Í þjónustu lífsins-Ella II.

                                                        

Ella bjó í litlu herbergi undir súð með glugga móti norðri og svo hátt uppi að útsýnið var beint upp í himininn.

Í þetta litla herbergi var gott að koma og aldrei man ég að ég hafi fundið fyrir því að ég væri ekki velkomin. Þegar ég varð fullorðin skildi ég að hún var aldrei í herberginu sínu nema í takmörkuðum frítíma sínum.

 

ella_gu_m_og_fri_a_880770.jpgÞað segir sína sögu að dúkkan mín sem ég kallaði Ellu er slitnust af dúkkunum mínum

Ég tók ýmislegt með mér upp til að leika mér með, en ég man samt best eftir því þegar mér datt í hug að gefa út blað.

Vopnuð pappír og nýydduðum blýanti settist ég við skriftir. Ekkert man ég um efni þessa fyrsta og síðasta tölublaðs, en hitt man ég að ég var lengi að og rembdist eins og rjúpan við staurinn að skrifa læsilega og sæmilega rétt.

Þessi minning segir mér það að þó ég væri varla læs og illa skrifandi hafði enginn brotið niður viðleitni mína til að reyna, en ég er viss um að þessi tilraun til skrifta varð til þess að beina athygli minni að verklegum greinum og því sem ég gæti lært með því að hlusta.

 

 

FELUMYND. HVAR ER ELLA? Smellið á myndirnar til að stækka þær.

Ella tók mig með sér í heimsóknir. Við heimsóttum Guðlaugu móður hennar á Framnesvegi og Einöru frænku hennar á Nönnugötu. Ég man eftir systrum hennar í heimsókn og oft var stelpan einhvers staðar nálægt.

Á Fjölnisvegi 9 voru gólf stífbónuð meðfram teppum í stofum, á göngum og í stiganum, annars staðar gólfin öll. Liggjandi á hnjánum, með rauða gúmmímottu undir til að hlífa þeim, bar Ella bóniðfjölnisv á gólfið með tusku sem núið var í hringi, síðan var fægt yfir með ullartusku og þungum bónkústi. Fram og til baka og að lokum var svo pússað með mjúkum klút.

Silfur og látún þurfti að fægja og þvo rúður utan og innan. Útitröppurnar, bæði að framan og við bakdyrnar voru með terrasso og voru þvegnar reglulega.

Greinilegt er að dagleg þrif eru ekki eftirminnileg en hitt sem var meira verk hefur mér þótt gaman og ég hef eflaust haldið að ég væri að gera gagn þegar ég fékk tusku í hendur.

Tröppurnar voru hálar blautar, en það vandist.

Þingvellir 13Ævistarf Ellu var að þjóna öðrum og gera allt sem í hennar valdi stóð til að láta öðrum líða vel.

Það er sagt að grunnurinn að guðsmynd fólks sé lagður snemma á ævinni. Ella lagði sinn hluta af mínum grunni. Heimilin þrjú í sama húsi áttu það sameiginlegt að kristin trú skipti alla miklu máli og birtist í umhyggju, þolinmæði og trausti.

Bestu stundir okkar Ellu voru samt á Þingvöllum og um það verður næsta færsla.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þú rík að eiga svona góðar minningar um gott fólk. Takk fyrir að deila því með mér og gera mig ríkari líka.

Jóna Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 20.7.2009 kl. 20:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband