Á Grjóteyri VI

_bru_kaupi_hp_esb.jpg   magnus_hp_gle_fia.jpg

Það er merkilegt hvað kemur upp í hugann þegar rifjaður er upp löngu liðinn tími.

Enn hef ég ekkert minnst á prjónavél, snældur, rokk og spunavélina sem nærri fyllti eldhúsið og var í eigu kvenfélagsins.

Ekkert minnst á AGA eldavélina sem alltaf sá fyrir heitu vatni, ekki á rúgbrauðsbakstur í kassa í neðri ofninum og ekki hveitibrauð með lyftidufti, ekki hveitikökur, ekki brúnar tertur, ekki kaffibrennslu og lyktina sem fyllti húsið.

Ekkert á saltfisk, í læk, ekki á nýjan fisk sem kom með mjólkurbrúsum úr bænum, eins og skyrið sem kom í brúsa til baka úr mjólkursamsölunni.

Ekkert minnst á slátrun sem við áttum ekki að sjá, en sáum auðvitað samt. Ekkert talað um kartöflu- og rófurækt, kartöflugeymslu eða reykkofa.

Ekki má gleyma rafmagnsleysi og ljósavélinni, þvotti á bretti og skolun í ánni.

Svo verð ég að minnast aðeins á bækurnar, því þegar ég varð loksins læs las ég allt sem á vegi mínum varð. Allt frá Lögbirtingarblaðinu til Berverly Gray og þykku bókanna  í neðstu hillunni hjá okkur Unni, Hjónalíf og eins og er man ég ekki einu sinni hvað hin hét, en þær voru spennandi fyrir gelgjurnar.

Ég man gestakomur, kaffi og kökur, mat og uppbúin rúm. Ég man skömmtunarseðla sem voru sóttir að Grjóteyri og sjúkrasamlag og útsvar sem var greitt á Grjóteyri. Svo voru stundum hreppsnefndarfundir og fleiri gestakomur sem fylgdu oddvitastörfum Magnúsar.

Ættingjar og vinir lögðu leið sína að Grjóteyri því þar var gott að koma. Ólafía og Magnús voru samtaka því sem öðru að gera vel við þá sem að garði bar og þau voru bæði ákaflega frændrækin.

Í huga mér koma ferðalög með Fíu, Magnúsi og Unni. Þessar ferðir urðu sérstaklega minnisstæðar vegna þess að þau þekktu víðast hvar örnefni og bæjarnöfn þar sem við fórum og oft nöfn ábúenda og ættir. Fía var mjög ættfróð og hafði gaman af að rekja ættir fólks. Þau höfðu yndi af að ferðast og sóttu oft heim ættingja og vini víða um land.

Þar kom að líkamsþrekið tók að þverra og aldurinn að færast yfir. Þá fluttist fjölskyldan frá Grjóteyri í Kópavog. Ég hef oft dáðst að því með sjálfri mér hve vel þeim tókst að laga sig að breyttum aðstæðum.

Þegar við Erlendur, bóndi minn komum frá Danmörku í heimsókn með elstu dóttur okkar nokkurra mánaða gamla lánuðu Fía og Magnús okkur bílinn sinn og seinna komu þau svo til okkar í Albertslund.

Ég hafði mjög gott af því að vera hjá þeim á Grjóteyri, en líka að kynnast þeim aftur þegar ég var orðin fullorðin.

Ég á Fíu og Magnúsi mikið að þakka. 

unnur_fia_magnus.jpg   unnur_fia_magnus_hp_gle.jpg

fia_me_fiu_855636.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Takk fyrir bloggvináttuna. Svo ég verði svolítið hátíðleg þá er það mér heiður að vera bloggvinur þinn. Mér finnst gaman að lesa bloggfærslurnar þínar, þú segir þannig frá  að  allt verður ljóslifandi í huga manns og ég ítreka það sem ég hef sagt: Þú ættir að gefa út bók. Hugleiddu það. Það eru einmitt fólk, hlutir, staðir og atburðir sem þú veist um þ.e. minningar sem mega ekki deyja út sem verða að komast á prent. Það veit enginn hvað moggabloggið lifir lengi.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 7.6.2009 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband