Dóttir njósnarans V

  mamma og pabbi brúðk

Eins og þeir, sem hafa lesið færslurnar fimm hér næst á undan, vita þá var mér misboðið að sjá ómaklega vegið að minningu og heiðri föður míns.

Það er verst að mér er runninn mesti móðurinn, því umfjöllunarefnið er ekki létt.

Árið 1960 varð okkur öllum ljóst að mamma var illa haldin af krabbameini sem í þá daga má segja að hafi jafngilt dauðadómi. Amma var líka orðin veikburða vegna aldurs og sjúkdóma og var komið á sjúkradeild vegna þess að við gátum ekki annast hana. Þarna datt hún og lærbrotnaði og síðan lá leiðin aðeins einn veg. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu hér, en það er heldur ekki hægt að sleppa þessum hörmungum alveg í þessari frásögn.

pabbi og ammaSvo gekk 1961 í garð og í janúar lést mamma og í febrúar amma.mamma ung

Þetta ár hafði pabbi líka óvenju mikið að gera í vinnunni, enda vita þeir sem þekkja eitthvað til sögu kalda stríðsins að mikið gekk á milli stórveldanna.

Hampiðjan HPÉg vann á þessum tíma í Hampiðjunni á skrifstofunni. Þar naut ég mikils skilnings og velvildar. Ég gekk svo eða hjólaði heim og eldaði fyrir karlana mína og reyndi að gera það sem ég gat til að halda í horfinu.

Á þessum tíma fylgdist ég með starfi pabba og kynntist betur þeirri hlið þess sem sneri að sambandi hans við starfsmenn erlendra sendiráða sem oftar en ekki fór þannig fram að menn komu í heimsókn á Fjölnisveg 9.

Og nú kom að því að stríðsóttin blómstraði. Ég varð hrædd.

Í september fór ég síðan með í hópferð til Sviss, Ítalíu og Noregs og þá settust þeir atburðir sem þá voru að gerast í heimsmálunum að í sorgarsárinu og mér leið illa.

Ég hef verið að hugsa um það hvernig ég vissi hvað var að gerast í heimsmálunum og komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi hlustað og hlustað

Flótti frá Austur Þýskalandi og öðrum löndum austan Járntjaldsins. Svínaflóí, Bardagar í Afriku og í september ferst Dag Hammarskjöld í flugslysi, sem sumir drógu í efa að hefði verið slys.

Stórveldin gerðu tilraunir með kjarnavopn, stærri og kröftugri. Rússar sprengdu að mig minnir 50 megatonna sprengju í andrúmsloftinu einhvers staðar í norðrinu.

Kalda stríðið var andstyggð.

Hvað varð svo af þessari stríðshræðslu. Ég held að hún sé aðalástæðan fyrir því að mér finnst nauðsynlegt að fylgjast nokkuð vel með alþjóðamálum og er þess vegna fréttafíkill mikill.á Vesturgötunni HP

Það er svona að snúa veikleika upp í eitthvað uppbyggilegt.

Ég ætla svo að slá botninn í þessa bók, sem aldrei verður skrifuð því endirinn er ókunnur, með því að taka orðrétt úr bréfi sem ég skrifaði Þór Whitehead þegar grein hans Smáríki og heimsbyltingin hafði birst í 3.hefti, 2. árg. Þjóðmála haustið 2006:

„Erindi mitt við þig er að biðja þig að láta mig vita ef þú verður þess var á einhvern hátt að andlát föður míns hafi ekki borið að með eðlilegum hætti

Ástæðan fyrir þessari undarlegu bón er að fyrir um það bil 11 árum var ég stödd í félagsmiðstöð aldraðra á Vesturgötu 7 og sé þá ............  ............. sem ég þekkti í sjón frá gömlum tíma. Þegar ég heilsaði honum og kynnti mig sem dóttur föður mín segir hann:„Já, var hann ekki myrtur?" Ekki löngu síðar vorum við Árni Sigurjónsson í erfidrykkju gamallar konu sem við tengdumst bæði. Ég bað hann að tala við mig einslega og spurði hann þessarar sömu spurningar:„Var hann myrtur?" Og svarið ...Þarna nærri 40 árum eftir lát samstarfsmanns síns svarar Árni:„Það getur vel verið." Og gekk frá mér. Ég kom mér aldrei til þess að spyrja Sigurjón Sigurðsson, treysti mér ekki til þess.

Síðasta daginn sem faðir minn lifði fór hann síðla dags út úr bænum að hitta menn og sagðist mundu verða seint á ferðinni. Morguninn eftir kom ég að honum látnum.

Kalda stríðið var ekkert grín og ég held að það fólk sem sinnti þessum störfum hafi verið sannfært um að það væri að vinna ómetanleg störf fyrir þjóð sína með lífið að veði."

í Fossvogsgarði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta er makalaust.

Sigurbjörn Sveinsson, 27.4.2009 kl. 14:07

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ég varð fullorðin fljótt og hef bar yngst síðan.

Hólmfríður Pétursdóttir, 27.4.2009 kl. 17:56

3 identicon

Sæl, Hólmfríður. Hér sit ég og er að skrifa prédikun - en datt í bloggið þitt stundarkorn. Þetta er gríðarlega merkilega saga og vel frá sagt, eins og við var að búast af þér. Verður bókin kannski skrifuð? Kv. María Ág.

María Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 14:28

4 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

María, takk fyrir innlitið. Það verður engin bók. Ég er að þessu mest fyrir sjálfa mig og svo afkomendur mína og aðra þá sem hafa áhuga.

Hólmfríður Pétursdóttir, 28.4.2009 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband