Kerlingaraup

sumaklubburinn_i_fossvoginum.jpgÉg veit svo sem ekkert hvað ég hef farið oft á saumafundi með ömmu. Ég kom þó heim til nokkurra vinkvenna hennar. Ég man mis mikið eftir þeim, sjálfsagt eftir því sem þær hafa gefið sig að þessum kotroskna stelpukrakka.

Einna minnisstæðast er mér heimili biskupsdætranna Þórhildar og Annie Helgason. Þær bjuggu vestur við sjó, gæti hafa verið við Sörlaskjól.

Þórhildur var einstaklega hugulsöm við krakkann og hafði til blöð og liti, eða annað sem hún hélt að ég gæti dundað mér við. Annars hefur það komið fram áður á þessum vettvangi, hvað mér þótti gaman að hlusta á fólk.. Enn betra var þó að finna að hugsað hafði verið fyrir því að mér leiddist ekki.

Þarna var líka hugsað fyrir veitingum fyrir stelpuna, marengstoppar, bleikir og hvítir, það var nú toppurinn.

Það síðasta sem Þórhildur gerði fyrir vinkonu sína Guddu var að vaka yfir henni síðustu klukkustundirnar í lífi hennar.

Ég man líka vel eftir mér á Framnesvegi 1 (eða var það 2), en þar bjó Helga Guðmundsdóttir, móðir Sigurðar Guðmundssonar, sem varð yfirsmiður í Vindáshlíð þegar þar að kom.

saumaklubburinn_i_heimsokn_i_fossv.jpgMér finnst ég hafa komið á heimili dóttur Amalíu, Kristínar, sem aldrei var kölluð annað en Dídí.

Annars eru þessar styttingar nafna merkilegar. Ég man vel eftir því að hafa verið spurð að nafni og síðan hvað ég væri  kölluð. Það var eins og það væri sjálfsagt að nota gælunöfn, eða styttingar á nöfnum. Þær vinkonur voru Gudda, Milla, Emma, Þura, Lauga,og Dagga, sem ég get talið upp í fljótu bragði. Þórhildur var alltaf Þórhildur og Anna Kristmundsdóttir var ekki bara Anna, heldur alltaf Anna Kristmunds.

Ég man ekki eftir mér heima hjá Emilíu, en vissi þegar hún flutti í Bakkagerði og gæti hafa komið þar inn í forstofu í sendiferð.

Í haust hef ég í fyrsta skipti, síðan ég var barn, farið á saumafundi í heimahúsi til að undirbúa basar.

Þessi hefð hefur haldist innan félagsins, færst frá einni kynslóð til annarrar, þær yngri verið kallaðar til að vera með þeim eldri og læra af þeim, eða bara til að vinna saman að sameiginlegu markmiði.

saumaklubburinn_i_vindashli_1949.jpgÉg er alveg hissa á því hvað lítið hefur breyst. Formið er hið sama. Konur mæta nærri allar á sama tíma og taka til óspilltra málanna, hver með sitt verkefni, þó eru ein eða fleiri sem geta sagt hinum til og úthlutað verkefnum, annast innkaup og haldið utan um kostnaðinn og annað sem varðar framkvæmdina. Þátttakendur leggja síðan peninga í sjóð, eftir efnum og ástæðum. Núna fer þessi sjóður til efniskaupa, en í gamla daga greiddu konur í sjúkrasjóð félagsins sem stofnaður var 7. maí 1912 eða 1915. 

Eftir dágóða vinnutörn er lesin hugvekja og síðan er beðið saman. Þá er gengið að kaffiborði og talað um daginn og veginn, þó í haust hafi landsmálin verið látin liggja að mestu í láginni. Eftir andlega og líkamlega næringu er svo tekið til við handavinnu á ný. Þegar nóg er unnið og tíminn, sem ætlaður var til samverunnar, út runninn heldur hver til síns heima með handavinnu til að vinna þar til næst.

Framhald.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband