa tíma

Pétur Kristinsson gerðist lögregluþjónn í kreppunni 1937, þegar erfitt var að framfleyta sér með smíðum. Þegar ég man fyrst eftir, eða ef til vill var um það talað og ég man það, var að hann var forstöðumaður heilbrigðislögreglunnar, sem fólst í því m.a. að reyna bæta aðstæður þeirra sem bjuggu í lélegasta húsnæðinu, í samstarfi við pétur smiður copyfátækrafulltrúa borgarinnar. Síðan man ég eftir honum við ýmis ábyrgðarstörf í lögreglunni, en 1950 var hann gerður forstöðumaður öryggisþjónustu ríkisins, sem meðal annars fólst í því að skipuleggja og fylgja eftir öryggi erlendra gesta í Reykjavík.

Guðni Th. Jóhannesson segir svo í bók sinni Óvinir ríkisins: (með leyfi höfundar)

„Hinn nýi forstöðumaður öryggisþjónustu lögreglunnar hét Pétur Kristinsson. Hann var nokkru eldri en þeir Árni Sigurjónsson og Sigurjón Sigurðsson, fæddur árið 1904 og hóf störf hjá lögreglunni árið 1937, eftir að hafa numið húsgagnaiðn og rekið eigið smíðaverkstæði. Pétur hafði vaxið hratt í áliti innan lögreglunnar og var í hópi þeirra efnilegu félaga hennar sem Agnar Kofoed-Hansen bauð til liðsþjálfunar á Laugarvatni í mars 1940.[1]

Frá því að Pétur Kristinson tók við stjórn öryggisþjónustunnar mun hann ekki hafa sinnt öðrum störfum innan lögreglunnar og fór lítið fyrir honum í húsakynnum hennar, í eigin herbergi uppi á annarri hæð á lögreglustöðinni við Pósthússtræti, næst skrifstofum lögreglustjóra og yfirlögregluþjóns. „Ég veitað það voru margir lögreglumenn, sem voru búnir að vera í lögreglunni í mörg ár, sem vissu aldrei um störf hans," rifjaði einn samstarfsmaður Péturs síðar upp.[2] Aðrir þóttust vita sínu viti um þau og hvísluðu um hvaða leyndarmál skjalaskápar Péturs Kristinssonar kynnu að geyma. Um það vitnaðist þó aldrei enda hæfði skapgerð Péturs starfanum. „Hann var afkastamikill starfsmaður, dulur nokkuð, án þess að vera fáskiptinn, en mikill vinur þeirra sem hann átti samleið með," skrifaði Sigurjón Sigurðsson síðar. Einfari var hann þó ekki. Á yngri árum var hann drengjaforingi innan KFUM, formaður Vals um skeið og vinsæll íþróttamaður; öflugur bakvörður á melavellinumKFUM & pabbiþeirra Valsara.[3]

 Pétur Kristinsson fór nær örugglega í sína fyrstu fræðsluferð um gagnnjósnir og eftirlit í hinu nýja embætti snemmsumars 1950. Leið hans lá þá til Danmerkur og tókust góð kynni með honum og starfsmönnum dönsku öryggisþjónustunnar, Rigspolitichefens Efterretningsafdeling, REA. um Þar ytra spurðist Pétur meðal annars fyrir ákveðinn einstakling og leitaði frekari upplýsinga um hann hjá Sigurjóni Sigurðssyni hér á Íslandi. „Varðandi fyrirspurn þína sendi ég sérstakar upplýsingar á meðfylgjandi blaði", skrifaði Sigurjón Pétri, „og er þar að finna allt sem hér er skráð um manninn og þýðingu hefur". Ekki varðveittist blaðið þó með bréfinu. Pétur Kristinsson var alla tíð traustsins verður.[4] Heim kominn hélt Pétur svo áfram störfum. „Der bliver du næppe arbejdslös lige med det förste," skrifaði öryggislögreglumaðurinn Wiedbrecht til hans frá Kaupmannahöfn.[5] Verk var að vinna."

Finnbogi lætur að því liggja að „einhver nákominn hafi kjaftað frá áður en yfir lauk" eins og hann orðar það svo smekklega. Ég get fullvissað hann og aðra um að það var ekki fyrr en skjalið sem rætt er um hér á eftir komst í hendur Þórs Whitehead að öðrum en fjölskyldunni og örfáum oðrum varð kunnugt um þessi störf.

 Ég vitna aftur í Guðna Th. Jóhannesson:

„Leyndarhjúpurinn var nær alger alla tíð og í fyllingu tímans var gögnum öryggisþjónustunnar eytt. Svo ótrúlega vel vildi þó til að eitt minnisblað um störf hennar varðveittist. Það fannst síðar í skjalasafni Guðmundar Ásbjörnssonar sem bjó í sama húsi og Pétur Kristinsson og hans fjölskylda á Fjölnisvegi í Reykjavík. Með þeim Guðmundi og Pétri var góður vinskapur en erfitt er að leiða getum að því hvernig á því stóð að svo strangleynilegt skjal rataði í gögn Guðmundar og þaðan á Borgarskjalasafnið þar sem það hefur verið öllum opið."mamma_og_pabbi_copy.jpg

Þegar Guðmundur Ásbjörnsson lést 1952 gekk frændfólk hans frá búinu í góðri samvinnu við foreldra mína og afa og ömmu sem öll voru erfingjar hans samkvæmt erfðaskrá. Þegar foreldrar mínir og amma létust 1961 skiptum við Andrés bróðir minn búinu. Nokkru síðar flutti afi minn til mín í íbúð mína á Vesturgötu, en Andrés bróðir minn tæmdi húsið á Fjölnisveginum. Þessi gögn sem nú eru í Borgarskjalasafni undir nöfnum Guðmundar og Péturs afhenti ekkja Andrésar Árbæjarsafi að honum látnum og var safnið skráð á nafn Guðmundar. Síðar flutti Árbær pakkann á Borgarskjalasafn. Samkvæmt útskrift af innihaldi gagna Péturs og gagna Guðmundar sem ég hef aflað mér er þar enn algjört bland í poka efni frá Guðmundi, afa og ömmu og pabba og mömmu og er í raun ekkert leyndardómsfullt við það. Ég veit ekki hvað varð tll  þess að reynt var að skipta innihaldinu.

Guðni Th. Jóhannesson segir:pabbi

„Hann varð bráðkvaddur síðla árs 1961. Sigurjón sagði þá um vin sinn að hann hefði verið „grandvar og gegn borgari" sem innti störf sín af hendi „með einstakri samviskusemi og nákvæmni". Vart þarf að taka fram að það fylgdi ekki sögunni í hverju þau fólust en þó tók lögreglustjóri fram að Pétur Kristinsson hefði gegnt „mörgum trúnaðarstörfum" og unnið við „margskonar skýrslugerðir".[6]


[1] Bskjs. E. 202. Skjalasafn Péturs Kristinssonar. Minnisblað lögreglustjóra (merkt Pétri Kristinssyni), 1. mars 1940. Morgunblaðið, 4 nóvember 1961 (eftirmæli Sigurjóns Sigurðssonar um Pétur Kristinsson). G. Pétur Matthíasson, „Íslensk leyniþjónusta", Helgarpósturinn, 27. mars 1986.

[2] Frásögn Bjarka Elíassonar, 9. febrúar 2004.

[3] Morgunblaðið, 4 nóvember 1961 (eftirmæli Sigurjóns Sigurðssonar um Pétur Kristinsson). Þór Whitehead, „Smáríki og heimsbyltingin", bls. 68.

[4] Bskjs. E. 202. Skjalasafn Péturs Kristinssonar. Sigurjón Sigurðsson til Péturs Kristinssonar, 24. maí 1950. Árið eftir var nafni dönsku öryggisþjónustunnar breytt í það heiti sem hún hefur enn, Politiets Efterretningstjeneste, PET.

[5] Bskjs. E. 202. Skjalasafn Péturs Kristinssonar. Wiedbrecht til Péturs Kristinssonar, 28. júní 1950.

[6] Morgunblaðið, 4 nóvember 1961 (eftirmæli Sigurjóns Sigurðssonar um Pétur Kristinsson). Sá vottur, sem var með Sigurjóni Sigurðssyni í sakadómi Reykjavíkur 12. september 1963, kom ekki frekar við sögu og er því ekki nefndur á nafn hér.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband