26.3.2009 | 09:36
Margt fer öðruvísi en ætlað er
Í gærmorgun átti ég von á rólegum degi með slöppum ömmustrák. Ekki aldeilis, ÓGE þurfti að sækja sér meira efni, í Bláa lónið, fyrir það sem hún er að vinna og vildi fá mömmu sína með sér.
Svo MP var pakkað í galla og húfu, því mamman er oftast til í flest. Litli Blár var fljótur suður eftir og okkur vel tekið. Skoðuðum Bláa lónið utan og innan, framan og aftan og fengum okkur smá bita.
Okkur var leiðbeint að húsi rannsókna og þróunar og þaðan á dulúðugan stað þar sem grafið hefur verið upp úr afföllum úr lóninu við orkuverið í Svartsengi. Þarna var þétt gufa og þessi ævintýralegu litir, hraunið rautt og svart, mosinn grænn, kísillinn hvítur og vatnið djúp blágrænt.
Hefði ég ekki fyrir löngu skilið ánægju listamannsins við sköpunarvinnu sína þá hefði ég skilið hana eftir þessa ferð. ÓGE brosti hringinn með sjálfri sér þarna í gufumekkinum en mamma hennar var ekki alveg í rónni ég var farin að láta eins og ég gerði á Bjargbrúninni á Látrum forðum daga þegar dæturnar voru litlar. Lausir kísilhaugar og sjóðandi vatn er hættulegt umhverfi.
MP var alveg heillaður og fékk aðeins að fara út úr bílnum, þó ekki þar sem hættan var, og koma við mosa, og kísil.
Hann er eins og sér valinn fyrir ömmu sem getur aldrei hætt að kenna og hlustaði með athygli á alls konar sögur á suður leiðinni, um ferðalög fyrir bílaöld og svo spyr þessi elska:,,Og hvað svo meira?"
Svo voru kísilsteinar af ýmsum stærðum og nokkrir hraunmolar settir í skottið á Litla blá og brunað í bæinn.
Mikið var stólinn minn, Lati strákur, góður eftir matinn. Ég steinsofnaði undir fréttunum.
Þá er spurningin hvernig verður þessi dagur?
Njótið ánægjunnar af vel unnu verki.
kveðja HP
Athugasemdir
Þessi dagur verður ekki verri en gærdagurinn!
Sigurbjörn Sveinsson, 26.3.2009 kl. 11:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.