16.7.2009 | 14:10
Þriðja konan- Ella I
Hún hét Elínbjörg Halldórsdóttir og var ráðskona Guðmundar Ásbjörnssonar á Fjölnisvegi 9 þegar ég var að vaxa úr grasi.
Á Fjölnisveginum var hún í 22 ár en áður bjó fólkið sem fluttist á Fjölnisveginn á Njálsgötu 30 og þar var Ella ráðskona 1 ár, eftir því sem ég kemst næst.
Elínbjörg var fædd 30. apríl 1897.
Á íslenskum búningi Elínbjörg Halldórsdóttir - nær barnavagninum og Jóhanna Gísladóttir dætur hennar Guðmunda og Valgerður Guðmundsdætur og Guðbjörg með Andrés á fyrsta ári.
Gísli Halldórsson arkitekt segir svo um systur sína.
Elínbjörg var elst okkar...... Fyrstu árin var hún heimavinnandi við bústörf, en á vorin og fram eftir sumri vann hún í Melshúsum á Seltjarnarnesi, en það var stór fiskvinnslustöð sem Thor Jensen hafði þá nýreist. Ætlunin var að byggja þar einnig hafskipabryggju og var hún í raun langt komin þegar sýnt var að erfitt yrði að láta togara sigla inn Skerjafjörð, vegna Lönguskerja, svo aldrei var lokið við hana. Elínbjörg giftist aldrei og átti ekki börn. Síðar gerðist hún ráðskona hjá Guðmundi Ásbjörnssyni, sem var kaupsýslumaður og forseti borgarstjórnar .....................Eftir lát Guðmundar vann hún lengi við heilsugæslu í Laugarnesskóla. Elínbjörg lést 1970."
Mér þótti svo undur vænt um hana Ellu og sótti margt til hennar. Hún var þriðja konan í lífi mínu, eftir mömmu og ömmu. Ekki svo að ein hafi leyft það sem hinar bönnuðu, eða slíkt. Mér finnst eins og það hafi verið fullt samræmi í því hvernig þær umgengust stelpuna en það var óneitanlega þægilegt að geta farið milli kvenna, og fundið þá sem hafði mestan tíma. Allar höfðu þær lag á að hafa ofan af fyrir mér.
Ráðskonustörfunum fylgdu oft miklar annir. Það var algengt að stjórnarfundir í þeim mörgu stjórnum sem Guðmundur átti sæti í væru haldnir á heimilinu. Á þessum fundum voru veitingar, oft smurðar snittur á danska vísu og sæt kaka með kaffi og tei.
Flesta sunnudaga var standandi borð með kræsingum. Þá var frændfólk Guðmundar velkomið í heimsókn - og ég líka. Kynntist ég því yngstu kynslóðinni vel og þótti leiðinlegt þegar tengslin rofnuðu nokkuð skyndilega.
Ella var mjög flink í matreiðslu og hjá henni kynntist ég ýmsu sem þá var nýjung og ég sóttist eftir að fá að vera með henni í eldhúsinu. Ég man hvernig hún bjó til kramarhús, Napóleonskökur og svani úr vatnsdeigi. Ella bjó til ís áður en frystir kom á heimilið og mér er minnisstætt þegar hún ætlaði að gæða mér á banana. Það voru mikil vonbrigði.
Í eldhúsinu var merkileg bjalla. Ofan við bjölluna var þunnur viðarkassi með númeruðum spjöldum og gleri fyrir. Þegar bjallan klingdi féll niður eitt af þessum spjöldum og sást þá á númerinu úr hvaða herbergi var hringt eða hvort það var dyrabjallan að framan eða við bakdyrnar og þá þurfti ráðskonan auðvitað að sleppa því sem hún var að gera og bregðast við.
Í stofunni var leðurpulla frá Norður Afríku sem ég sat oft á. Það var oft látið óátalið að ég laumaði mér inn á ýmsa fundi og settist á þessu pullu. Mér voru sagðar sögur af þessu athæfi mínu seinna, svo sennilega man ég þetta ekki beint, en það er samt hluti af minningum mínum. Sú saga sem oftast var endurtekin var sagan af fundi í stjórn KFUM. Ég sat sem sé á pullunni góðu og fylgdist með herrunum, en svo kom að kaffi og þá sagði ég: Ég heiti Fríða. Ég heiti Fríða." Engin viðbrögð. Ég heiti Hólmfríður. Ég heiti Hólmfríður. Ég heiti Hólmfríður Pétursdóttir og hann séra Bjarni skírði mig." Þá á sá hinn sami séra Bjarni að hafa sagt: Þú ert þá bærilega skírð telpa mín."
Þegar Ella lést í janúar 1970 var ég ung og fannst að ég væri ómissandi skólastjóri því í janúar gerðist alltaf eitthvað í heimavist sem betra væri að taka á strax.
Ég fór því ekki suður til að vera við útför hennar, svo þessi skrif eru meðal annars mjög síðbúinn þakklætis og virðingarvottur.
Minningar mínar um Ellu eru ekki nærri tæmdar. Meira síðar.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 3.8.2009 kl. 09:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.