27.5.2009 | 13:37
Á Grjóteyri III
Síðast færsla var snubbótt í báða enda. Skrifari ekki mjög vel upplagður. Stendur allt til bóta og þráðurinn verður því tekinn upp þar sem hann var slitinn og ofið í uppstöðu myndanna.
Ég man vel þegar Magnús og Fía gerðu verkáætlanir fyrir daginn í eldhúsinu á morgnana og ekki man ég betur en við börnin legðum þar stundum orð í belg.
Geta má nærri að það hefur þurft útsjónarsemi til að láta okkur öll hafa gagnleg verkefni en þó aldrei ofviða þeim sem verkið var falið.
Ég man eftir því að hafa haft það verkefni snemma að leggja á borð fyrir máltíðir og var þá kölluð inn til þess, þó stundum hefði eflaust verið fljótlegra fyrir Fíu að gera það sjálf. Ég þurrkaði líka upp þegar þvegið var upp. Ég held að þetta hafi verið fyrstu verkefnin sem mér voru falin.
Svo bættust við aðrar skyldur eins og að tæma koppana og þvo þá í læknum. Svo fékk ég það embætti að gefa hænsnunum og sækja eggin. Þá reyndi á hugrekki þessar dekur stelpu en hún var ekki á því að láta undan hræðslu sinni. Hænsnunum sinnti ég lengi en koppastandi lauk að mestu þegar klósettið kom.
Ekki má gleyma kúnum, blessuðum kúnum á eftir þeim rölti ég kvölds og morgna með spotta í hendi sem kom sér vel til að verjast loftárásum kríunnar.
Með aldrinum urðu verkefnin fjölbreyttari innanhúss og stundum var ekki laust við að mér fyndist hlutur strákanna betri að geta farið upp og lagt sig eða teflt og þurfa ekki að ganga frá eftir máltíðir.
Svona eftir á sé ég að ég hafði mikinn tíma fyrir sjálfa mig.
Einu hafði ég mjög gaman af langt fram eftir árum. Það var að fara niður að á, setjast á gönguplankann sem lá yfir ána fyrir ofan vaðið. Svo sat ég þarna og horfði í strauminn og fannst ég færast upp eftir ánni. Eitthvað hef ég eflaust verið að hugsa, eða ekki. Því er ég að mestu búin að gleyma.
Stundum lagðist ég í hátt gras og horfði gegn um stráin upp í himininn, sem var auðvitað mest gaman ef skýjafar var þannig að skýin urðu að myndum sem hægt var að fylgja.
Ég sóttist líka í að mylja allavega lita móbergssteina og þykjast vera efnafræðingur þó ég vissi minnst um hvað svoleiðis fólk gerði. Annað sem ég muldi og hefði getað orðið mér hættulegt voru sporöskjulaga einingar úr útvarpsrafhlöðum og plötur úr rafgeymum. Humm, ha, var einhver að tala um hættulega málningu á leikföngum eða óæskileg plastefni?
Oft voru upplagðar sandhrúgur sem hægð var að leika sér í, búa til landslag og leggja vegi.
Ætli það sé ekki best að geyma búið okkar barnanna þar til næst.
Þessari færslu fylgja gamlar myndir sem teknar voru fyrir mína tíð og eru miklu betri en þær sem ég tók og framkallaði, þær hafa elst illa, sennilega fyrir ónákvæmni mína og flumbrugang við verkið.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 23.7.2009 kl. 21:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.