Á Grjóteyri IV

 Grjóteyri Magnúsar hirða há  Grjóteyri Unnur  Grjóteyri við hlöðuna  Grjóteyri dreifa

Á Grjóteyri var bú, það var óðal og gekk í erfðir frá einni kynslóð til annarrar. Hlaðnir grónir veggir, skeifulaga, ekkert þak. Þarna bjuggum við Magnús og Einar gegndi fyrst hlutverki barns en síðan varð hann bóndi eins og við.

Grjóteyri Einar og heimalningurinnBúskapur okkar var eins og búskapur annarra barna á undan okkur ég veit ekki hvað margar kynslóðir. Nautgripaleggir hestar, sem bundið var upp í eftir settum reglum, kindaleggir folöld, Horn kindur, kjálkar kýr, völur hundar.

Við áttum forláta vagn sem hestarnir drógu, það var líklega pottlok, en getur líka hafa verið hjólkoppur, sem gerð höfðu verið tvö göt á.

Nú er þess að geta að ég treysti illa minninu, svo Magnús eða aðrir ef þetta hefur eitthvað skolast til er tvennt í stöðunni að leiðrétta mig, eða láta sannleikann ekki þvælast fyrir góðri sögu. Ég hallast að sannleikanum.

Í þessum búleik gátum við öll, og líka þeir sem vildu vera með, meðan við vorum nógu mikil börn til Grjóteyri Einar Arnaldsað líta ekki niður á svona hlutverkaleik, unað okkur tímunum saman að skylduverkum loknum. Öll gengum við inn í okkar hlutverk, holur í vegg urðu að búri eða skápum og mér finnst eins og ég hafi ekki ruglast á því hvaða hola var hvað.

Við fórum í útreiðartúra, við heyjum, við mjólkuðum en minnst vissum við um sauðfjárbúskap því þetta var á þeim árum sem fjárskiptin fóru fram og engar kindur á Grjóteyri á þeim árum sem við vorum í búleik.

Þetta kindaleysi olli því að berjaspretta var mikil og í ágúst komu Reykvíkingar í rútum til að tína ber og fóru heim með ber í brúsum og alls konar kirnum en minnisstæðastir eru pokarnir, hvítir sykur- eða hveitipokar, sem svo fengu á sig berjabletti.

Við fórum aftur á móti með fiskibolludósir upp í fjall og tíndum til að borða úr dósinni, út á skyrið og stöku sinnum fengum við rjóma sem var fleyttur ofan af heimilismjólkinni. Skilvindan og strokkurinn voru ekki oft notuð.

Grjóteyri Einar, Maggi og MagnúsFljótlega varð það venja að ég sendi bláber í glerkrukku til afa á afmælinu hans 12. ágúst, Bergur móðurbróðir minn tók þau um leið og mjólkina og kom þeim til skila með bréfi til afa í tilefni af afmælinu.

Þessi bréf segja mikið um sértæka lestrar og skriftar örðugleika og var ég lengi með eitt slíkt í skólanum þar sem ég kenndi til að sýna kennurum sem áttu erfitt með að skilja börn með þennan vanda.

Ég hef oft hugsað um hvað þau voru samtaka og samhuga hjónin á Grjóteyri, þó ólík væru, hann nokkuð örgeðja en hún rólynd og stillt. Það mátti mikið af þeim læra. Ólafía treysti okkur börnunum til alls góðs. Hún var jafnan sjálfri sér samkvæm og fylgdi því eftir af festu ef því var að skipta, að við gerðum það sem til var ætlast. Einhvern vegin var það svo að allir lögðu sig fram um að gera sitt besta, og þá var notalegt að fá viðurkenning að loknu verki. Eflaust hefur þó stundum vantað eitthvað á að það væri óaðfinnanlega af hendi leyst.

Þegar einhver meiddi sig kom það í hlut Magnúsar og gera það sem gera þurfti. Hann kom með sáravatn, joð, bindi og plástra og var einstaklega góður við þann meidda og sárin greru vel.

Natni og snyrtimennska einkenndi öll störf þeirra utan húss sem innan. Í 34 ár unnu þau á búi sínu og byggðu upp fyrir fólk, skepnur og vélar, eftir því sem á þurfti að halda.

 

Það teygist úr ómi minninganna.

Framhald.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Hólmfríður, af hverju gefur þú ekki út bók. Þú ert full af fróðleik. Ég les alltaf bloggið þitt en hef aldrei kommentað áður. Mér finnst mjög gaman að lesa þín skrif.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 30.5.2009 kl. 01:57

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Sólveig Þóra, Þakka þér fyrir innlitin og kommentið. Það er svo notalegt fá komment á það sem maður er að gera, sérstaklega svona jákvæð.

Það vantar ekki fleiri bækur af þessu tagi.

Hólmfríður Pétursdóttir, 30.5.2009 kl. 09:36

3 identicon

Mángi minn af mölinni

týndi brókar tölunni

fröken Unnur fann hana

og festi hana á brókina

Sýnishorn af ótal atvikalýsingum fóstra okkar.

Magnús Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 14:24

4 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Jú Hólmfríður það vantar svona bækur. Trúðu mér.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 30.5.2009 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband