Konan sem enginn minntist á-Ella IV

 Smellið á myndirnar til að stækka þær. Smellið aftur og þær opnast í sér glugga.

fjolnisvegur_9_inni_bor_stofa.jpgFyrir 57 árum voru minningargreinar blaðanna allt öðruvísi en þessa dagana. Það tíðkaðist held ég ekki að þær væru skrifaðar af nákomnum. Þeir voru líka færri sem var skrifað um.

Á sínum tíma tók ég að mér að varðveita kassa með minningargreinum, grafskriftum og minningarkortum ásamt listum með nöfnum þeirra sem senda þurfti þakkarkort. Í kassanum kennir margra grasa, sumt undarlegt í augum yngra fólks.

En hvað um það. Þarna eru afmælisgreinar um Guðmund Ásbjörnsson sjötugan 1950 og minningargreinar að honum látnum. Þessar greinar las ég svo þarna um tvítugt þegar kassinn komst í mínar hendur og ég var að bæta í hann.

Ég mundi vel þær breytingar sem urðu á lífi okkar á Fjölnisveginum 1952 en það sem kom mér á óvart var að hvergi var minnst á Ellu einu orði.

Þarna sat ég 1962 að verða, tvítug sjálfstæð jafnréttiskona og las þessar greinar en fann ekki einu sinni minnst á að Guðmundur hefði haft ráðskonu, hvað þá meira.

ella_1.jpgNúna er ég búin að leita að því hvort um fleiri greinar hafi verið að ræða, en ekki fundið neitt nýtt og við lestur þeirra komist að sömu niðurstöðu og forðum.

Margt hefur sem betur fer breyst á þessari rúmu hálfu öld sem liðin er. En á þessum tíma gátu margir merkir menn, sem ég trúi að allir hafi notið beina á hjá Ellu skrifað grein eftir grein, án þess að nefna það einu orði að sama konan hafi staðir fyrir heimilinu nærri aldarfjórðung.

Bítlarnir voru enn ungir og sætir með passíuhár, og þeir tímar að ganga í garð þegar ungt fólk tók hefðir og gildi eldri kynslóða til endurskoðunar,og mér fannst ýmislegt sem þótti sjálfsagt á Ella og GuðlaugFjölnisvegi 9 ósanngjarnt og ástæðulaust, sérstaklega það sem sneri að Ellu.

Þegar ég var barn og bjó við þessar hefðir fannst mér þær sjálfsagðar og núna þykist ég sjá að þær hafa auðveldað sambúðina og létt heimilisstörf og verksskiptingu.

Sambýlið getur ekki hafa verið auðvelt fyrir konurnar mínar þrjár, mömmu, ömmu og Ellu. Engin íbúðin hafði allt sem þurfti. Allir þurftu að fara í gegn hjá öllum einhverra erinda.

Þessi sambúð var samt þannig að ég man aldrei eftir því að fólk rifist, eða hækkaði róminn. Það gat verið ákveðni og þungi í rödd, en aldrei hávaði og skammir.

Þess vegna var það að þessi gróðurhúsaplanta sem ég var hafði aldrei verið ærlega skömmuð þegar ég kom 24 ára gömul norður í Skagafjörð og einn opinber starfsmaður kom í hlað og hellti úr skálum reiði sinnar yfir skólastýruna, sem var að gera sitt besta, en réð engu um snjókomu, girðingar í kafi og hross sem sóttu í trjágróðurinn. Undanleg hljóta honum að hafa þótt viðbrögðin, því ég varð orðlaus, augun fylltust af tárum og ég snerist á hæli og flúði inn.

Þegar Ella fór af Fjölnisveginum saknaði ég hennar mikið og heimsótti hana oft meðan hún bjó á næstu götu fyrir neðan, Bergstaðastræti. Ég heimsótti hana líka á Tómasarhagann og á Laugarásveginn. Ég fékk stundum að vera með henni fyrsta árið í vinnunni í Langholtsskóla þegar hún hafði umsjón með ljósböðum nemenda.

ella_gomul.jpgHeimsóknir mínar til Ellu urðu stopulli síðustu 10 árin sem hún lifði.

Það sem kveikti þessar minningar um Elínbjörgu Halldórsdóttur var bruni Valhallar. Ég veit núna betur en áður hvað hún var mér mikils virði.

Hún lést 19. janúar 1970. og var jarðsungin 26. janúar. Þá birtist í Morgunblaðinu þessi kveðja:

ella_kve_ja_fra_fraenkunum.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Sigurbjörg, Þakka þér fyrir kveðjuna.

Eins og hef sagt áður er svo lítið tómlegt fyrir kennara að fá ekki beint andsvar við orðum sínum, en gleðin verður þeim mun meiri þegar fólk skrifar athugasemd ég tala nú ekki um þegar hún er svona jákvæð og uppörfandi.

Hólmfríður Pétursdóttir, 28.7.2009 kl. 12:01

2 identicon

Sæl mín kæra. Svo sannanlega man ég eftir Ellu, hún var hluti af tilverunni á þessum tíma og stundum stungið eihverju upp í frísk ungmenni

Magnús Guðmundsson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband