Aldrei að standa þegar þú getur setið.

Kristinn Ágúst Jónsson   Aldrei að standa þegar þú getur setið. Aldrei að sitja þegar þú getur legið. Svona komst hann að orði maðurinn sem ég sá aldrei leggja sig.   

fjölnisvegur og hnitbjörg copyfjölnisvegur'30 garður fjöln. nýr fjölnisv jarðarb

Í kistlinum góða (smbr. síðustu færslu) er bréf með bréfhaus Verðlagsstjóra dagsett 21. febrúar 1949: Hér með heimilast yður að selja innkaupapoka 14 möskva með tréhandföngum á kr. 15,oo pr. stk.Verðið er heildsöluverð og er söluskattur innifalinn. Varan verði merkt K.J.  undirritað Torfi Jóhannsson.

Þessi net reið afi á hanabjálkanum þegar hann var ekki á vakt í laugunum. Húsnæði þeirra ömmu bauð ekki upp á að  hann gæti dregið sig í hlé niðri þegar vinkonur ömmu Guðríðar komu í heimsókn.

 Þær gengu bakdyramegin inn í kápu með skýluklút eða hatt á höfð og oft í bomsum utan yfir skóna. Bomsurnar urðu eftir í ganginum. Þessar konur báru ráptuðrur, stórar töskur, líkar þeim sem nú fást. 

Á þessum árum heimsóttu konur hver aðra. Fáar unnu utan heimilis, en sóttu félagsskap til hver annarrar. Svo drógu þær handavinnu upp úr skjóðum sínum og saumuðu, hekluðu eða prjónuðu meðan  þær létu dæluna ganga.

En afi var á loftinu. Þar hafði hann útvarp, en oft var slökkt á því, kveikt til að hlusta á veðrið. Þarna reið hann innkaupanetin, las rímur og riddarasögur og vann í bókhaldinu.

Peningana úr laugunum minnir mig að hann hafi farið með í Landsbankann. Alltaf var allt í röð og reglu og föstum skorðum þegar kom að peningum.

Þegar Kristinn Ágúst afi minn var nærri áttræður hætti hann að bera ábyrgð á Sundlaugum Reykjavíkur í Laugardal. Það var árið sem viðreisnarstjórnin tók við og innkaupanetin voru lögð á hilluna.

 Þá fór hann að ríða net fyrir Hampiðjuna, vængi í troll ef mig misminnir ekki. 

Svo ég slái botninn í þennan pistil um Kristinn afa þá fór það svo að við bjuggum saman síðasta árið hans.

Hann vann við netin sín í ganginum.

Mér fannst hann samt eins og rótslitið tré fluttur af Fjölnisveginum upp á 3. hæð í blokk í Vesturbænum.

Geðprýði sinni hélt hann til hinsta dags en gleðin var horfin úr augunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband