Kerlingaraup.

 

Einu sinni fyrir langa löngu var lítil stelpa sem bjó í stóru húsi með sex fullorðnum og einum bróður sem var að verða fullorðinn.

Þessi stelpa dandalaðist með fullorðnum alla daga, næstum hvert sem þeir fóru.Eitt af því sem henni þótti mikill fengur í að fá að fara var í saumaklúbb með ömmu, oft fór mamma hennar líka með.

Þær vinkonurnar, sem voru aðeins eldri en fermingarstelpur ársins 1899, en gengu þó flestar (Kristín var of gömul) í KFUK á formlegum stofnfundi þess, hittust og unnu á basarinn. Þær bróderuðu, hekluðu, prjónuðu og orkeruðu. Þær saumuðu líka á vél. Amalía Sig.d. saumar á vél

Þegar ég var lítil voru þessar konur á svipuðum aldri og ég er núna, svo að þær hittust einu sinni í mánuði flesta mánuði ársins á saumafundi, en auk þess gerðu þær ýmislegt saman.

Á yngri árum áttu þær mikið af því sem kalla mætti hugkvæmni kærleikans. Af myndunum að dæma hafa þær gert ýmislegt annað en að syngja og kenna stelpum að sauma fyrir basar. Þær fóru víða fótgangandi eða í boddýi á bílpalli, jafnvel í rútum og bátum. Þær klifruðu í klettum,óðu í ám, léku fótbolta, og fleira, sem ég trúi að hafi verið sjaldgæft að konur og stelpur gerðu. Flestar myndirnar mínar eru frá 1920 til 1940. Þá eru þessar konur sem fæddust 15 til 20 árum fyrir aldamótin næstsíðustu orðnar vel fullorðnar. Ég sæi nútíma konur á aldrinum 40 - 60 ára leika eftir sumt af því sem þær gerðu.

amma og Lauga sauma og orkeraMeð tímanum bættust yngri konur í hópinn. Þær sem fæddar voru fyrir og eftir aldamótin eru orðnar leiðtogar þegar margar myndanna eru teknar.

Þrjár þeirra fluttu úr landi, ungar konur. Of hef ég dáðst að tryggð þeirra, en þær skrifuðu ömmu og sendu henni myndir af fjölskyldum sínum og stundum gjafir alveg fram á síðusta ár hennar.

Ég man eftir mjög fínum púða, að mér fannst. Á honum var strákur og svo stóð Lundar stórum stöfum. Ég man líka eftir fínlegum hlutum úr tini frá Þýskalandi og mynd af díakonissu frá Noregi.

 

 

amma_lauga_og_margret.jpgGuðlaug Árnadóttir er í mínum huga í algjörum sérflokki. Fjölskylda hennar var mikið vinafólk ömmu og afa og bróðir hennar Helgi, sem lést ungur var vinur pabba.

Lauga var ekki bara vinkona ömmu, heldur erfði ég vináttu hennar og fyrirbænir. Umhyggja hennar var einstök og eldri dætur mínar fengu meira að segja að njóta hennar fáein ár.

Framhald í næstu færslu. Smellið á myndirnar til að stækka þær. Ef þið smellið aftur opnast þær í sér glugga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband