Bjálfi á skagfirska vísu.

Undanfarnar 6 vikur er ég búin að vera illa haldin af afleiðingum gigtar, þessa leiðinda sjúkdóms sem virðist liggja í ættinni.

Blogg og annað sem mig hefur langað til að sinna hefur því annað hvort orðið að bíða betri tíma, eða ekki orðið eins vandað og ég hefði viljað. 

 Á þessum tíma árs fæ ég alltaf einhvers konar heimþrá í Skagafjörð. Ekki það að ég hafi dvalist þar lengi eða sé tengd þangað ættarböndum. En árin sem ég átti þar voru afar sérstök og höfðu mikil áhrif á mig.

longumyri.jpgÞað var árið 1967 sem ég var ráðin til að vera skólastjóri á Húsmæðraskóla Kirkjunnar sem þá var á Löngumýri sem þá var í Seiluhreppi í Skagafirði.  Frá þeim tíma er þessi Skagafjarðarþrá mín á vorin og fram yfir Jónsmessu runnin. 

Að horfa yfir fjörðinn frá Arnarstapa á góðviðrisdegi og láta hugann reika. Sjá fyrir sér Sturlunga og Ásbirninga eða hverjir sem þar voru annars á ferð ríðandi í hópum, höfðingjar í forystu og  betri bændur, leiguliðar á eftir. Þarna handan vatna voru háðar frægar orrustur. Sértu þarna að kvöldlagi eða um helgi og ekki á valdi hugarflugs muntu enn sjá fólk, eitt á ferð en miklu oftar í hópum ríðandi um Vallhólminn.

Jónsmessunótt í Hegranesi gleymist ekki.

Árin mín á Löngumýri urðu bara 5. Margrét Katrín Jónsdóttir, vinkona mín, sem kom með mér norður hélt áfram þegar ég hætti og varð fyrst skólastjóri og eftir það forstöðukona þegar starfið breyttist.

Meðan hennar naut við sóttist ég eftir því að fá að koma norður og vinna í viku eða tvær til að njótaalbertslund_mkj.jpg birtunnar, folaldanna, fuglanna og alls sem fjörðurinn hefur upp á að bjóða og vera með Margréti. Árin sem ég bar ábyrgð á staðnum var hún stoð mín og stytta og vinskapur okkar varð það sem einhvern tíman hefði verið kallað fóstbræðralag.

Elsta dóttir mín fór ung til Möggu til fósturs á sumrin og vann þar í mörg sumur. Dóttir hennar ber nafn Margrétar.

 Það kemur alltaf betur og betur í ljós að það verður engin regla á þessum söguköflum af sjálfri mér sem ég ætlaði einu sinni að skrifa.

Allt sem hér kemur fyrir sjónir er komið til af því að ég ætlaði að gera traustum lesendum þessarar síðu grein fyrir bloggtregðunni og koma bjálfanum að í leiðinni, en merking orðsins er eitt af mörgu sem kom mér á óvart í Skagafirði.

 Hólmfríður, Jóna, Greta og Jón Björnsson, Margrét og Guðbjörg Lilja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég á ástvin í Skagafirði. Hann er aðkomumaður.

Eitt sinn kom ég til Margrétar síðla dags með þreytta litla fjölskyldu. Hún tók mér með kostum og kynjum. Fékk að tjalda hjá henni og njóta allra gæða Löngumýrar og hlýju Möggu. Þó stóð kunningsskapur okkar einungis á brauðfótum bernsku minnar.  

Sigurbjörn Sveinsson, 16.6.2009 kl. 23:23

2 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Semsagt "bjálfi" þýðir gigt? Og saga fylgdi í kaupbæti. Takk fyrir það.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 17.6.2009 kl. 02:05

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Bjálfi er lasin manneskja. Sú sem er bjálfaleg er ekki fullfrísk.

Hólmfríður Pétursdóttir, 17.6.2009 kl. 07:48

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta er norðlenska. Fyrrum húsfreyja á Laugabóli í Skjaldfannardal við Djúp minnir mig að hafi komið úr Þingeyjarsýslum. Hún segir frá því, að Djúpmenn hafa verið lítt hrifnir þegar hún notaði þetta orð um veikindi sín og annarra.

Sigurbjörn Sveinsson, 17.6.2009 kl. 12:40

5 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Takk fyrir það. Svo lengi lærir sem lifir. Nú veit ég hvaða orð ég nota næst þegar ég hringi mig veika í vinnunna.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 17.6.2009 kl. 22:25

6 identicon

...og stóra stelpan þín fær líka reglulega heimþrá í Skagafjörðinn en enn oftar hugsar hún til Möggu. Takk fyrir skrifin.

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:06

7 identicon

Sæl vertu! Fyrir löngu síðan sendi Guðbjörg mér slóðina á bloggið þitt og loksins leit ég hér við. Takk fyrir skemmtileg skrif - þau brúa bilið milli nútíðar og fortíðar.

Bjarney (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 22:58

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er algjör bjálfi!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.6.2009 kl. 16:42

9 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Allir bjálfar  bloggsins sameinist. Þú sýnir mala Ronju fyrir mig.

Hólmfríður Pétursdóttir, 26.6.2009 kl. 00:24

10 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Var að skoða bloggið þitt og sá þá mynd, sem mér sýndist vera frá Albertslund. Þegar ég klikkaði á hana staðfestist það. Ég bý þarna núna, þó ekki í ljótu, gráu raðhúsunum í Godthåbsparken. Vestan við það svæði, sem raðhúsin á myndinni eru á, var reist nýtt en minna hverfi raðhúsa og íbúða um 1990. Þar bý ég.

Þessi hræðilegu raðhús í Alberstlund eru nú seld á 40-50 milljónir ISK. (2-3 mill. DKK).

Íslenskur múrari, sem ég eitt sinn hitti, þar sem hann var að laga gafl á þessum húsum, sagði mér að þessi hús myndu hrynja eftir 20 ár. 

Í ósk um góðan bata.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 29.6.2009 kl. 07:33

11 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Þakka þér innlitið Vilhjálmur, okkur leið vel í Skriverhusene þessi ár sem við bjuggum þar.

En oft fannst mér enginn vera í þessum húsum á daginn nema hundar og ég með ungar dætur okkar. Ég sá fyrir mér að ég yrði að flagga með einhverju auðkenni þegar þær færu að fara einar út að leika sér.

Til þess kom ekki. Við drifum okkur heim til Íslands, til afa og ömmur og skyldfólksins alls.

Hólmfríður Pétursdóttir, 29.6.2009 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband