Færsluflokkur: Grúsk

Örlítið meira úr fórum ömmu og langömmu


Í brúna bréfpokanum sem fylgdi ömmu Ólöfu til borgarinnar leyndist fleira en það sem ég sagði frá í fyrri umfjöllun  um erfiðleikana sem heimilið á Kiðafelli í Kjós mátti þola um aldamótið 1900.


Í pokanum eru slitrur af tveimur bókum.


Önnur er Sagan af Ásmundi Víkingi inum írska, gefin út í Reykjavík MDCCCLXVI  1866, kostuð  af Einari Þórðarsyni og prentuð í Prentsmiðju Íslands. Hún tollir í bandinu, en er þónokkuð rifin. Hún er vandlega merkt Gísla Gestssyni.


Hin er öll í slitrum og án kápu, en á einu blaðinu stendur:,,Framhaldi í 2. árg. Draupnis."
Mest virðist vera um einhverjar sögur af biskupum og öðrum heldri mönnum.

 Kemur í ljós þegar nútíma leitartækni er notuð að Torfhildur Hólm (1845-1918) gaf úr tímaritið Draupni 1891 -1908 og birti þar skáldsögur sínar um Jón Vídalín og Jón biskup Arason Þessar upplýsingar fann ég á netinu í Tímariti Máls og menningar ódagsettu en af innihaldi má ráða að það sé líklega frá 2007.


Svo eru þarna slitrur úr svipuðu riti og mun það vera það sem eftir er af þessu eintaki af Jóni Vídalín.

 Draupnir var auðvitað hringur Óðins.


Eina ráðið til að vita hvaða blaðsíður fylgja hverju þar sem tvö blöð eru með sama blaðsíðutali er að lesa og finna út úr samhenginu. Það geri ég næst þegar ég dreg fram pokann góða.

Í pokanum skal þetta geymt áfram í því ástandi sem það er.ömmur á Fjölnisvegi


Til að tæma pokann alveg ætla ég að minnast á 2 bréf og eitt kort.
Kortið er frá Guðríði ömmu minni til Ólafar ömmu og er orðalagið þetta yndislega hlýja og rómantíska mál sem þeim var tamt en okkur ekki, og finnst jafn vel væmið.


Fyrra bréfið er frá 1957 og hefst á elsku amma og því lýkur á þinn Kiddi.
Kristinn (1935 - 1963) var sonur Ólafs Einarssonar, sem var kenndur við Háholt en hann var sonur Kristrúnar Gísladóttur sem var ein af systrunum fimm dætrum Sesselju og Gísla á Kiðafelli. Kristinn ólst að miklu leyti upp á Neðra Hálsi.
Kiddi segir frá því af hverju hann er farinn að vinna í vél á gömlum togara sem gerður er út frá Flateyri og segir Ólöfu sem hann kallar ömmu allt gott af sínum högum og skýrir fyrir henni af hverju hann gat ekki komið upp í Kjós til þess að kveðja.Lautartúr frá Öxnafelli


Hitt bréfið er frá Sesselju móðursystir minni en hún bjó á Öxnafelli í Eyjafirði það er frá 1963 og skrifað rétt fyrir áttræðis afmæli ömmu. Þetta er afmælisbréf  með almennum fréttum af heilsufari, veðri og búskap.

Þá er lokið sögu þess sem brúni pokinn hafði að geyma.

 


Úr fórum ömmu og langömmu

 

Brúni pokinn

Á borðinu við hliðina á tölvunni liggur gamall brúnn umbúðapoki. Þessi poki barst í mínar hendur eftir miklum krókaleiðum. Pokann hafði Ólöf amma mín haft með sér frá Hálsi þegar hún fór til Ágústu dóttur sinnar til dvalar og reiknaði ekki með að dveljast meira í Kjósinni.

Djúpstæð sorg altók mig þegar ég tók upp úr pokanum og fór að lesa gömul lúin blöðin.

Þarna er ræða flutt við jarðarför Gests Jónssonarfrá Kiðafelli flutt í Saurbæ 2. ágúst1885 Gestur hafði drukknað fram undan Seltjarnarnesi 11. júní 1885.

Ekki treysti ég mér til að setja mig í spor þeirra sem missa ástvini í sjó og bíða upp á von og óvon hvort líkið finnist.

Gestur sem var fæddur 23.október 1845 var faðir Ólafar ömmu og kona hans var Guðrún Gísladóttir. Hún var fædd 20. júlí 1850 og látin 14. apríl 1933. Og eins og þar segir:,,.geymir....ástkæra minningu í hjarta sárt saknandi ekkja sem hann eptirlét með 2 eptirlifandi börn en 4 eru á undan honum komin heim til hinna himnesku föður húsa og fagna honum á friðarins landi."Þessi eftirlifandi börn voru Gísli fæddur 1877 og Ólöf fædd 1883.

Í pokanum var einnig húskveðja og líkræða haldnar við jarðarför Gísla Guðmundssonar frá Kiðafelli sem fæddur var 11. júlí 1817 og dáinn 13. apríl 1899.Kona hans var Sesselja Kortsdóttir fædd 21. ágúst 1822 og látin 11. júní 1911. Brúðkaup sitt héldu þau 1844. Þau voru í farsælu hjónabandi , segir þar, í 54 ½ ár og bjuggu í 40 ár í Útkoti í Eyrarhverfi. Varð þeim 11 barna auðið, lifa af þeim 5 dætur en 6 eru önduð.

Í líkræðunni les ég:., Og nú fyrir skömmu bættist það ofan á þunga elliannmarka þína svo sem sjónleysið ......að sú sára sorgarfregn barst þjer til eyrna að einkasonur þinn væri með sviplegum atburðum  látinn frá munaðarlausum börnum

Sesselja og Gísli voru foreldrar Guðrúnar langömmu minnar og Valgerðar langömmu minnar líka.

  langammaogandrés  fjölskyldmeðlangömmuogadda   valgerður  ömmur ungar aðal copy

Smellið á myndirnar til að sjá nöfnin. 

Prestur í Kjósinni á þessum tíma var séra Þorkell Bjarnason.            

Tvö bréf úr pokanum bera þess merki að hafa verið brotin saman trúlega geymd saman í umslagi. Þau eru mjög lúin og mikið handfjötluð.

Það eldra er frá því í janúar 1893 skrifað af Gísla Gíslasyni (fæddur 1851) einkasyninum til föður síns Gísla Guðmundssonar. Það er skrifað í sjóbúð í Gerðum í Garði. Gísli lýsir fyrir föður sínum hvernig útgerðin hefur gengið um haustið og telur sig heppinn með formann og á von á a.m.k. 60 krónum í laun.

Hitt bréfið þykir mér átakanlegast af þessu öllu. Það er skrifað í Húsatóftum í Garði 9. apríl 1899 Bréfið skrifar Guðmundur Jónsson formaðurinn sem Gísli Gíslasonreri hjá. Gísli hafði drukknað í Garðsjó ásamt fleiri mönnum.

GísladæturBréfið ritar formaðurinn samdægurs að lokinni jarðarför Gísla.og segist hafa leyst það starf sem honum kom við með alúð og fúsum vilja. Svo gerir hann grein fyrir útfararkostnaði sundurliðað samtals 24 krónur og 40 aurar Síðan telur hann upp líkmennina, nafn og heimili, segir að þeim hafi verið gefið kaffi og hver lagði það til en það hafi verið framreitt heima hjá honum Þá segir hverjar gáfu kransa á kistuna. Bréfinu lýkur svona: ,,Enda ég svo bréf þetta með góðri kveðju til Gísla Gestssonar, ef honum auðnast að koma til lands og svo jafnframt systrum þínum. Kveð ég þig svo ásamt þeim, með einlægum vinarhug. Guð veri með þér og þeim."

Þegar hér er komið er Guðrún búin að missa 4 börn, manninn sinn,  bróður sinn og föður en það var ekki allt búið enn.  

Sonur hennar Gísli Gestsson fæddur 1877 fórst með Fálkanum í miklu fárviðri sem skall á síðustu dagana í apríl árið 1900.Þá fórust allir skipverjar 2, Gísli og Jón Eiríksson, frá Kiðafelli og 2, bræðurnir Pétur og Einar, frá Tindstöðum og 12 menn aðrir.Petur olafssonSkipstjóri á Fálkanum,sem gerður var út af útgerð Geirs Zoëga, var Pétur Ólafsson frá Tindstöðum. Hann var heitbundinn föðurömmu minni Guðríði Þórðardóttur.

Enn fer ég í pokann og dreg upp stílabók, fullskrifaða. Fyrst í henni er ávarp til sveitunga frá Sigríði Þorkelsdóttur prestsdóttur á Reynivöllum, dags. 2. desember 1885 þar sem hún hvetur þá til að sýna ekkjunni Guðrúnu Gísladóttur á Kiðafelli hluttekning sína með því að reyna til að gleðja hana  ,,Því hefur mjer komið til hugar að biðja fólk hjer að rjetta henni einhverja litla hjálp sem þakklátlega verður á móti tekið."

Á 6 blaðsíðum eru rituð nöfn fólks  og bæjarnöfn, eitt eða tvö nöfn í línu. Samtals söfnuðust 92 krónur og 88 aurar söfnunarlisti lok

Það kemur mér á óvart hvað flestir þeir sem skrifuðu þessi blöð sem ég hef verið að lesa skrifa fallega rithönd.

Hitt kemur mér ekki á óvart hvað fólk var óhemju flámælt. Ég man vel eftir því.

Efni pokans er ekki alveg tæmt, en það voru þessi blöð sem vöktu sorgina innra með mér, áþekka líðan minni árið 1961 sem var mitt annus horribles.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband