Á Grjóteyri V

 

Þessi Grjóteyrarskrif eru að verða meiri langloka en ég ætlaði í upphafi. Sumardvöl í sveit var sameiginleg reynsla margra Reykjavíkurbarna á þessum árum þangað til að fólki fækkaði á bæjum og tæknin tók við af mannaflinu og varð börnum hættuleg.

Dvöl mín á Grjóteyri er samt séreign mín, minningar eins og þær hafa búið um sig í mínu minni.

Í síðustu færslu var ég að tala um Magnús og hvað hann var laginn að gera að sárum okkar. Það sama átti við um skepnurnar hann var nærfærinn og laginn við þær. Búskapurinn var farsæll.

Magnús var góður smiður bæði á járn og tré og það var gaman að horfa á hann smíða úr járni horfa á rauðglóandi járnstöng verða að skeifu eða lömum og fá kannski að stíga smiðjuna.(var hún ekki stigin?)

Allt nám kemur að gagni, samt hefði mátt segja mér það tvisvar að grasafræðin sem síaðist inn í mig í sveitinni mundi afla mér verðlauna í skóla. Magnús var óþreytandi að sýna okkur plöntur og fræða okkur um þær.

Á Grjóteyri var pappír gjörnýttur. Magnús átti mjög auðvelt með að kasta fram lausavísum, stundum kersknum, stundum tvíræðum og oft glettnum. Þessar vísur skrifaði hann svo á þríhyrningana sem mynda bakhlið umslaga, á óprentaða kanta dagblaða, á hólka sem voru utan um blöðin. Ég lærði ekkert af þessum vísum, ekki mín deild.

Eins og sjá má á myndunum var Magnús alltaf með pípu í munninum. Ég held að hann hafi steypt með gifsi í hausinn og borað svo og skafið í það holu sem honum líkaði. Stundum fannst mér hann nota meira af eldspýtum en tóbaki, en það er nú ekki líklegt.

Það var gott að vera hjá Magnúsi og Ólafíu.                                                                                 Grjóteyri sumzrbústzir

Til Fíu var gott að leita ef á bjátaði, Oft þurfti hún að stilla til friðar með okkur krökkunum, en þó sjaldnar en hefði mátt ætla. Ég finn núna þegar ég hlusta á minningarnar, að hún Fía skildi vel ungar sálir. Það rifjast upp fyrir mér sáttasamtöl hennar þegar deilumál voru komin í óefni og áflog. Hún vissi sitthvað um hugsanagang og tilfinningar svona fólks og hún höfðaði alltaf til betri manns. Við börnin sóttum til hennar öryggi og hlýju og við vorum velkomin að Grjóteyri á öllum árstímum. Raunar höfðu nokkrir verið á Grjóteyri langdvölum árið um kring.

 

Framhald.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband