Kerlingaraup

Þá er barsarinn afstaðinn. Það var góður dagur og skemmtilegur á laugardaginn. Margt fólk lagði leið sína á Holtaveginn til að gera góð kaup og styðja við starf KFUK.

Vöfflur með rjóma og sultu runnu ljúflega niður með kaffi eða kakói og fólk gaf sér góðan tíma til að tala saman.

Mér fannst gott að hafa komið því í verk að tína fram handavinnu frumkvöðlanna, og er nú komið að lokum þessarar upprifjunar að sinni.

Stelpan, sem var bara tveggja, þriggja ára þegar hún fór að fara á saumafundi, varð nothæf í sendiferðir. Fyrst fór hún í stuttar ferðir, eins og niður á Urðarstíg til Katrínar á Fögruvöllum. Þangað sótti hún egg. Það voru hænsn í skúr í portinu. Katrín átti líka alltaf heimagerða mola, sem hún gaf ungum gestum. Mikið voru þeir góðir. Við vorum ekki ofmettuð af sælgæti á þessum árum.

Stundum var erindið annað. Það þurfti að fara með garn, eða fá lánað garn eða eitthvað annað sem var til á öðrum bænum en ekki hinum, á þessum tíma þegar margt var skammtað og lítið fékkst.

_ura_milla_gudda_kristin_emma_orhildur.jpgKristín Friðriksdóttir var fædd 1878 og því ári eldri en Kristinn afi og 5 árum eldri en Guðríður amma. Kristín giftist Steini Sigurðssyni, klæðskera 1903 og fluttu þau fyrst til Akureyrar og síðan Vestmannaeyja. Til Reykjavíkur komu þau svo aftur 1929. Þau eignuðust 10 börn, tvo dóu í bernsku.

Ég þurfti að grafa þetta upp til að gera mér grein fyrir sambandi mínu og Kristínar.

 

 

 

 

kristin_fri_riks_og_fri_a.jpgÞegar ég man fyrst eftir henni var hún hjá okkur í sumarbústaðnum í Fossvogi. Þá gekk hún við tvo stafi, samt man ég að hún fór í eltingarleik við mig, og potaði í mig með öðrum stafnum, sem mér þótti auðvitað skemmtilegast, svo ég lét auðveldlega ná mér. Hef líklega heldur ekki hlaupið hart, þá frekar en síðar. (Hvenær hættum við annars að nota hart um hraða?)

Kristín var glaðvær og mikill æringi. Mér þótti hún skemmtileg og góð.

Það var heldur ekki langt að fara í sendiferðir til Kristínar nokkrum árum seinna, því hún bjó þá á horni Bergstaðastrætis og Bragagötu, neðanvert við Bergstaðastræti, vinstra megin þegar gengið er niður Bragagötuna. Uppi á efstu hæð bjó hún og hvernig hún fór þessa stiga var mér þá þegar ráðgáta.

Kristín Fr. afmæliÞegar þær voru að sauma fyrir Vindáshlíð bjó hún hjá Önnu dóttur sinni í Miðtúni og þangað kom ég oft. Skápurinn hennar góði flutti með henni. Góður var skápurinn af því að í honum var suðusúkkulaði og servíettur. Á árunum sem hún bjó á Bergstaðastræti, sem í daglegu tali var nefndur Bergsstaðastígur, var sendillinn að safna servíettum. Þarna áskotnuðust mér dýrgripir og af þeim var þessi indæli súkkulaðiilmur.

 

 

 

 

 

Kristín Fr., Friðrik Fr. og fjölskSíðast heimsótti ég Kristínu til Auðar, dóttur hennar. Þá gat hún lítið gengið, en var enn sama Kristín og forðum elti lítið stelpuskott um sumarbústaðaland þar sem nú eru stór gatnamót ofan Borgarspítala.(Landsspítala, Fossvogi)

Kristín lést í júní 1968.

 

 

Læt ég svo lokið þessu kerlingaraupi að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband