22.4.2009 | 21:04
Dóttir njósnarans II
Þá er ég búin að lesa bókina hans Finnboga Hermannssonar til enda og hafði satt að segja mjög gaman af, burt séð frá þessum tveimur köflum sem ég hef áður gert að umræðuefni og eru eiginlega í engu samræmi við annað í þessari bók.
Við Finnbogi gætum hafa hist einhvern tíman á Skólavörðuholtinu eða á Njarðargötunni og tekið undir með barnastóðinu sem æpti - Skafarinn, skafarinn - þegar veghefillinn fór um götuna nú eða - Beljurnar, beljurnar, þegar kýrnar voru reknar eftir götunni niður í Vatnsmýri.
Hafi ég einhvern tíman haft einhverja hugmynd um hvernig ég ætlaði að nálgast þessi skrif um fólkið mitt er augljóst að það hefur allt riðlast.. Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn að ég er fædd í ríki Kristjáns konungs X. En meira um það síðar.
Við Finnbogi eigum það sameiginlegt að finnast ekki tekið á arfleifð kalda stríðsins af nógri alvöru. Þetta voru grafalvarlegir tímar.
En fyrst að jarðveginum.
Ég man enn nákvæmlega hvar ég var þegar ég áttaði mig á því að Kóreustríðið væri hafið. Ég vará Miklubraut 40 að heimsækja Maríu Guðmundsdóttur sem var næstum vikulegur gestur á Fjölnisveginum hjá Guðmundi Ásbjörnssyni og við Maja vorum líka stundum saman í sumarbústað Guðmundar, Ásbirningabúð á Þingvöllum. Ég var í eldhúsinu á Miklubrautinni og fréttir í útvarpinu og ég varð skelfingu lostin.
Ég hef eiginlega komist að því að þrátt fyrir mikið öryggi og elsku hafi, jafnframt djúpstæðri öryggiskennd, búið um sig mjög sérhæfður ótti við stríð
Fyrstu kynni mín af stríði hafa ábyggilega verið enskir dátar í kampi sem var fyrir ofan Bústaðaveg rétt hjá golfvellinum og ekki langt frá bæ Bøgeskov. Við áttum þarna sumarbústað nokkurn vegin þar sem gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegar eru nú. Í þennan sumarbústað fluttum við á vorin og heim aftur á haustin, en afi og pabbi hjóluðu til vinnu. Síðar var keyptur jeppi.
Andrés bróðir minn hafði gaman af því að segja þá sögu að þegar fréttist að Bretar væru að leita sér að landi fyrir braggahverfi hafi þeir Guðmundur Nikulásson og Kristinn losað úr vagninum sem kamrar fólks voru tæmdir í yfir þann hluta landsins í Fossvoginum sem hefði getað freistað Breta til að setja niður kamp. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það.
Heiman af Fjölnisvegi sást vel yfir Vatnsmýrina og flugvöllinn og flugvélahljóð voru undirspil allra athafna. Mér finnst að ég hafi helst tekið eftir þeim ef eitthvað óvenjulegt heyrðist.
Mest áhrif held ég að hafi haft það sem ég heyrði fullorðna fólkið tala um. Ég vandist því fljótt að láta fara lítið fyrir mér og hlusta, mér fannst svo gaman að hlusta.Á þessum tíma má segja að ég hafi verið eina barnið í húsinu, Andrés orðinn unglingur og fór fljótlega að vera meira hjá unnustunni en heima. Fullorðnir voru 6. Ég fór um allt hús og hlustaði. Ekki það að ég hafi ekki talað líka einhver ósköp,en ekki þegar ég vildi hlusta. Ég man enn þegar verið var að venja mig af því að tala út í eitt.
Guðmundur kom niður til okkar á hverjum degi oftast á sama tíma, eftir kvöldmatinn og þau ræddu viðburði dagsins. Í endurminningunni finnst mér þau hafa rætt af virðingu um andstæðinga í pólitík. Ég heyrði annars staðar háð og uppnefni, fullyrðingar og fordóma.
Eitthvað af stríðsóttanum gæti átt rætur í því sem ég heyrði án þess að skilja.
Eitt er það sem örugglega hafði hvað mest með þessa óttaspíru að gera og það var lyktin af pabba stundum þegar hann kom heim frá vinnu. Stundum var það vegna eldsvoða. Ég man vel þegar stórt timburhús brann og hann kom heim með rauð augu sviðnar augnhár og brúnir og lyktin setti að mér óhug. Sama má segja eftir NATO slaginn 1949.Þá varð ég fyrir áfalli þegar pabbi kom heim eins og hann var á sig kominn.
Ég man vel að ég vildi ekki að blöð sem pabbi keypti stundum Popular Mechanic War væru sjáanleg en önnur Pupular Mechanic blöð skoðaði ég með áfergju.
Þessari stríðsóttaspíru var það að kenna að ég man enn þetta með upphaf Kóreustríðsins.
En svo fór þessi spíra að vaxta og varð á endanum ofvaxin jurt og er líklega best að geyma það til næstu færslu.
Leiðrétting auðvitað get ég ekki munað eftir enskum dátum, þeir hljóta að hafa verið bandarískir. Það er svona að skrifa af fingrum fram í geðshræringu..
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 13.9.2009 kl. 20:41 | Facebook
Athugasemdir
Það er mikil blessun að þú komst auga á bloggið.
Sigurbjörn Sveinsson, 22.4.2009 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.