18.7.2009 | 23:51
Hún leiddi vel.-Ella III
Við fórum til Þingvalla í drossíu. R-842 sem var Dodge ef mig misminnir ekki. Það var ekki alveg þrautalaust fyrir mig að ferðast í aftursætinu á þessum bíl. Þetta var mjúkur og fínn bíll, en ég sá ekki út og varð oft bílveik, og það fannst mér leiðinlegt. Annars finnst mér eins og þau sem réðu ferðinni hafi lært hvenær var við hæfi að stoppa og hleypa stelpunni út um stund.
Í fyrradag fórum við hjón þessa leið, þó ekki alla leið til Þingvalla, því við fórum Kjósarskarð niður í Kjós. Við vorum að afla okkur jurta í te. Ég var með hugann við þessi skrif mín um Ellu og það rifjaðist upp fyrir mér hvar var stoppað og ýmis örnefni sem ég lærði. Ég man hvað Bugða vafðist fyrir mér, það er nefnilega önnur Bugða í Kjósinni. Þessi ferðalög voru sem sagt alls ekki leiðinleg þrátt fyrir bílveiki.
Það var ekki ætlast til þess að ekið væri að bústaðnum, og er ekki enn. Bílnum var því lagt skammt frá Valhöll og svo var farangurinn borinn á leiðarenda.
Flestir voru fyrir austan yfir helgar og fóru í bæinn á sunnudagskvöldum
Þá urðum við Ella stundum tvær eftir og það var best. Þessar vikur mínar með Ellu hafa verið bæði snemmsumars og þegar farið var að skyggja.
Annars blandast minningarnar saman í ljúfa tóna gróðurs, hrauns, fugla, vatns og breytilegrar birtu, en fyrst og fremst finn ég einhverja sæla tilfinningu sem erfitt er að koma orðum að.
Ásbirningabúð var ekki stórt hús, en það bjó yfir leyndardómum engu að síður. Væri gengið niður með húsinu norðan verðu var komið að kjallaratröppum sem lágu að dyrum og þegar þeim var lokið upp gat á að líta. Þarna var köld geymsla fyrir matvæli og þarna var líka dæla þar sem vatni var dælt upp í tank, þannig að í krönum var rennandi vatn.
Hillurnar í þessari geymslu gleymast ekki. Þarna var ávaxtasafi í niðursuðudósum, og niðursoðið kjöt í glerkrukkum auk annarra niðursuðu sem var venjulegri.
Við Ella vorum saman öllum stundum. Hún leiddi mig úti.. Mér hefur aldrei verið sama hvernig ég er leidd, en Ella leiddi vel. Hún tók litlu höndina í sína, og hún hafði tilfinningu fyrir því að við gengjum samhliða, hún togaði aldrei.
Og hvað vorum við svo að bardúsa?
Fyrst var að ganga frá eftir gesti helgarinnar, þvo, hengja upp, strauja og brjóta saman og setja í skápa. Það var góð lykt úr línskápunum á Þingvöllum. Enn fannst mér ég vera að vinna með Ellu.
Svo þurftum við að ganga út í Valhöll og ná í mjólk. Við gengum þarna eftir stígnum og mér fannst við hafa allan tíma í heiminum. Við hlustuðum á himbrima og lóma, auk annarra fugla og gáfum okkur góðan tíma til að fylgjast með óðinshönum á lítilli tjörn. Ég var alsæl og skemmti mér innilega þegar við Ella vorum að horfa á óðinshana synda í hringi og skilja eftir sig gárur í vatninu. Einhvern vegin hvarf allt nema Ella, sem hélt í höndina á mér og þessir fallegu kviku fuglar.
Mjólkurhúsið bakatil í Valhöll var önnur saga. Mér fannst lyktin vond og gólfið var grátt og blautt og fólkið í hvítum sloppum og mér finnst eins og það hafi ekki verið góð birta inni. Við komum með brúsa með okkur og fengum mælt í hann með málum á löngu skafti sem sökkt var í stóran brúsa og síðan hellt í þann litla, eins og gert var í mjólkurbúðunum í bænum. Ég vildi helst ekki fara þarna inn og fékk að standa í dyrunum, en mátti ekki fara langt út í portið.
Svo gengum við aftur heim, stoppuðum hjá óðinshönunum, tíndum nokkur blóm í lítinn vasa og fyrr en varði vorum við komnar að tröppunum. Mér fundust þessar tröppur bæði langar og brattar. Það var sök sér að klifra upp, en að fara niður gat verið þrautin þyngri, mér fannst ég vera upp úr því vaxin að bakka niður, en það varð þó oftast þrautalendingin. Það var ekki hægt að leiðast í þessum grænu tröppum.
Oft brugðum við Ella okkur upp í Hestagjá og í ágúst tíndum við ber.
Ég man eftir tágahúsgögnum og stórum upptrekktum grammófóni með lúðri, annars man ég ekki mikið hvernig húsið var að innan. Við Ella sváfum í sama herbergi. Hún fór með bænirnar með mér á kvöldin og hún kenndi mér að signa mig, kvölds og morguns.
Þó mjólkurhúsið í Valhöll væri heldur blautt, grátt og illa lyktandi setur það samt krydd í þessar minningar og á Þingvöllum heyrði ég líka ógurlegasta hljóð sem mér finnst ég hafi nokkurn tíman heyrt úr nokkrum barka.
Það var þegar fjölmennt var í Ásbirningabúð og einhverjir tjaldbúar. Bátaskýlið og bátarnir er saga út af fyrir sig, en ekki umfjöllunarefni að þessu sinni. En hljóðið kom neðan frá bátaskýlinu, en ég hljóp ekki þangað heldur í fangið á mömmu. Seinna komst ég að því að karlmennirnir höfðu verið að vinna á minki sem hafði hætt sér einum of nálægt þeim og var auðvitað óvelkominn.
Þarna komst ég líka að því að það er vont að detta á hraun og að murta hefur óteljandi bein.
Þegar ég fór að huga að þessum skrifum um Elínbjörgu Halldórsdóttur, kom mér í hug að yfirskriftin gæti verið konan sem gleymdist. Ég ætla að reyna að ljúka þessum minningum um Ellu í næstu færslu.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 3.8.2009 kl. 10:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.