21.4.2009 | 15:46
Dóttir njósnarans I
Þegar störf föður míns að öryggismálum ríkisins komust í hámæli sagði einhver að nú yrði ég að skrifa bók sem héti Dóttir njósnarans. Bókin sú verður aldrei skrifuð.
Það er mikill ábyrgðarhluti að láta frá sér efni á prent og líka blogg. Þess vegna vil ég biðja ykkur sem lesið þessa bloggkafla mína og rekist á eitthvað sem þið vitið betur en ég að láta mig endilega vita.
Nú er ég að verða búin að lesa bókina sem ég var að skrifa um í gær. Á bls.53 segir í myndatexta að Pétur Kristinsson hafi verið að alast upp á Njálsgötu 30 árið sem myndin er tekin 1933.Staðreynd er að árið 1933 er Pétur búinn að vera kvæntur maður í 3 ár og hefur búið á Fjölnisvegi 9 jafnlengi. Á bls. 125 í myndatexta er föðuramma mín kölluð Guðrún þó rétt nafn komi fram á blaðsíðunni á móti.
Við erum að sumu leiti jafn sett Finnbogi og ég að viðhorf okkar til þessara tíma sem hann er að skrifa um mótast af því sem við heyrum fullorðna tala um, af því sem fyrir augu okkar ber og af hljóðum í umhverfinu og þeirri lykt sem ber fyrir vitin.
Auk þess hef ég alls konar heimildir sem haldið var til haga á heimilinu til að styðjast við og svo hitt að ég var orðin 8 ára þegar pabbi tók við þessu starfi og að verða 19 ára þegar hann lést.
Mér þykir tíminn renna saman í frásögn Finnboga sem ef til kæmi ekki að sök ef hann hefði ekki tekið þessi kaldastríðs mál, sem komust í hámæli á þeim tíma sem ætla má að hann hafi verið að ganga frá bókinni til útgáfu.
Mér sýnist hann blanda saman baráttunni um brauðið og þeirri pólitík sem einkenndi þessi ár á vinnumarkaðnum þegar lítið var um vinnu og pólitísk átök hörð og hins vegar átökum stórveldanna og kalda stríðinu og þeirri alvöru og tortryggni sem ríkti milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna og gætti á Íslandi sem hafði landfræðilega mjög miklu hlutverki að gegna.
Kalda stríðið var alvarlegra en margir íslendingar gera sér grein fyrir. Margir tóku því eitthvað svipað og ástandinu sem nú ríkir hér á landi. Sumir stinga höfðinu í sandinn. Aðrir segja sem svo, þetta reddast. Sumir telja að lítil örþjóð hljóti að geta höfðað til vorkunnsemi svo sömu reglur gildi ekki um hana og aðrar þjóðir. Svona mætti lengi halda áfram.
Mér finnst margt líkt með því hvað þurfi að gera varðandi hvor tveggja. Að rannsaka það sem gerðist í botn og finna síðan sáttaleið svo fólk geti lokið þessum atburðum tilfinningalega svo ekki þurfi að búa tortryggni, fjandskapur og heift 50- 60 árum eftir þá atburði sem nú eiga sér stað eins og virðist vera um atburði kaldastríðsins.
framhald síðar.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 13.9.2009 kl. 20:40 | Facebook
Athugasemdir
Hér er vel mælt og drengilega. Því miður verður ekki séð, að nokkur atkvæðamaður lúri undir feldinum um þessar mundir til að mæla fyrir um sættir þjóðarinnar. Allt er þetta heldur daufgert fólk, sem til forustu hefur valist nema birkibeininn úr Þistilfirðinum. Þar eru jafnan mörg sverð á lofti og ófriður í nánd. Gefst það illa til hagsældar.
Ólafur kyrri ríkti yfir Noregi í mörg ár. Af honum fór lítil saga og virðist Snorri hafa efnað til hennar af rýrum sjóði. Um daga Ólafs kyrra var friður í landi og alþýða manna óx af auði og velsæld.
Sigurbjörn Sveinsson, 21.4.2009 kl. 22:58
Það hefur verið skrifuð bók, sem aldrei var skrifuð.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 15:04
Þetta er ein hin besta bók sem töluð hefur verið á íslensku máli. Réttritunin og málskilningurinn kemur í gegnum viðtalið.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 18:41
Skáldskapur þrettándu aldar
sagður staðlausir stafir.
Tuttugu og fjórum kynslóðum síðar
er talað um sagðar bækur,
bóklausan arf.
Eins og menn hafi ekki varðveitt
það sem afi sagði?
Sigurbjörn Sveinsson, 22.4.2009 kl. 22:38
Sigurbjörn,
Takk fyrir innlit og góð orð.
Það kemur sér vel að geta flett upp í afa þínum.
Hólmfríður Pétursdóttir, 22.4.2009 kl. 23:28
Steinþór, á Hala settist að segulböndunum hjá Stefáni Jónssyni, fréttamanni 1969.
Hann hafði engin blöð við hendina. Samt byrjaði hann frásögnina svona:
Það var haustið 1904, þá er það síðla kvölds að gesti ber að garði á Hala...........
Ég hlustaði á útvarpið þá og man það eins og það hefði gerst gær.
Síðan kom heil bók 300 og eitthvað síður.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 00:09
Þetta er rang minni. Ég fékk bókina senda til Kaupmannahafnar 1970.
Heyrði síðar í spólunum, í endurtekningu, í útvarpinu.
En það breytir engu.
Það var haustið 1904, þá er það síðla kvölds að gesti ber að garði á Hala...........
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 00:31
Ólafur
Þakka þér góð orð.
Kennarar eru svo vanir að fá viðbrög strax, góð eða slæm eftir atvikum, en viðbrögð samt
Finnst skrítið að skrifa svona út í bláinn.
Hólmfríður Pétursdóttir, 23.4.2009 kl. 08:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.