Gömlu sundlaugarnar í Laugardal I.

Sundlaugar  0

 

Alltaf verður eitthvert atvik mér og blogginu mínu til bjargar.

Fyrir skömmu hitti bóndi minn bráðhressan mann á tíræðis aldri. Eins og gengur slitu þeir ekki tali fyrr en þeir höfðu fundið fólk sem báðir þekktu. Það reyndist nær en bónda minn grunaði. Öldungurinn hafði unnið lengi í Sundlaugum Reykjavíkur í Laugardal þar sem afi minn Kristinn Ágúst Jónsson var forstöðumaður.

Eins og fram kemur í skrifum mínum um afa og kistilinn hans (Úr handraðanum og Aldrei að standa þegar þú getur setið) fór ég oft með honum í Laugarnar og var þar heilu vaktirnar. Þegar ég eltist fækkaði laugarferðum.  Þess vegna getur skakkað einhverju í upprifjuninni og engin nöfn hef ég sett á myndirnar sem ég setti í albúm í gær.

Húsið var timburhús og dökkbæsaður viður að innan og lakkað í hólf og gólf. Á gólfunum voru kókós- eða hampdreglar. Ég man hvað það var vont að detta á þá.

Gengið var inn að sunnan og þegar inn var komið varð fyrst fyrir aðgöngumiðasala, þar sem líka var hægt að leigja sundboli, skýlur og handklæði.

sundlaugar 4Síðan komu á þessum tíma tveir salir, karlasalur og kvennasalur og gangur að þeim, ef ég man rétt var hægt að ganga inn að austanverðunni, klæða sig úr, og ganga svo út að vestan og skila fötunum á herðatré með riðnu neti í geymslu bak við borð. Mig minnir að þar hafi líka verið hægt að fá geymda fjármuni, úr og annað þ.h. Mér finnst líka að það hafi verið nokkrir einstaklingsklefar þarna einhvers staðar.

Sturtuklefarnir voru svo við norðurvegginn kvennasturta nær fatageymslu og karla nær lauginni. Sturtuklefarnir voru yfirleitt fullir af gufu og lykt af heita vatninu, blautum dreglinum og stundum grænu slýi.

sundlaugar 7Það var mikið verk og vandasamt að halda þessum laugum hreinum, en það eins og annað sá afi um að væri gert af stakri samviskusemi og gekk í þau verk eins og önnur ef á þurfti að halda.

  Framhald fljótlega.Sundlaugar 8sundlaugar 5


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bíð spennt eftir framhaldi...;)

Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 17:47

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta er gaman.

Karlasalurinn var beint í vestur frá miðasölunni þ.e. í suðvesturhorninu og lá því enginn gangur að honum. Kvennasalurinn var hins vegar eins og þú lýsir þarna á milli voru einstaklingsklefar. Hugsa ég gæti með nokkurri nákvæmni dregið upp grunnplanið að laugunum.

Mikil ærsl og stundum þannig að Ásgeir forseti skaut snöggt á okkur handklæðinu þannig að sveið undan.  Hann var ætíð hjá okkur með báða fætur á jörðinni og þurfti úr engum söðli að detta.

Sigurbjörn Sveinsson, 3.9.2009 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband