Gömlu sundlaugarnar í Laugardal III

 

sundlaugar 3Nú er ég dottin í sama pyttinn og kvikmyndaframleiðendur sem tókst að framleiða reglulegt kassastykki og ákveða að endurtaka uppskriftina,jafnvel í tví- eða þrígang.

Þeir hætta ekki fyrr en búið er að tæma hvern dropa úr þeirri uppsprettu.

Sama má segja um þessa sundlaugapistla mína. Mér hefði verið nær að hnýta endahnútinn í gær.

Stundum fór ég með afa á hjóli inn eftir, en svo lærði ég að fara með strætó. Getur verið að leið 3 hafi farið í Laugarnesið og um Sundlaugaveg?. Vagnstjórinn opnaði framhurðina með handafli með stöng sem minnti á handlegg. Hann kallað upp viðkomustaðina og ég vildi helst geta farið út að framan, þegar hann sagði Sundlaugarnar. Auðvitað var ætlast til að gengið væri út að aftan, en þá varð að opna og enn vil ég helst ekki vera síðust út úr strætisvagni.

 

sundlaugar2Ég var þarna sem sé heilu vaktirnar og nærðist á tvíbökum bleyttum í mjólk sem var lituð með kaffi og vel sæt.

Mér voru settar lífsreglurnar, ég átti ekki að trufla starfsfólkið, sem útleggst ég átti ekki að láta móðan mása við fólk sem var að vinna. Ég átti ekki að fara inn í skúr laugavarðanna, alls ekki inn á svæði ætluð karlmönnum og ekki láta á mér bera þegar verið var að kenna sund í lauginni.

Ég varð samt fljótt synd, af því að fylgja fyrirmælum sundkennaranna.

Ekki varð ég mikið vör við að verið færi að fylgjast með mér, en auðvitað hefur það verið gert.

Það rifjaðist upp fyrir mér áðan, þegar barnabörnin voru í sturtu hér heima, og ég var í klossum, og fullklædd að aðstoða þau, hvernig starfskonurnar sem höfðu eftirlit með sturtunum þurftu að vera inni í gufunni, einmitt í klossum, með skýluklút um hárið og í hvítum slopp.

 

sundlaugar 1Hrædd er ég um að foreldrar mundu snarlega kvarta við skólann, ef laugaverðir töluðu við börn eins og gert var í þá daga. Þær voru mislagnar við börn blessaðar.

Nú til dags gæti það heldur aldrei gengið að afar fengju að hafa barnabörn sín með sér í vinnuna svona oft og lengi. Heldur ekki að menn héldu starfi sínu sem forstöðumenn fast að áttræðu.

Lengi hálf sá ég eftir Laugunum, ekki af því að ég kynni ekki að meta þær miklu framfarir sem nýju laugarnar voru, heldur af einskærri fortíðarþrá og sögurómantík.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Leið 3 var "Kleppur" og gekk frá Laugavegi niður Laugarnesveg frá Bílasmiðjunni, sem síðar varð heimili sjónvarpsins um Kirkjuból neðan undir Laugarnesskirkju og síðan yfir Sundlaugaveg út í Laugarnes og um Kleppsveg að Kleppi. Leið 4 kom úr Túnunum um Sigtún og Gullteig að Sundlaugunum. Gott ef hann hét ekki bara "Sundlaugar".

Sigurbjörn Sveinsson, 5.9.2009 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband