Kjós 1.

 

                          Á móti afkomenda Ólafar og Andrésar.

 

Þessa samantekt gerði ég fyrir mót afkomenda Ólafar og Andrésar, ömmu minnar og afa.

Ég gróf upp gamlar minningar, talaði við Önnu móðursystur, las bækur og skoðaði myndir. 

                             Spenvolg mjólk með froðu,

                             nammi, namm. 

                             Amma leiðir litla stelpu með mál í hendi upp í fjós. 

Sumar allra fyrstu minningar mínar eru frá Hálsi.

                              Stór svartur hundur,

                              Ella í eldhúsinu. 

                              Flatkökur og smér í skeið.

                              Stigi, hleri, fjalagólf og mörg rúm.

                              Hurð inn til ömmu við hliðina á skorsteininum.

                              Kamfórulykt.

 

                               Löngu seinna fylgir bandprjónn stöfum í bók,

                               en ég læri ekki að lesa.

                               Hún amma sagði mér sögur og talaði við mig um margt.

                               Sumt skildi ég fyrst löngu, löngu seinna.

                               Hún talaði um sjóinn, skipskaða, kvíðann,

                               vonina og drauma.

                               Dauðann     

 

                            Hvað var ég gömul?

                            Hvenær hætti ég að fara upp í fjós eftir spenvolgri mjólk?

Langamma-1 copy Guðrún Gísladóttir og Andrés Andrésson  Tvísmellið á myndirnar til að stækka þær.

Saga þeirra Andrésar og Ólafar hefst ekki á Neðra Hálsi.  Ólöf var fædd í Eyrar-Útkoti 25. júní 1883.  Hún var dóttir Guðrúnar Gísladóttur ( f. 20. júlí 1850) og Gests Jónssonar. (f. 23. október 1845)  Þau hjón fengu Kiðafell til ábúðar frá fardögum 1885, en Gestur drukknaði sama vor í fiskiróðri út af Seltjarnarnesi.  Guðrún og Gestur eignuðust 6 börn en höfðu þegar þetta var misst fjögur þeirra.  Guðrún og börn hennar Gísli sem þá var á áttunda ári (f. 13.okt. 1877) og Ólöf ekki orðin tveggja ára fluttust að Kiðafelli. (Kjósarmenn bls. 414).  Þar voru þá foreldrar Guðrúnar, Gísli Guðmundsson (f. 11. júlí 1817) og Sesselja Kortsdóttir (f. 21. ágúst 1822) og bróðir hennar Gísli Gíslason (f. 14.ágúst 1851

ÖMMUHLÁTUR Guðríður Þórðardóttir og Ólöf Gestsdóttir

Þær hlógu dátt ömmurnar mínar Olla og Gudda, -systradætur og jafnöldrur,-þegar þær rifjuðu upp atburði frá árunum á Kiðafelli.  Heimilið var fjölmennt og oft fengu frændur og frænkur að vera í lengri eða skemmri tíma.  Á þessum árum fæddust börn Gísla móðurbróður Ólafar þau Gísli (f. 6. febr.1892) Jóhanna (f. 3. mars 1895) og Dagbjartur (f. 1. maí 1897). (Kjósarmenn bls. 374 og 381). Móðir þeirra var Sesselja Jóhannsdóttir. Með dugnaði, ráðdeildarsemi og nýtni lögðust allir á eitt við störf utanhúss og innan.  En það var líka brugðið á leik, sungið og spilað.

Þegar gen, erfðir og ættarfylgjur eru mál málanna er spennandi að grafa upp hvað skrifað hefur verið um ömmur okkar og afa.  Guðrúnu móður Ólafar er þannig lýst að hún hafi verið broshýr, viðmótsþýð, vel vitiborin, brjóstgóð og vorkunnsöm.  Iðjukona mikil og myndarleg í öllum störfum.(Ljósmyndir I bls. 74)  Gísli afi Ólafar var sagður hagur vel og afbragðs tamningamaður.(Himneskt er að lifa I bls. 19)  Sesselja amma hennar prúð, orðvör, vingjarnleg, einlæg, ráðdeildarsöm og nýtin.  (Ljósmyndir I bls. 73).

Framhald 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ótrúlega er gaman að það skuli vera til svona lýsing á forfeðrum manns. Lýsing sem allir gætu verið meira en stoltir af...broshýr, viðmótsþýð, vel vitiborin, brjóstgóð og vorkunnsöm, iðjukona mikil og myndarleg í öllum störfum, prúð, orðvör, vingjarnleg, einlæg, ráðdeildarsöm og nýtin...nú slæ ég reyndar tveimur konum saman en ætli það verði einhver til að skrifa svona góðar og lýsandi lýsingar um okkur 21.aldar fólkið?

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband