25.4.2009 | 00:54
Dóttir njósnarans III
Kalda stríðið var skollið á og Íslendingar gengnir í NATO
Kaninn hafði tekið við af bresku dátunum og svo hurfu þeir líka úr bröggunum. En ekki fyrr en vera þeirra þarna í nágrenni við sumarbústaðinn hafði haft sín áhrif á skoðun mína á Ameríkönum. Þeir gáfu okkur ávexti og súkkulaði og síðan finn ég appelsínulykt og súkkulaðikeim þegar ég hugsa um kampinn fyrir ofan Bústaðaveg.
Ýmislegt dót barst til landsins í sambandi við jólahald. Dönsk rauð svín og fléttuð hjörtu, þýskir brothættir fuglar og kúlur og lifandi kertaljós viku fyrir englahári og jólaljósum í bjöllum úr plastic eins og það hét þá.
Mynd jólasveinsins breyttist úr dönskum nissum í karl með hvítt hár og skegg í rauðum buxum og treyju með hvítum bryddingum. Sá var seinna kenndur við Coka Cola drykkinn sem þá hélt líka innreið sína í flöskum með mitti og glösum með sama sköpulagi.
Í stríðinu var mikið skotið og sprengt.
Ég man eftir að hafa farið með pabba út í Suðurnes þar sem lögreglan hafði skotæfingahús, en ég hef annað hvort setið í bílnum eða fengið að vera einhvers staðar innan dyra þar sem ekki var verið að skjóta því þar hefði ég aldrei þorað að vera og hefur sennilega heldur ekki staðið það til boða.
Fólkið mitt hefur ekki verið eins grunlaust um hlustunar leiðangra mína og ég hélt því mér finnst ég ekki hafa vitað um tilvist kjarnorkusprengjunnar fyrr en tal og skrif um tilraunir með kjarnorkuvopn og vígbúnaðarkapphlaupið hófst fyrir alvöru 1949.
Um Sovétríkin vissi ég ekki annað en það að þar réðu bolsar og þá þoldi hún amma mín ekki. Ef einhver Íslendingur sem hún sagði að væri bolsi flutti efni í útvarpi slökkti hún strax og oft kom fyrir að hún fékk mig til að slökkva fyrir sig ef ég var við höndina.
Sama átti reyndar við um spíritista, en það er önnur saga.
Í mars 1950 er faðir minn ráðinn forstöðumaður öryggisþjónustu lögreglunnar. Hvað átti þessi forvitni stelpuhnokki að fá að vita? Allt í lagi að hún fengi að fylgjast með konungs komum og forseta komum. Annars var henni sagt að pabbi færi á hafnarnefndarfundi. Einhvern vegin þvælast almannavarnir og loftvarnaflautur líka inn í þessa mynd sem ég gerði mér af þessum störfum, og það hefur ábyggilega verið ætlunin segja mér eins mikið og óhætt var miðað við aldur og þroska.
Pabbi fór heim í hádegismat eins og líklega flestir á þessum árum. Ég hafði þann háttinn á þegar ég var búin í skólanum fyrir hádegi að fara niður í Lækjargötu og þar stóð Karíólinn. Ég klifraði oftast upp á húddið og sat og beið eftir pabba og við fórum saman heim.
Ég kom mjög oft á skrifstofuna hans í Lögreglustöðinni gömlu. Í herberginu sem var ekki stórt og vissi að Pósthússtræti vann líka frú Snjólaug Bruun, systir Sigurjóns lögreglustjóra.
Í sambandi við sértæka lestrarörðugleika mína, eins og það mundi nú vera kallað, þótti gott að geta fengið lánaðan stálþráð til að lesa inn á fyrir dekurrófuna og láta hana lesa og hlusta. Seinna leysti segulband stálþráðinn af.
Þó börnum þyki tíminn lengi að líða eru þau alltaf að bæta við sig þroska og þekkingu,og munar mikið um hvert ár. Fljótlega fór ég að fara með pabba í annað húsnæði sem hann hafði til afnota. Þar dundaði ég við framköllun mynda meðan hann vann það sem hann þurfti þá stundina. Þá hef ég verið um fermingu.
Nú var hann löngu hættur að fara á hafnarnefndarfundi. Ég hitti suma samstarfsmenn hans og skildi meira af því sem var að gerast í kring um mig.
Við vissum öll í húsinu um hvað vinnan snerist og það jafnframt að hún var graf alvarlegt mál.
Það er óskhyggja og einfeldni að halda að stórveldin hafi hagað sér að einhverju leiti öðruvísi hér en annars staðar í heiminum. Það er blekking að aðrar þjóðir líti á okkur sem einhverja krútt þjóð sem sé svo lítil, dugleg, gáfuð, friðsöm og saklaus að hana eigi ekki að meðhöndla eins og sjálfstæða þjóð sem hún sótti þó svo fast að verða og okkur var sagt að hefði orðið fyrir orð Bandaríkjamanna meðal annars. Það eina sem er satt í þessari rótgrónu sjálfsmynd er það að líklega höfum við verið svo saklaus að það var auðvelt að plata okkur upp úr skónum og fá okkur til að selja fullveldið fyrir skjótfenginn ímyndaðan gróða.
Kaldastríðið var háð hér ekki síður en annars staðar, enda komust stórveldin fljótt að því að fyrir utan vígbúnaðarkapphlaup og að sýna vígtennurnar með því að gera tilraunir með sífellt ógurlegri og stærri sprengjur var tilvalið að seilast til áhrifa um allan heim og verða sér úti um áhrifasvæði, jafn vel yfirráðasvæði.
Starf gagnnjósnara á Íslandi var því hvorki lítilfjörlegra né hættu minna en annar staðar í heiminum. Stórveldin voru í stríðsleik og skildu ekki alltaf þessa fámennu þjóð þar sem auðvelt var að vita allt um alla. Þeir vildu sömu vinnubrögð og annars staðar. Þess vegna gat ég hlustað á og lesið inn á segulband áhyggjulaus því nóg var af þeim.
Auðvitað voru Bandaríkjamenn virkir í þessu starfi því Ísland var í NATO og þeir höfðu tekið að sér varnir landsins. Komnir með herstöðvar í Keflavík og í Hvalfirði. Bretar komu líka við sögu.
Sovétsmenn höfðu svo sitt fólk til að vinna fyrir sig og ég veit fyrir víst að hér eins og annars staðar voru sumir sem veittu hvorum tveggja.
Ég tók ekki eftir því á þessum árum hvernig stríðsótta illgresið óx en það skal enginn halda að það setji ekki mark á fjölskyldu að hafa svona starf í bókstaflegri merkingu inni á heimilinu.
Framhald síðar.
Leiðrétting: Það er spurning hvort það getur verið að ég muni umræðu um atómsprengur frá 1949 en hún komst alla vega inn í mig.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 26.11.2009 kl. 17:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.