Eftirminnileg jólagjöf.

Í kvöld gefa flestir Íslendingar hver öðrum gjafir. Gjafir sem vonandi gleðja og styrkja vináttu og fjölskyldubönd.

Það var fyrir langa löngu sem ég fékk þá jólagjöf sem er mér eftirminnilegust. Þetta var á þeim árum sem miklar breytingar áttu sér stað á högum mínum. Í fyrsta sinn sem ég hélt jól án þeirra sem höfðu verið mér nánastir, en voru nú látnir.

 Það má með sanni segja að það árið hafi sett að mér verulegan jólakvíða, ekki kvíða vegna afkomu, heldur tilfinningakvíða. Með árunum varð þessi kvíði að trega og síðar að ljúfum minningum.

Margar góðar jólagjafir hef ég fengið um ævina og sumar man ég mæta vel, en þessi eina sker sig úr. Hún var pökkuð í bláan jólapappír með myndum af landslagi í snjó og mikið ef ekki voru einhverjir með rauðar húfur á sleðum að renna sér í snjónum. Pakkinn var þungur og það gutlaði í honum. Gefandinn var Bergur, móðurbróðir, minn sem á þeim tíma vann í matvöruverslun og komst lítið frá í jólaösinni.

jol_og_avaxtados_002.jpgÞegar pakkinn var opnaður kom í ljós dós með blönduðum ávöxtum. Ég fann umhyggjuna að baki gjöfinni. Fríða varð að fá pakka og kveðju, sem segði henni að hann hugsaði til hennar.

Ég man að ég varð allt í einu svo meir og gerði mér ferð burtu frá frá frændfólkinu mínu á Stýrimannastígnum, og skældi um stund, eins og vera ber. Lagaði svo á mér  ungmeyjarandlitið og fór og drakk kaffi og skrafaði fram eftir kvöldi. 

Miðnæturmessan í Dómkirkjunni þessa nótt varð okkur Einari frænda mínum minnisstæð.

Ég óska  ykkur sem þetta lesið gleðilegra jóla. Þakka ykkur innlitin. Megi árið sem fer í hönd verða ykkur gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Var hjá Nimbusi og kom þá séra Baldur í hug, sem stundum fékk yfir sig holskeflurnar en er nú horfinn af moggablogginu að mestu. Fann hann suður í Strandarkirkju liðinn sunnudag og þar varst þú lifandi komin eftir langa fjarveru.

Strandarkikrkja verður mörgum að happi.

Gleðileg jól og þakka árið, sem er að líða.  Megi nýja árið verða ár sköpunar ættarsögunnar áfram. Þér hefur gengið vel fram að þessu. Hvert lítið skref skiptir máli.

Sigurbjörn Sveinsson, 29.12.2009 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband