Úr handraðanum

Afi lét eftir sig geirnegldan kistil. Kistillinn sá er víðförull og geymir mikla sögu, sjálfur er hann þögull sem gröfin þrátt fyrir velking á landi og sjó. En það sem hann geymir er saga manns frá 1879 til 1961.

 Í handraðanum sjálfum er smáflaska undan koníaki.

Fyrir nokkrum árum var gefin út bókin Skipstjórnarmenn og íslenskur sjávarútvegur. Þá tók ég saman ævina hans afa. Allar heimildir úr kistlinum góða. Hann tók hið minna stýrimannapróf 1903 og fyrsta skráning í sjóferðabók er frá 1904 á kútter Elínu frá Reykjavík, en ég veit að hann reri á bát frá Eyrarbakka fyrr. Síðasta færslan í sjóferðabókinni er 1931 á togaranum Snorra Goða frá Reykjavík.

Kristinn var umsjónarmaður Sundlauga Reykjavíkur í áratugi. Hætti 1958.  Við fórum oft saman inn í laugar og ég var með honum tímunum saman og kannski hefur einhverjum þótt þessi bústna stelpa ganga þar um eins og hún ætti hlut í fyrirtækinu og hann ekki lítinn. Og veitingarnar, þær voru ekki af verri endanum tvíbökur, sykur, mjólk og kaffi.

Uppi á hanabjálka var athvarfið hans afa og þar færði hann bókhald lauganna, gerði upp hvern dag. Taldi peninga, flokkaði smáaura einseyringa, tvíeyringa, fimmeyringa, tíeyringa, tuttuguog fimmeyringa, krónur og túkalla. Svo var aurunum pakkað í hvítan pappír í lengjur. Það var mikil ábyrgð sem fylgdi því að fá að flokka aura og telja. Í stiganum sem var bak við lokaða hurð stóð þriggja pela lýsisflaska en uppi á lofti voru oft til lakkrísafgangar og stundum Egils appelsín í flösku.

Afi sá mér fyrir bókum frá vini sínum Gunnari í Leiftri. Annars man ég ekki eftir því að hann reyndi að hafa áhrif á mig með orðum. Eitt vildi hann samt að ég lærði og það var þulubrot að austan og hann gafst ekki upp fyrr en ég gat þulið:

Tíkin hennar Leifu

Tók hún frá mér margt.

Skaflajárn og skeifu.

Skinn og vaðmál svart.

Rótaði hún í sig Rangárvöllum

Reykjanesi, Bakkanum öllum

Ingólfsfjalli, öllum Flóa

aftur lagði hún kjaftinn mjóa.

Samt var hún ekki hálf.

Ég held að hann hafi ekki vilja að þessi romsa gleymdist, eða að hann hefur viljað að ég lærði eitthvað að austan.

Nýlega fann ég svo í Íslenzkum gátum, skemmtunum, vikivökum og þulum línur úr þulunni hans afa en þar í tveimur þulum sem slengt hefur verið saman í Norðurkoti.

Og nú sit ég hér í mínum lata stráks stól og set þessar minningar á blað, meira fyrir sjálfa mig en afkomendur, en samt líka fyrir þá.

heima_003.jpg

Á myndinni eru Jón Jónsson fæddur 1856 ; Kristinn Ágúst Jónsson fæddur 1879; Pétur Kristinsson fæddur 1904 og Andrés Pétursson fæddur 1931.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gefðu okkur endilega fleiri svona minningarbrot

Guðbjörg Lilja (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband