Kjós 3 - Á Neðra Hálsi

Andrés afi Andrés Ólafsson
Tvísmellið á myndirnar til að stækka þær og sjá nöfnin.
Andrés var að mestu sjálfmenntaður maður, en naut þess láns að ganga í barnaskóla, sem séra Þorkell Bjarnason á Reynivöllum hélt í nokkur ár fyrir aldamótin.  Soffía, dóttir séra Þorkels, veitti honum einnig nokkra tilsögn í að leika á orgel.  Hann var síðan yfir 30 ár organisti og forsöngvari við Reynivallakirkju og Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi. 

Séra Halldór lýsir honum:  "Andrés Ólafsson var maður fríður sýnum og hinn drengilegasti á velli, ljós yfirlitum og bauð af sér hinn besta þokka.   Manngæði og vitsmunir héldust hjá honum í hendur.  ....Hann var hæglátur maður og ljúfmenni mikið í viðkynningu, fáorður og greiðvikinn og vildi öllum vel.  Hann var gamansamur maður, en ávallt með hægð.  Andrés var félagslyndur maður og samvinnuþýður, en hlédrægur í eðli sínu og laus við að vilja hafa sig meir frammi en nauðsyn bar til.  Hann var einn af þessum staðföstu mönnum og vammlitlu, sem eru salt jarðar." (Ljósmyndir I, bls. 137, 138, 140)

Andrés var einn af stofnendum Bræðrafélags Kjósarhrepps, einnig Sjúkrastyrktarfélags Kjósar-hrepps, hreppsnefndarmaður og lengi formaður Búnaðarfélags sveitarinnar.  Hann varð hreppstjóri árið 1921.

ólöf

Um Ólöfu hefur séra Halldór m.a. þessi orð: ,,Eru mér minnisstæð orð Andrésar um konu hans og hve afdráttarlaust hann þakkaði henni, hve vel hún færi með hin litlu efni...Því eigi var.. af nægtum að taka.  Er Ólöf Gestsdóttir.. væn kona og vitur, skyldurækin, trygglynd og hagsýn.  Glaðlynd er hún einnig og vingjarnleg í viðmóti, skemmtileg í umgengni, einlæg og falslaus... minnisgóð og fróð."(Ljósmyndir I, bls. 139)

N -Háls     N Háls kýr í túni
 
N Háls. mammaFjölskyldan settist nú að á Neðra Hálsi í húsinu sem enn stendur að stofni til.  Þá var líka hjallur við vesturenda íbúðarhússins, fjós og hlaða nokkru ofan við hlaðið og steinhús á milli.  Í kjallaranum var mjólkurbúr, geymsla fyrir súrtunnur og sitthvað fleira.  Á hæðinni eldhúsið og tvær stofur og á loftinu þrískipt svefn og íverupláss.  Annars var sofið á ýmsum stöðum þegar á þurfti að halda og oftar en ekki tveir í rúmi.  Í steinhúsinu var m.a. mjölgeymsla og geymsla fyrir saltaðan mat.  Ólöf sá um matreiðsluna og hafði með sér stelpurnar, eina eða fleiri og tóku þær yngri við af þeim eldri.  Of var borðað í hollum.

Stelpurnar vildu drífa af máltíðirnar og fráganginn til að geta komist út í leiki með hinum áður en aftur var tekið til við störfin.  Hjallurinn var kjörinn til að kasta bolta yfir þegar farið var í YFIR.

Í voginum copyÁ góðum dögum var stundum synt í voginum þegar féll að.  Inni var spilað á spil, farið í leiki, lesið upphátt og sungið.  Andrés átti það til að kalla börn sem voru eitthvað að þrátta eða sjálfum sér ónóg til sín að orgelinu og söng með þeim.  Við barnabörn þeirra Andrésar og Ólafar þekkjum frá foreldrum okkar hvernig komið var fram við börn á Hálsi.  Þess atlætis nutu ekki bara börnin þeirra mörgu heldur tóku þau að sér skyld og óskyld börn í lengri og skemmri tíma.  Á fjölmennu heimili er margs að gæta í umgengni og umtali, ekki síst ef samgangur er líka mikil milli bæja.  Því var um að gera að vera orðvar og venja sig á að segja ekki allt við alla.  Í Kjósinni var farskóli og var honum komið fyrir á bæjum, og þá var ekki 10 ára skólaskylda.  Fjórir vetur urðu að nægja.

börn á vegg copy       börn uppi við gamla veg copy       börn í mýri copy      ferming kalla copy       börn í dyrunum

Það var oft gestkvæmt á Hálsi.  Frændfólk úr Reykjavík kom í heimsókn stundum til dvalar, stundum í stutta heimsókn.  Og þegar bílvegur kom loksins alla leið komu enn fleiri í heimsókn.  Einn sunnudag voru 40 gestir í kaffi.  Það bar líka við að fólk sem var að ná sér eftir erfiða sjúkdóma kom sér til hressingar og Amma gaf því spenvolga mjólk og fleira gott til að auka því hreysti.  Ég get ennþá fundið kamfórulyktina og séð fyrir mér ullarlagða vættan í steinolíu lagðan á brjóstið undir ullarbolnum.  Kreósót, verk og vindeyðandi og  blývatn og arnika voru líka við hendina. 

Börnin eltust og fóru að vinna utan heimilis, strákarnir í vegavinnu á sumrin og stelpurnar fóru til Reykjavíkur í ýmsa vinnu.  Svo festu þau ráð sitt eitt af öðru.

Andrés féll óvænt frá 1931, eftir stutta sjúkdómslegu og bjó Ólöf á Neðra-Hálsi með börnum sínum til 1947, að bræðurnir Oddur og Gísli tóku við búi.  Áður hafði Gestur fengið hluta af jörðinni og byggt nýbýlið Háls. 

                                                Ég man.

                               Það er búið að reisa stóra skemmu við bæinn.

                               Oddur býr í nýju húsi og á litla stelpu.

                               Gestur er líka fæddur.

                               Bergur á stóra bíla.

                              Hann gistir heima 

                              ég fer með honum í sveitina.

                               Við Þorri leikum okkur með horn, leggi og skeljar,

                               mjólkurhúsið freistar

                               það er gaman að sulla.

                               Ungar í kjallaranum, dúnn og yrðlingur.

                               Við brunninn vex hvönn og kúmen uppi við fjós

                               Seinna fjölgar börnunum á hlaðinu og bílunum líka.

                               Stundum eru þar mjólkurbíll og rúta, jeppar og drossíur.

                               Hænsnin og hundarnir blanda sér í leik barnanna.

                               Við fengum krækling úr skel.

 

Ólöf átti heima á Neðra-Hálsi fram á elliár, en dvaldist um hríð hjá Ágústu dóttur sinni undir það síðasta og andaðist á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, 18. júní 1966, nærri 83 ára.

Þegar við nú komum saman niðjar og venslafólk þeirra Ólafar og Andrésar eru Anna og Ásdís einar eftirlifandi af börnum þeirra.  

Eitt er það sem tengir saman kynslóðir og mótar viðhorf til lífs og dauða.  Það eru bænaversin sem móðir, eða faðir, biður með barni sínu á kvöldin.  Ekki veit ég hvenær sú röð bænaversa mótaðist sem lesin var með mér.  Það voru ekki bara barnabænir.  Eitt versið sennilega aftan úr forneskju.  Mér varð hugsað til þessara bæna þegar jarðskjálftarnir skelfdu okkur í sumarbústaðnum á Flúðum og fólk á öllum aldri sótti sér áfallahjálp til fagfólks á því sviði. 

Ég las ekki bara Ljósmyndirnar hans séra Halldórs, Kjósarmenn og bækurnar hans Sigurbjörns í vikunni.  Ég dró líka fram minningargreinar til að sjá hvað samferðafólk móðursystkina minna sagði um þau.  Hvað einkenndi þau, hvað var þeim sameiginlegt.  Ég sé ekki betur en greina megi þrjá meginþætti:  Stillingu, glettni og félagslyndi og kemur það vel heim og saman við kynni mín af þeim.  Við könnumst við góða greind og gott skap, verklagni, hugkvæmni, samviskusemi, góðvild og skapfestu.

Ég fór að velta því fyrir mér hvaða lífsstarf við, börnin þeirra, höfum valið okkur. Það kemur í ljós að mörg hafa valið sér að fást við náttúruna á einhvern hátt, önnur starfa við iðnir, verkfræði og annað sem lýtur að því að byggja og skapa.  Sum eru í uppeldis- fræðslu- og umhyggjustörfum og enn eru einhver að vasast í félagsstörfumTónlistin blómstrar hjá yngri kynslóðunum.

Þegar ég var ung þótti mér gott að vita að ég var komin af fólki sem naut virðingar og skipti máli í sinni sveit, konur jafnt sem karlar.  Nú þykir mér meira um vert hvern mann þau höfðu að geyma og hvernig þau reyndust nákomnum og vandalausum.  Ég er enn stolt af ætt minni og uppruna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta er skemmtilegt frænka. Gaman að víkka sjóndeildarhringinn út fyrir ævisögu Bjössa. Þú mátt til með að tæma þetta frásagnarefni ef það er þér mögulegt. Ég hef bent nöfnum mínum og nokkrum öðrum á þessi skrif.

Ég deildi herbergi með Ólöfu á Hálsi í vikutíma í Keflavík þegar ég var strákur. Þar var alltaf hátt til lofts og vítt til veggja enda.

Sigurbjörn Sveinsson, 6.4.2009 kl. 13:40

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Sigurbjörn, ég veit ekki betur en Lóló hafi verið mikið á Hálsi sem barn og unglingur.Þau voru mörg börnin skyld og óskyld sem voru langdvölum á Hálsi, og það hélst alveg fram á þann tíma sem ég man eftir.
 

Hólmfríður Pétursdóttir, 6.4.2009 kl. 16:23

3 identicon

Takk fyrir að skrifa þetta niður og þessar fallegu myndir með.

Jóna Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 18:05

4 identicon

Mikið er gaman að fá svona mikið af myndum með þessum ágæta fróðleik. Nöfnin á myndunum koma vel út...ótrúlegt hvað Ásdís er í raun lík sjálfri sér strax þarna, þetta ung.

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband